Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra kom fram í löngu viðtali á Stöð 2 í gærkvöldi. Í dag birtist síðan útskrift viðtalsins undir fyrirsögninni Halldór gerir upp Íraksstríðið. Þetta var vægast sagt óheppileg fyrirsögn því Halldór óð lengra út í fen mótsagna og nýrra yfirlýsinga sem gera hlut þeirra Davíðs Oddsonar enn verri en nokkurn hafði órað fyrir.
Í fyrsta lagi skulum við staðnæmast við mótsagnirnar. Forsætisráðherrann núverandi segir að málið hafi verið af slíkri stærðargráðu að ekki hafi verið annað fært en forsætisráðherra kæmi að því auk utanríkisráðherra. Á hinn bóginn er jafnframt svo að skilja að málið sé svo smátt að þessir ráðherrar tveir hafi ekki einu sinni tilkynningaskyldu gagnvart ríkisstjórn og Alþingi. Reyndar staðhæfir Halldór í viðtalinu, og hefur gert áður, að þótt tilkynningaskylda sé ekki fyrir hendi þá hafi bæði ríkisstjórn og Alþingi, þ.e. utanríkismálanefnd, verið upplýst um málið: Halldór Ásgrímsson:"... þetta mál var náttúrulega miklu meira á könnu utanríkisráðherra og utanríkisráðuneytisins í öllu málinu. Ég var miklu meira til svara í þessu máli allan tímann. Hins vegar var málið það stórt að það er eðlilegt að endanleg ákvörðun sé tekin bæði af utanríkisráðherra og forsætisráðherra vegna þess að forsætisráðherra koma slík mál við. Vegna þess að öll stærri mál varða forsætisráðuneytið...það var ekki ríkisstjórnarinnar að taka þessa ákvörðun, það var okkar forsætisráðherra en ríkisstjórnin var fullkomlega meðvituð um það að svona yrði hún..."
Í öðru lagi hljótum við að staðnæmast við þær upplýsingar Halldórs Ásgrímssonar að Bandaríkjastjórn hafi gert þá kröfu að málið færi leynt og svo einnig hitt að það eru embættismenn sem flytja boðskapinn á milli. Þrátt fyrir getgátur fréttamannsins um að bandaríski sendiherrann hafi verið boðaður í forsætisráðuneytið bendir allt til þess að hann hafi komið þangað að eigin frumkvæði. Halldór er kallaður út af ríkisstjórnarfundi (sem hann stýrði í fjarveru Davíðs) til að taka við skilaboðum. Ríkisstjórnin var hins vegar ekki að ræða málið, henni var aðeins greint frá málavöxtum (eða hvað? þetta er óljóst) og síðar er hringt í sendiherrann eftir samtal Davíðs og Halldórs. Nú vitum við ekki hver embættismaðurinn var sem færði Halldóri boðskap bandaríska sendiherrans, að öllum líkindum var það Ólafur Davíðsson ráðuneytisstjóri eða Albert Jónsson öryggismálafulltrúi Davíðs. Enn síður vitum við hver þessi boðskapur var. Ekkert virðist skráð um þessa atburðarás sem fram fer á göngum ráðuneytisins – það er að segja, ef allt er sem sýnist! Ef atburðarásin væri þessi hlyti það að verða öllum áhugamönnum um vönduð vinnubrögð og sjálfstæði Íslands umhugsunarefni!
Um er að ræða stórpólitískt mál, eitt hið stærsta mál síðari tíma, á heimsvísu. Bandaríkjastjórn tekst ekki að beygja Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna undir vilja sinn og bregður þá á það ráð að fá tiltekin ríki til vitorðs við sig ("...þeir biðja um ...pólitískan stuðning...") og skapa sér þannig pólitískt bakland til ólöglegra aðgerða. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands eru beðnir um að pukrast með málið. Þeir hlýða og taka síðan við fyrirmælum bandaríska sendiherrans fyrir milligöngu Ólafs eða Alberts eða þá skilaboðum um hver framvindan verður.
