Fara í efni

Í ALLRA AUGSÝN OG Á ÁBYRGÐ ALLRA

Sumir hafa áhyggjur af stigmögnun stríðsins í Úkraínu, aðrir fagna henni. Það gera þeir sem alla tíð hafa stefnt að stigmögnun stríðsins í anda yfirlýstrar stefnu Bandaríkjamanna um að koma Rússlandi niður á hnén og helst liða landið í sundur. Úkraínustríðið sé kjörið tækifæri til þess.

Nú er vakin á því athygli, sums staðar með velþóknun, að innrás hafi tekist í Rússland í fyrsta sinn síðan nasistar leiddu þýskan her til innrásar í Rússland. Leiðari Morgunblaðsins síðastliðinn þriðjudag hefst með þessum orðum: «Vissulega unnu hugrakkir hermenn Úkraínu óvæntan og myndarlegan sigur, þegar þeir urðu fyrstir andstæðinga Rússa á meðal þjóða til að leggja undir sig rússneskt land frá því að það gerðist seinast í síðari heimsstyrjöldinni fyrir rúmum 80 árum.» Leiðarahöfundur heldur svo áfram með því að minna réttilega á að um tvíeggjað sverð geti verið að ræða.

Menn réttlæta átökin í Úkraínu á báða bóga í ljósi sögunnar. Af rússneskum yfirgangi frá Sovéttímanum er af nógu að taka til að hlaða upp í óvildarbálköst gagnvart Rússum en NATÓ megin fara áróðursmeistarar helst ekki lengra aftur að þessu sinni en til febrúarmánaðar árið 2022 þegar Rússar gerðu «tilefnislausa» (unprovoked) innrás í Úkraínu. Þetta er NATÓ útgáfan. Í þeim herbúðum má alls ekki bregða út af þessu orðalagi og alls ekki minnast á útvíkkun NATÓ við bæjardyr Rússlands með tilheyrandi vígvæðingu þvert á gefin loforð þegar Sovétríkin voru liðuð í sundur fyrir rúmum þremur áratugum.

Rússlands megin er vísað til útþenslu NATÓ og auk þess horft til ofsókna á hendur Rússum í austanverðri Úkraínu og stríðs þar frá árinu 2014, tilrauna til að finna þar friðsamlega lausn en síðan ítrekaðra svika vestan megin. Þetta er svo aftur tengt ógn úr vestri frá fyrri tíð, og þá helst frá seinna stríði þegar Þjóðverjar, sem þá lutu nasistum, réðust inn í Rússland. Fjórðungur rússnesku þjóðarinnar lét lífið af völdum þess stríðs. Það er ekki gleymt í Rússlandi en vill stundum gleymast í samtímaumræðunni á Vesturlöndum.

Nú biður Selensky Úkraínuforseti NATÓ – sem gaf leyfi fyrir nýgerðri innrás – um leyfi til að beita langdrægum vopnum til árása lengra inn í Rússland. Slík vopn hafa Bandaríkjamenn og önnur NATÓ ríki látið honum í té og þá væntanlega til brúks. Til þess eru langdræg vopn jú, að þeim verði skotið langt.

Þessi augljósa og úthugsaða stigmögnun stríðsátaka – allt í samræmi við tillögur ráðgjafa bandaríska hermálaráðuneytisins, Pentagon, gerist öll fyrir opnum tjöldum og er á ábyrgð allra þeirra sem styðja stríðsreksturinn og láta sér blóðsúthellingar í léttu rúmi liggja. Það á við um ríkisstjórn Íslands, það á við um Alþingi Íslendinga sem taldi sig ekki einu sinni þurfa að vísa þingmáli um vopnakaup íslenskra skattgreiðenda til Úkraínu til umsagnar (því allir væru um þetta sammála!) – og þetta á við um alla þá sem kjósa að þegja um tilgang stríðsins þótt þeir viti betur.

Svona hafa ÖLL stríð verið háð. Óvinurinn er gerður að skrímsli sem eigi ekkert annað skilið en hatur. Allt sem hann geri er sagt vera rangt, allt sem «við» gerum er sagt vera rétt. Allir sem vilja sjá aðrar hliðar á málum en þá «réttu» eru sagðir svikarar og ef ekki, þá «nytsamir sakleysingjar».

Síðan rennur af mönnum móðurinn þegar allt er yfirstaðið. Og þá verður nýtt stríð.

Þá söfnumst við saman og fleytum kertum til að minnast þeirra sem drepnir voru í síðasta stríði.

En að því gæti komið að enginn verði eftir til að fleyta kertum.

(fyrirsögn úr Morgunlaðinu þriðjudaginn 2. ágúst.)

----
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.