Fara í efni

HVÍ MÁTTU KRÍMVERJAR EKKI KJÓSA?

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 23.03.14.
Þegar Vladimir Pútín, Rússlandsforseti, fyrst orðaði að efnt skyldi til atkvæðagreiðslu meðal íbúa Krímskaga um það hvaða ríki  þeir vildu tilheyra, stóð ekki á á viðbrögðum í Brussel og Washington. Fordæmandi á báðum stöðum. Obama, Bandaríkjaforseti, kvað þetta fáheyrða ósvífni og þvert á alþjóðalög. Slík atkvæðagreiðsla væri brot á fullveldi Úkraínu sem Krímskaginn tilheyrði. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Kerry, tók enn dýpra í árinni. „Á 21. öldinni", sagði hann, „hlutuðust ríki ekki til um málefni annarra ríkja í krafti vopnavalds." Kannski gleymska stórveldis, en innrásirnar í Írak, Líbíu og Afganistan voru að sjálfsögu allar á þessari öld. Og allar að undirlagi Bandaríkjanna  - og með samþykki Kerrys.
Spurningarnar á atkvæðaseðlinum á Krímskaga voru skrítnar og hvorki Vladimir Pútin, fyrrverandi yfirmaður í KGB, leyniþjónustu Sovétmanna, heppilegur kosningaeftirlitsmaður, né eðlilegt að efna til kosninga fyrirvaralaust og með utanaðkomandi herveldi á staðnum. Þetta er réttmæt gagnrýni en varla hin að það hljóti að vera rangt að spyrja íbúa um vilja þeirra. Eða hvað?
Sjálfsákvörðunarrétturinn hefur ekki reynst einfalt mál í tímans rás enda afstaða þjóða og ríkja greinilega oftast hagsmunatengd.
Að vísu var engin kosning um þjóðarvilja undanfari þess að Katanga reif sig tímabundið lausa frá Kongó árið 1960 eða Biafra frá Nígeríu, einnig tímabundið árið 1967. Sjálfstæðisbaráttan var í báðum tilvikum brotin á bak aftur. Ég minnist vel umræðunnar um þessi tvö afrísku stríð; að það væri hreinlega siðferðilega rangt af „landshlutum" að rífa sig lausa, hvað þá ef auðlindir þar væru meiri en annars staðar í viðkomandi ríkjum. Það átti við bæði um Katanga og Bíafra.
En þetta voru engin smáhéruð, þannig er Katanga stærra en Þýskaland svo dæmi sé tekið. Og hvað varðar skiptingu Afríku í ríki í kjölfar nýlendutímans svo og stórra hluta Asíu einnig, þá voru landmæri búin til með reglustriku í London og París, heima í stofu hjá gömlu nýlenduherrunum. Og Evrópa, hún á sér líka sögu tengda forræðishyggju. Spyrjið Baska, Katalóníumenn og Skota. Hinir síðastnefndu kjósa í haust um hvaða fyrirkomulag þeir vilja hafa á sambandinu við England. Eðlilega, því þannig á að taka ákvarðanir. Í kosningum. Líka á Krímskaga, alveg óháð því hvort Krústjof hafi „gefið" Úkraínumönnum rússneskumælandi Krímskagann árið 1954 og óháð því hverjir olíu- og hernaðarhagsmunir Bandaríkjanna og Rússa eru suður við Svartahaf.
En staðbundið lýðræði er þó varla alltaf lausnin. Ekki hefðum við á suðvesturhorninu viljað missa gjaldeyrisaflandi Vestfirði og Vestmannaeyjar. Til er nokkuð sem heitir samfélag.