Reyndar er forsætisráðherra loðinn og ruglingslegur í yfirlýsingum sínum hvað þetta varðar. Af viðtalinu mætti ráða að sendiherrann sé að rukka þá félaga um yfirlýsingu um stuðning. Líklegt má heita að fulltrúar Bandaríkjastjórnar (þeir mættu líka í utanríkisráðuneytið) hafi verið að tilkynna að nú væri komið að því að þegar gert samkomulag gengi í gildi með opinberri yfirlýsingu í Washington, nokkuð sem þeim félögum DO og HÁ er síðan uppálagt að staðfesta með símtali: Fréttamaður ( Brynhildur): "Og þá er þetta alveg orðið ljóst að það sem þið tilkynnið eða embættismaður forsætisráðuneytisins tilkynnir sendiherranum er að Ísland, já við ætlum að vera í þessum hópi? Halldór Ásgrímsson: Við ætlum að vera í þessum hópi og veita þennan stuðning, þennan pólitíska stuðning.... Brynhildur: En ertu ekki að taka þessa ákvörðun í miðjum ríkisstjórnarfundi þegar þú eða sem sagt er ekki búið að tilkynna sendiherranum það þegar að þú heldur síðan áfram með ríkisstjórnarfundinn? Halldór Ásgrímsson: Nei, ekki fyrr en eftir að ég er búinn að tala við Davíð Oddsson sem var ekki á fundinum. Brynhildur: Og er þá sendiherranum tilkynnt þetta aftur? Halldór Ásgrímsson: Já, sendiherranum er tilkynnt það. Brynhildur: Hann bíður þá bara í forsætisráðuneytinu? Halldór Ásgrímsson: Ja, það var hringt í hann."
Í þriðja lagi er ljóst að þröngir (meintir) eiginhagsmunir tengjast þeirri afstöðu sem ráðherrarnir tveir tóku fyrir Íslands hönd – ekki beint þannig að skuldbindandi loforð væru gefin heldur óbeint enda segir Halldór að þeim hafi orðið þungt í skapi þegar þeim var ekki launaður greiðinn. Grípum niður í viðtalinu þar sem spurt er um tengingu málsins við áframhaldandi veru bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli: Halldór ".... En það liggur náttúrulega í augum uppi að menn hugsa meir til þeirra sem að eru vinir og standa með manni en þeirra sem að maður er ekki í samstarfi við. Þetta á bæði við í mannlegum samskiptum og í samstarfi þjóða. Og það hefur verið mjög náið samstarf milli Íslands, Bretlands, Bandaríkjanna og nokkurra annarra þjóða á sviði varnar- og öryggismála. Þannig að við náttúrulega tökum það mjög alvarlega þegar að þessar vinaþjóðir biðja um ákveðinn stuðning. Það vill nú svo til. Brynhildur: Þannig að óbeint tengist þetta? Halldór Ásgrímsson: Já, ég get ekki sagt annað en að auðvitað tengist þetta að einhverju leyti saman. En það voru engin hérna bein tengsl þarna á milli. Það voru engin loforð af hálfu Bandaríkjamanna eða skilyrði af okkar hálfu eins og kom nú í ljós síðar, þarna rétt fyrir kosningarnar. Brynhildur: Það hefur nú, hlýtur að hafa hleypt illu blóði í ykkur? (Það er ákvörðun Bandaríkjamanna að draga úr vígbúnaði á Keflavíkurflugvelli, innskot ÖJ) Halldór Ásgrímsson: Já, ég skal ekki neita því"
Þetta er ríkisstjórnin sem vill að við setjumst í Öryggisráð SÞ. Ég spyr, eigum við að sitja þar undir leppríkisfána? Þetta mál snýst um trúverðugleika Íslands, ríkisstjórnar landsins og að sjálfsögðu ráðherranna Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Hafi einhvern tímann verið þörf á rannsókn á þessu máli þá er hún orðin margfalt meiri eftir þessa síðustu tilraun Halldórs Ásgrímssonar til að "gera upp Íraksstríðið".
9.2.2005
Stöð 2
Ísland í dag
Halldór gerir upp Íraksmálið
Stuðningur Íslands við innrásina í Írak hefur mikið verið ræddur síðustu 2 ár og mörgum þótt sem erfiðlega gengi að fá upplýsingar um hvernig hann kom til, hver tók ákvörðunina og með vitund hverra. Hér á eftir fer viðtal Brynhildar Ólafsdóttur, fréttamanns við Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra þar sem hann upplýsir um allar aðstæður í kringum þessa umdeildu ákvörðun og ræðir gagnrýni sem hann hefur orðið fyrir vegna hennar. Brynhildur byrjaði á því að bera undir Halldór ummæli hans frá því í aðdraganda Íraksstríðsins sem öll bentu í þá átt að hann væri andvígur innrás.
