Fara í efni

HVORT BERJAST SAMTÖK VERSLUNAR OG ÞJÓNUSTU FYRIR HAG VERSLUNAREIGENDA EÐA NEYTENDA?

Það er að vissu leyti aðdáunarvert að gefast ekki upp í baráttu fyrir málstað sinn. Að sjálfsögðu spillir ekki að málstaðurinn sé góður. Það verður því miður ekki sagt um málstað Samtaka verslunar og þjónustu sem nú eina ferðina enn hamast á nauðsyn þess að hefja sölu á áfengi í almennum verslunum. Í pistli frá samtökunum í lok síðustu viku segir"Sífellt verður augljósara að tími er kominn til að heimila sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum og sérverslunum. ÁTVR er löngu horfið frá því markmiði sem lögin setja henni um að sporna gegn misnotkun áfengis. Þá er ljóst að ÁTVR stendur ekki undir kröfum neytenda um úrval léttvíns sem í boði er líkt og þær verslanir sem eru í samkeppni myndu gera..."
Er þetta rétt? Hjá ÁTVR er hægt að fá keyptar nánast allar víntegundir sem framleiddar eru og er mikið álitamál hvort víða finnist verslanir erlendis með meira en tvö þúsund tegundir á boðstólum.
Þá má ætla að með breyttu fyrirkomulagi  hækkaði áfengi í verði. Þar veldur einfaldlega stærðarhagkvæmni. Ástæðan fyrir því að verð á áfengi er hátt hér á landi er ekki álagning ÁTVR heldur skattlagning ríkisins. Verslunareigendur hafa sagt mér að þeir myndu aldrei geta haft eins lága álagningu og ÁTVR nema þá með því að hafa eingöngu í boði vinsælustu tegundirnar. Þetta er mergurinn málsins. Á allra smæstu útsölustöðum ÁTVR á landsbyggðinni eru að lágmarki 80 tegundir áfengis. Halda menn að svo yrði áfram eftir að ÁTVR yrði lögð niður?

Áhugamenn um sölu á áfengi í matvöruverslunum hafa flestir viljað setja einhver skilyrði fyrir leyfi til að versla með áfengi. Þetta þýðir að einvörðungu stærri keðjurnar hefðu tök á að sinna verkefninu. Einokun stórverslana tæki við af ÁTVR ef þessi háttur yrði hafður á. En hvað yrði unnið með því? Jú, það vinnst eitt með því. Umbjóðendur Samtaka verslunar og þjónustu hefðu komist yfir á fengsæl mið.

En mér er spurn: Líta Samtök verslunar og þjónustu ekki á það sem sitt hlutverk að bæta hag neytenda, það er að segja viðskiptavinanna? Ef það er nú svo að úrval minnkaði og verðið hækkaði, væri þá ekki undarlegt að berjast fyrir fyrirkomulagi sem hefði slíkt í för með sér?
Og varðandi áfengisstefnuna, þá get ég tekið undir með SVÞ að ÁTVR hefur í seinni tíð stundum farið út á ystu nöf í áróðursmennsku fyrir sinni vöru og hef ég gagnrýnt það.

ÁTVR á að sinna viðskiptavinum sínum vel og bjóða upp á góða þjónustu en þessi stofnun á ekki að keppa að því að koma eins miklu áfengi niður í þjóðina eins og framast kostur er. Henni er fengið sitt hlutverk til að þess að reka ábyrga áfengisstefnu. Þegar hún ekki rís undir því hlutverki sínu á að benda henni á það, ekki hvetja til þess að hlaupið verði  frá þessu ætlunarverki eins og Samtök verslunar og þjónustu gera.
Samtök verslunar og þjónustu telja sig án efa vera að tala fyrir framförum og framtíð; einokun heyri fortíðinni til. Staðreyndin er sú að nánast alls staðar í heiminum breytast nú viðhorfin ört bæði varðandi sölu á áfengi og tóbaki og reglum sem gilda í samfélaginu um neyslu þessara efna. Í þeirri umræðu þykir það ekki bera vott um afturhaldssemi að vilja sýna varfærni og ábyrgð. Þvert á móti þykja slík viðhorf vísa inn í framtíðina.

Margar greinar er að finna um þetta efni hér á síðunni, t.d. þessi HÉR