Fara í efni

HVORIR ERU HÆGRI SINNAÐRI, TALSMENN SAMFYLKINGAR EÐA SJÁLFSTÆÐISFLOKKS?

Varaformaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, skrifar grein í Morgunblaðið 29. september um málefni sem hann telur brýnt að taka á nú um stundir. Fyrirsögnin er lýsandi um baráttumál varaformannsins: "AUKUM VÆGI EINKAREKSTURS Í HEILBRIGÐISÞJÓNUSTU."
Þetta væri nátturlega í góðu lagi ef þessi talsmaður Samfylkingarinnar gæti fært rök fyrir því að einkarekin heilbrigðisþjónusta væri hagkvæmari, gæfi meiri gæði og drægi úr kostnaði. Rannsóknir benda til að hið gagnstæða sé uppi á teningnum, einkavæðingu innan velferðarþjónustunnar fylgi aukinn kostnaður og félagsleg mismunun. Um þetta er að hafa dæmi, innlend sem erlend.  

 Upphrópanir í stað röksemda

Í fyrrnefndri blaðagrein er ekki að finna haldbæran rökstuðning og ekkert sem hrekur það sem verkalýðshreyfingin á Norðurlöndum og hér á landi hafa haldið fram um illar afleiðingar einkavæðingar á sviði heilbrigðismála, aðeins gamalkunnar klisjur frjálshyggjumanna um hve stórkostlegt það sé að færa rekstur velferðarþjónustunnar til einkaaðila. Eins og hjá Íhaldinu, nú í seinni tíð alla vega, á skattborgarinn, samkvæmt formúleringum varaformanns Samfylkingarinnar, að borga fyrir þessa þjónustu. En ef það er nú svo, að einkarekin þjónusta er dýrari fyrir skattborgarann en samfélagslega rekin þjónusta, hvers vegna þá í ósköpunum að breyta í fyrirkomulag sem ekki gefur góða raun?
Nýlega kom út á vegum BSRB erindi eins helsta sérfræðings Svía í heilbrigðismálum, Görans Dahlgrens, þar sem hann sýnir fram á með óyggjandi hætti að einkarekin heilbrigðisþjónusta er miklu dýrari og óhagkvæmari en samfélagslega rekin þjónusta. Þá má minna á að dýrasta heilbrigðiskerfi í heiminum er hið einkarekna bandaríska kerfi. Þetta vita allir sem leggja í það vinnu að kynna sér þessi mál.

Stjórnmálaflokkur má ekki villa á sér heimildir

Nú er það eðlilegt að Ágúst Ólafur kynni sín sjónarmið eins og hver annar. Og auðvitað má Samfylkingin gerast einkavæðingarsinnuð þótt mjög finnist mér það til hins verra. En Samfylkingin má þá ekki reyna að villa á sér heimildir. Það gengur ekki að láta sem flokkurinn sé jafnaðarlega þenkjandi um leið og hann boðar grundvallarbreytingu á samfélaginu í anda stækustu peningafrjálshyggju.
Á undanförnum árum hafa klassísk gildi vinstri manna um jöfnuð og félagslegt réttlæti víða þurft að lúta í lægra haldi fyrir markaðsvæðingunni, sem nánast alls staðar hefur verið í sókn. Fyrir sitt leyti reynir verkalýðshreyfing og félagslega þenkjandi pólitísk öfl að beina sjónum manna að afleiðingum einkavæðingar og lagt mikla áherslu á rannsóknir í því skyni. Þannig er reynt að beina umræðunni í málefnalegan farveg.

Sama um afleiðingarnar

Harðir hægri sinnar hafa viljað einkavæða án tillits til skammtíma afleiðinga. Þetta hefur einfaldlega verið þeirra hugsjón og þeir trúað því að á einn eða annan hátt muni markaðsvæðing samfélagsins verða til góðs, þótt síðar verði. Rannsóknir og niðurstöður skipta þetta fólk litlu máli.Sannast sagna hélt ég að Ágúst Ólafur væri ekki á þessum buxunum.
Getur verið að talsmenn Samfylkingarinnar telji það vera til vinsælda fallið á 21. öldinni, að gerast hægri sinnaðri en hægri vængur Sjálfstæðisflokksins?
Menn hljóta að velta því fyrir sér, eftir lestur þessarar greinar varaformanns Samfylkingarinnar, um "aukið vægi einkareksturs í heilbrigðisþjónustu" , hvor flokkurinn eigi hægri sinnaðri talsmenn Samfylkingin eða Sjálfstæðisflokkurinn.