Brynhildur Ólafsdóttir: 12. mars segirðu á þingi að það verði að ná friðsamlegri lausn og síðast 17. mars sem er nú bara degi fyrir ríkisstjórnarfundinn þar sem málið var rætt þá segirðu í viðtali við Ríkisútvarpið: Það hefur verið afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar að það sé mjög mikilvægt að öryggisráðið samþykkti nýja ályktun. Og það virðist vera sko að afstaða þín í þessu máli fyrir ríkisstjórnarfundinn hún er alveg skýr og þú margítrekar hana. Finnst þér eitthvað óeðlilegt við það að fólk sko, menn spyrji sig hvað gerðist þarna aðfaranótt 18. mars sem varð til þess að þú ákvaðst að styðja innrás í Írak og Ísland birtist á þessum lista?
Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra (B): Það liggur alveg ljóst fyrir eins og þessi ummæli sýna að það var minn vilji og ég vildi að þarna næðist friðsamleg lausn. Ég vildi að það næðist samkomulag í öryggisráðinu. Ég vildi að Saddam Hussein færi frá þannig að það þyrfti ekki að koma til innrásar. Ég var eins og allir aðrir að óska eftir því í lengstu lög. Síðan gerist það að Frakkar segja að þeir muni ávallt beita neitunarvaldi í öryggisráðinu að því er varðar nýja ályktun. Þetta er að gerast alveg á síðustu stundu.
Brynhildur: En sko, nú segir þú að þetta, það sem hafi gerst þarna aðfaranótt 18. mars er það að Frakkar voru búnir að segja að þeir ætluðu að beita neitunarvaldi.
Halldór Ásgrímsson: Ég man nú ekki nákvæmlega hvenær það.
Brynhildur: En þeir gera það nefnilega, þeir gera það löngu fyrr, þeir gera það viku fyrr. Þeir gera það 10. mars.
Halldór Ásgrímsson: Já, þess vegna var ég nú að leiðrétta að ég man nú ekki hvort það gerðist 18. mars en það lá fyrir að Frakkar myndu hérna, sögðu þetta en.
Brynhildur: Þú ert ennþá að tala um friðsamlega lausn og sko nýja ályktun í öryggisráðinu viku eftir að afstaða Frakkar liggur fyrir?
Halldór Ásgrímsson: Já, vegna þess að ég var að vonast eftir því að það næðist þrátt fyrir allt samkomulag um það. Er það eitthvað óeðlilegt af friðelskandi fólki eins og mér að maður sé að vonast eftir þvíf ram á síðustu stundu að það gerist. Ætli það hafi ekki verið allir, ætli ég hafi verið einn um það.
Brynhildur: Menn spyrja sig samt sem áður af því þetta er svo knappur tímapunktur þarna, frá því þú segir 17. mars að hérna, að þú sért fylgjandi því að það náist friðsamleg lausn og öryggisráðið samþykki nýja ályktun og þangað til daginn eftir að við erum allt í einu komin á lista.
Halldór Ásgrímsson: Einmitt á þessum tíma, þarna 17.-18. mars þá er verið að gefa Saddam Hussein frest, ég man ekki hvað hann var langur. Nú er þetta allt samkvæmt minni. Og Bandaríkjamenn og Bretar og bandamenn þeirra gefa honum ákveðinn frest.
Brynhildur: Fresturinn var ekki útrunninn 18.
Halldór Ásgrímsson: Nei, nei hann var ekki útrunninn 18. nei, nei það lá.
Brynhildur: Af hverju ákveður þú þá 18. að styðja innrás og af hverju er Ísland komið á þennan lista þá?
Halldór Ásgrímsson: Vegna þess að Bandaríkjamenn koma þá til okkar og biðja um þennan pólitíska stuðning eins og hefur verið gert í mörgum fleiri málum. Við höfum staðið frammi fyrir þessu í sambandi við Afganistan, í sambandi við Bosníu, sambandi við Kosovo. Og það má segja að við höfum staðið alla tíð frá stofnun lýðveldisins með okkar helstu bandamönnum í öryggis- og varnarmálum. Nú ef við hefðum sagt nei við þessari beiðni þá hefði það verið veruleg stefnubreyting af Íslands hálfu í öryggis- og varnarmálum.
Brynhildur: Báðu Bandaríkjamenn beinlínis um sem sagt stuðning Íslands, að Ísland yrði á þessum lista?
