HVET FÓLK TIL AÐ SÆKJA ÁHUGAVERÐAN HÁDEGISFUND Á LAUGARDAG
Ég leyfi mér að fullyrða að opinn fundur með ísraelska blaðamanninum og rithöfundinum Gideon Levy í laugardagshádeginu - klukkan 12 - verði áhugaverður. Hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir Palestínu og þá einnig Ísrael? Verður ekkert lát á ófriði og mannréttindabrotum?
Gideon Levy hefur gagnrýnt ísraelsk stjórnvöld harðlega um áratugaskeið, er margverðlaunaður fyrir skrif sín en hefur einnig sætt gagnrýni sjálfur. Hann hefur haldið sínu striki í þágu mannréttinda og aldrei látið hræða sig frá því að gera það.
Hvað getur umheimurinn gert, hver er skoðun Gideons Levy á efnahagsþvingunum gagnvart Ísrael, fjárfestingarbanni; eiga listamenn að hætta að sækja Ísrael heim?
Allt kemur þetta Íslendingum við enda orðið tilefni til umræðu hér á landi. Gideon Levy mun án efa dýpka þessa umræðu.
Ég hvet alla áhugasama að mæta á fundinn í Safnahúsinu, Hverfisgötu, laugardaginn 24. júní klukkan tólf.
Fundurinn fellur inn í fundaröðina Til róttækrar skoðunar og er til hans boðað í samvinnu við félagið Ísland Palestína. Hjálmtýr Heiðdal mun flutja ávarp á fundinum og fara yfir stöðu mála og ræða hvað Íslendingum beri að gera.
Fundurinn er hugsaður sem snarpur hádegisfundur.
Allir eru velkomnir.
Sjá einnig: https://www.ogmundur.is/is/greinar/upplysandi-og-vekjandi-fundur