Halldór Ásgrímsson: Þeir báðu um pólitískan stuðning og við vissum það mæta vel að það voru ýmsar þjóðir sem að höfðu lýst yfir slíkum stuðningi, annað hvort pólitískum eða með því að ætla sér að senda vopn og hermenn eins og Danir og Bretar og Pólverjar og fleiri. Og það endar með því að það eru 18 af 26 þjóðum Atlantshafsbandalagsins sem að eru í þessum hópi. Okkur var að sjálfsögðu ljóst að þarna var um hóp þjóða að ræða. Hvernig Bandaríkjamenn myndu koma fram með það, hvað þeir myndu kalla þetta til dæmis að þetta var kallað listi yfir hinar viljugu þjóðir. Það hafði nú ekki komið fram sko þarna þann 18. það nafn. En ég vissi það að sjálfsögðu.
Brynhildur: Vissir að við vorum að fara á einhvern lista?
Halldór Ásgrímsson: Ég vissi að við vorum í hópi þjóða og það má náttúrulega alltaf búast við því að hópur sé settur upp á lista ekki satt. Hvort það er kallaður hópur eða listi það finnst mér ekki skipta máli.
Brynhildur: Nú segir þú að þetta hafi svo sem legið fyrir, þú segir að þetta hafi, þið hafið vitað að þið voruð í hópi þjóða og það kannski mátti svo sem segja það að úr því að það væri kominn listi.
Halldór Ásgrímsson: Það var listi já, já.
Brynhildur: En þú segir sko 20. mars segirðu í viðtali við Stöð 2 að. Ég er ekki alveg sáttur við það hvernig Bandaríkjamenn túlka þennan lista og daginn eftir í viðtali við Fréttablaðið þá segirðu, mér finnst Bandaríkjamenn hafa oftúlkað þennan lista?
Halldór Ásgrímsson: Já, já, ég meina.
Brynhildur: Sko, það lítur út fyrir að þú fyrir þitt leyti hafir verið búinn að samþykkja yfirflugsréttindin, aðgang að Keflavíkurflugvelli og stuðning við uppbyggingu en það hafi beinlínis komið þér á óvart að við værum á þessum lista?
Halldór Ásgrímsson: Nei, sko mér fannst og finnst enn að þarna hafi, erum við að tala um þjóðir sem að má flokka í 2 flokka. Annars vegar er um að ræða þjóðir sem fóru þarna inn með mannafla, með vopn og búnað og þar eru þjóðir eins og Bretar og Danir og Spánverjar og margar aðrar þjóðir. En þessi listi sem svo er kallaður að þar voru allar þessar þjóðir listaðar upp eins og um samskonar mál væri að ræða. En ég geri að sjálfsögðu mikinn greinarmun á því hvort við erum að taka ákvörðun um að taka beinlínis þátt í slíku máli.
Brynhildur: En Bandaríkjastjórn gerði engan greinarmun þar á?
Halldór Ásgrímsson: Nei, þeir gerðu það ekki og við það var ég ósáttur.
Brynhildur: En af hverju mótmæltirðu þá ekki við Bandaríkjastjórn?
Halldór Ásgrímsson: Það hefði svo sem lítið haft upp á sig. Ég kom þessu á framfæri. Þetta kom fram í blöðum og það náttúrulega liggur alveg ljóst fyrir að hérna.
Brynhildur: Sendiherra Bandaríkjanna segir að, sagði við þessum fréttum sem sagt að þetta hafi verið oftúlkun að þá segir hann að honum hafi ekki borist nein athugasemd frá íslensku ríkisstjórninni?
Halldór Ásgrímsson: Nei, það er allt saman rétt. En ég lýsti þessu í blöðum og auðvitað fylgist bandaríska sendiráðið með því nákvæmlega hvað hér fer fram. Það liggur alveg fyrir að bandaríska sendiráðið les hér öll blöð fylgist með öllum fréttum og birtir, sendir það síðan til Washington. Þetta vitum við og það liggur alveg ljóst fyrir. Þannig að við förum ekkert alltaf þá leið að kalla bandaríska sendiherrann fyrir eins og í þessu máli. Að öllu jöfnu þá stöndum við með okkar helstu bandamönnum sem standa síðan með okkur í margvíslegum málum á sviði öryggis- og varnarmála. Menn verða að hafa það í huga.
Brynhildur: Formaður þingflokks framsóknarmanna, Hjálmar Árnason sagði einmitt í kjölfar þess að Bandaríkjamenn síðan ákváðu að draga herþoturnar fjórar einhliða úr landi. Hvernig haldið þið að þetta hefði verið hefðum við ekki stutt innrásina. Tengist þetta tvennt?
Halldór Ásgrímsson: Það er engin bein tenging þarna á milli og ég minni nú á það að skömmu fyrir kosningar þá gekk bandaríski sendiherrann á fund þáverandi forsætisráðherra og tilkynnti að það stæði til að taka herþoturnar til baka innan mánaðar. En það liggur náttúrulega í augum uppi að menn hugsa meir til þeirra sem að eru vinir og standa með manni en þeirra sem að maður er ekki í samstarfi við. Þetta á bæði við í mannlegum samskiptum og í samstarfi þjóða. Og það hefur verið mjög náið samstarf milli Íslands, Bretlands, Bandaríkjanna og nokkurra annarra þjóða á sviði varnar- og öryggismála. Þannig að við náttúrulega tökum það mjög alvarlega þegar að þessar vinaþjóðir biðja um ákveðinn stuðning. Það vill nú svo til.
Brynhildur: Þannig að óbeint tengist þetta?
Halldór Ásgrímsson: Já, ég get ekki sagt annað en að auðvitað tengist þetta að einhverju leyti saman. En það voru engin hérna bein tengsl þarna á milli. Það voru engin loforð af hálfu Bandaríkjamanna eða skilyrði af okkar hálfu eins og kom nú í ljós síðar, þarna rétt fyrir kosningarnar.
Brynhildur: Það hefur nú, hlýtur að hafa hleypt illu blóði í ykkur?
Halldór Ásgrímsson: Já, ég skal ekki neita því.
Brynhildur: Sko, þú hefur líka að minnsta kosti í tvígang eftir þarna 18. mars sagt að það hafi verið óheppilegt að stuðningur Íslands við innrásina hafi fyrst verið gerður opinber þegar Ísland birtist á þessum lista. Af hverju sögðuð þið ekki íslensku þjóðinni frá þessu og þessum lista strax eftir ríkisstjórnarfundinn?
Halldór Ásgrímsson: Vegna þess að það var verið að vinna í málinu og það var verið að tala við þjóðir út um allan heim og okkur var sagt að þá þessu stigi væri um sem sagt leyndarmál að ræða og það kom mér í opna skjöldu eins og ég hef sagt að allt í einu væri búið að birta þetta. Ég hefði að sjálfsögðu viljað verða fyrstur til og skýra frá því.
Brynhildur: Þinn fyrrverandi formaður, Steingrímur Hermannsson hefur sagt það að þú hafir bara setið uppi með slæma ákvörðun Davíðs Oddssonar, er þetta rétt?
Halldór Ásgrímsson: Það er náttúrulega alveg út í hött og ég skil nú ekki í fyrrverandi forsætisráðherra að segja svona. Ég meina þetta mál var náttúrulega miklu meira á könnu utanríkisráðherra og utanríkisráðuneytisins í öllu málinu. Ég var miklu meira til svar a í þessu máli allan tímann. Hins vegar var málið það stórt að það er eðlilegt að endanleg ákvörðun sé tekin bæði af utanríkisráðherra og forsætisráðherra vegna þess að forsætisráðherra koma slík mál við. Vegna þess að öll stærri mál varða forsætisráðuneytið. Þannig að þetta er náttúrulega bara út í hött og hann hefur ekkert fyrir sér í þessu.
Brynhildur: Það sem að hugsanlega gæti sko stutt þessa tilgátu Steingríms fyrir utan það að hann er að lesa í þínar yfirlýsingar fyrir 18. mars sem að eru alls annars eðlis og benda til þess að þú viljir ... að það er sko að sko að bandaríska utanríkisráðuneytið hefur sagt að þessi ákvörðun hafi verið tekin í íslenska forsætisráðuneytinu og bandaríski sendiherrann er jafnframt, hann er kallaður á fund í forsætisráðuneytinu þennan margumtalaða 18. mars?
Halldór Ásgrímsson: Þennan sama dag þá kemur bandaríski sendiherrann í forsætisráðuneytið og næsti maður við hann kemur á sama tíma í utanríkisráðuneytið og það liggur fyrir að bandaríski sendiherrann kemur í forsætisráðuneytið meðan að ég stjórna þar ríkisstjórnarfundi og ég fer út af ríkisstjórnarfundinum til þess að tala við þann embættismann í forsætisráðuneytinu sem hafði rætt við bandaríska sendiherrann.
Brynhildur: Þú talaðir ekki beint við sendiherrann?
Halldór Ásgrímsson: Nei, ég talaði ekki við hann og í framhaldi af þessu tölum við hérna, skýri ég ríkisstjórninni frá því að sendiherrann hafi komið þarna og síðan í framhaldi af ríkisstjórnarfundinum tölum við saman ég og Davíð Oddsson.
Brynhildur: Og þá er þetta alveg orðið ljóst að það sem þið tilkynnið eða embættismaður forsætisráðuneytisins tilkynnir sendiherranum er að Ísland, já við ætlum að vera í þessum hópi?
Halldór Ásgrímsson: Við ætlum að vera í þessum hópi og veita þennan stuðning, þennan pólitíska stuðning.
Brynhildur: En sko, síðan ferðu aftur inn á ríkisstjórnarfund og hvað er þá rætt þar, segir þú þá ríkisstjórninni frá því að við séum sem sagt komin í þennan hóp?
Halldór Ásgrímsson: Nei, ég segi, sko það var ekki ríkisstjórnarinnar að taka þessa ákvörðun, það var okkar forsætisráðherra en ríkisstjórnin var fullkomlega meðvituð um það að svona yrði hún.
Brynhildur: Það er ekkert umdeilt að Íraksmálið sem slíkt var rætt.
Halldór Ásgrímsson: Nei, nei.
Brynhildur: En þessi ákvörðun um að Ísland yrði á þessum lista hún var aldrei rædd innan ríkisstjórnarinnar þennan dag?
Halldór Ásgrímsson: Ég meina það lá fyrir á þessum tíma að Ísland var ekki eitt í þessu sambandi. Það lá fyrir að Bandaríkjamenn voru að tala við fjöldann allan af þjóðum og ég hef margsagt að það var hópur þjóða. En síðan eftir þennan ríkisstjórnarfund að þá tökum við þessa ákvörðun. Ég meina, þetta er ég margbúinn að segja. Ég veit ekki hvað ég er búinn að segja þetta oft.
Brynhildur: En ertu ekki að taka þessa ákvörðun í miðjum ríkisstjórnarfundi þegar þú eða sem sagt er ekki búið að tilkynna sendiherranum það þegar að þú heldur síðan áfram með ríkisstjórnarfundinn?
Halldór Ásgrímsson: Nei, ekki fyrr en eftir að ég er búinn að tala við Davíð Oddsson sem var ekki á fundinum.
Brynhildur: Og er þá sendiherranum tilkynnt þetta aftur?
Halldór Ásgrímsson: Já, sendiherranum er tilkynnt það.
Brynhildur: Hann bíður þá bara í forsætisráðuneytinu?
Halldór Ásgrímsson: Ja, það var hringt í hann.
Brynhildur: Það var hringt í hann. Nú virðist líka liggja ljóst fyrir að þessi ákvörðun um sko veru Íslands á þessum lista var ekki rædd innan þingflokks Framsóknarflokksins. Voru það ekki mistök af þinni hálfu að ræða þetta ekki þar?
Halldór Ásgrímsson: Nei, sko þingflokkurinn, það stóð nú þannig á að það voru kosningar í nánd og þinginu hafði verið slitið og þingmenn voru komnir út um allt og það hefur aldrei verið siður að kalla saman þingflokk út af svona máli, það liggur alveg ljóst fyrir ...
Brynhildur: Út af svona stóru máli?
Halldór Ásgrímsson: Nei, það liggur fyrir að þetta er á ábyrgð ráðherrans. Ráðherrann hefur þetta vald og þessa ábyrgð og þessar skyldur samkvæmt stjórnarskránni eins og.
Brynhildur: Þetta vald dregurðu þó, dregurðu frá þingflokknum eða færð frá þingflokknum?
Halldór Ásgrímsson: Já, já það er allt saman rétt en það var heldur engin beiðni um það í þingflokknum að ræða þetta á þessum tíma. En það liggur alveg skýrt fyrir,
Brynhildur: Þeir vissu ekki ...
Halldór Ásgrímsson: Ég var að segja það að það liggur alveg skýrt fyrir að þetta vald er hjá viðkomandi ráðherra og það getur hver maður séð sem að les greinargerð Eiríks Tómassonar og það er skylda viðkomandi ráðherra að axla þá ábyrgð. Þetta er alveg ljóst samkvæmt stjórnarskránni og þannig að það er algjörlega farið rétt að í þessum efnum.
Brynhildur: Í ljósi þess hversu mikil óánægja blossar upp innan Framsóknarflokksins og innan þingflokksins strax á eftir, hefði það ekki verið rétt af þér í það minnsta að bera þetta undir þingflokkinn?
Halldór Ásgrímsson: Ég talaði við hérna marga þingmenn strax á eftir og ég talaði við alla þingmenn í kjölfarið það lá alveg ljóst fyrir.
Brynhildur: Nú dúkkar þetta mál aftur og aftur upp í fjölmiðlum og það er ekki vegna þess að fjölmiðlar séu svona vondir við þig Halldór eða séu að leggja þig í einelti heldur er það vegna þess að þessi óánægja er að koma, brjótast út aftur og aftur innan Framsóknarflokksins og það eru innanflokksmenn sem hafa haldið þessu máli lifandi, við erum með Kristin H. Gunnarsson, Hjálmar Árnason, Jónínu Bjartmarz og nú síðast Guðna Ágústs?
Halldór Ásgrímsson: Ég er ekkert að segja það að fjölmiðlar séu vondir við mig. Ég hef aldrei kvartað undan því. Ég hef hins vegar haldið því fram að einstakir fréttamenn hafi verið með útúrsnúninga og beinar rangfærslur í þessu máli.
Brynhildur: Hvað með þetta að þetta mál sko það dúkkar upp aftur og aftur út af því að það eru þínir samflokksmenn sem að halda því lifandi?
Halldór Ásgrímsson: Ja, mínir samflokksmenn, sko.
Brynhildur: Og í nýrri skoðanakönnun sögðu tæp 80% framsóknarmanna að þeir væru andvígir veru Íslands á þessum lista. Þetta bendir nú til þess að það sé töluverð kraumandi óánægja innan Framsóknarflokksins akkúrat um þetta mál?
Halldór Ásgrímsson: Ja, það liggur alveg fyrir að það eru ekkert allir ánægðir með þetta mál.
Brynhildur: En heldurðu að þetta mál eigi eftir að draga dilk á eftir sér inn á flokksþing Framsóknarflokksins núna í?
Halldór Ásgrímsson: Ég tel ástæðu til þess að ætla það.
Brynhildur: Þetta verði ekki rætt þar?
Halldór Ásgrímsson: Ég veit það ekki. Ég meina það er margt sem verður rætt þar en ég tel að málið sé fullrætt og ég hef í sjálfu sér.
Brynhildur: Þú ætlar ekki að, einhvern veginn að koma til móts við þessa óánægju innan Framsóknarflokksins um þetta mál?
Halldór Ásgrímsson: Ég meina ég tók þessa ákvörðun og ég tek hana ekki til baka það liggur alveg ljóst fyrir. Ég get ekki tekið hana til baka.
Brynhildur: Er einhver lærdómur sem að þú dregur af þessu, svona eftir á að hyggja er eitthvað sem að þú hefðir gert öðruvísi?
Halldór Ásgrímsson: Nei, í sjálfu sér hefði mátt til dæmis kalla saman utanríkismálanefnd, auðvitað hefði mátt gera það en það hefði engu breytt um ákvörðunina en það hefði mátt gera það þann 18. Hins vegar gerðist þetta mjög hratt og við töldum að við hefðum rætt málið nægilega bæði á Alþingi og í utanríkismálanefnd til þess að taka þessa ákvörðun.
Brynhildur: Svona að lokum, þú ert búinn að vera þingmaður í 30 ár.
Halldór Ásgrímsson: Já, rúmlega það.
Brynhildur: Ráðherra í 18 ár og formaður flokksins í 10 ár. Einhverjir myndu nú segja að þetta væri orðið gott?
Halldór Ásgrímsson: Mér finnst það ekki. Það virðist vera að það séu ýmsir sem að vilja að ég fari en ég er ekkert á förum. Ég hef notið mikils trausts allan þennan tíma og ég tel mig hafa unnið gott starf. Ég hef hins vegar oft þurft að taka erfiðar ákvarðanir. Ég hef oft þurft að sigla á móti vindinum og stigið ýmsar öldurnar en það er mín skylda.