Fara í efni

Í FULLRI VINSEMD: ÞARF EKKI AÐ HEMJA SIG ÖGN Í LOFGJÖRÐINNI UM ESB/EES?

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, samfagnaði um helgina leiðtogum ESB og EES í tilefni þess að 25 ár eru liðin frá inngöngu Íslands í EES. Hún sagði: „Heil kyn­slóð Íslend­inga geng­ur út frá því að hægt sé að vinna, ferðast, búa og læra hvar sem er á evr­ópska efna­hags­svæðinu ólíkt því sem áður var…”

Sjálfur er ég af kynslóð Íslendinga sem komst til vits og ára áður en EES samningurinn varð að veruleika. Ég stundaði nám í Bretlandi, starfaði síðan í fjölmiðlun og svo í verkalýðshreyfingunni innan Evrópu og á heimsvísu. Ég hef tekið þátt í pólitísku alþjóðlegu samstarfi utan og innan Evrópu – allt þetta án aðkomu Evrópusambandsins og EES. Sem fréttamaður fylgdist ég síðan með þróun fríverslunarsamtaka EFTA sem ætlað var að greiða götu innbyrðis viðskipta en án þess að gerðar væru kröfur um að lýðræðinu yrðu settar þær skorður sem Evrópusambandið hefur gert í seinni tíð. Ég fylgdist líka með sókn velferðaraflanna í okkar heimshluta um miðja síðustu öld og fram á síðasta áratug hinnar tuttugustu aldar. Það var einmitt þá sem peninga-frjálshyggjan og ESB náðu saman.  

Það starf sem ég kom að á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar í Evrópu hefur, auk ýmsissa framfaramála sem verkalýðshreyfingin hafði á sínum prjónum, gengið í ótrúlega ríkum mæli út á að berjast gegn markaðsvæðingaráformum ESB. Eftir því sem nálgaðist aldarlok varð stöðugt þyngra fyrir fæti.  

Þetta er ástæða þess að ég vil Evrópusamstarf reist á öðrum grunni en marksforsendum ESB og sama gildir um EES. Hinn margrómaða ávinning af EES tel ég vera vanhugsaða klisju; þessi samningur hafi einfaldlega ekki verið okkur það lífakkeri sem sumir vilja vera láta, nú síðast forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir:
„…  það þarf ekki að nefna hversu miklu þetta skipt­ir litla eyþjóð eins og okk­ur og hversu mik­il­væg­ur samn­ing­ur­inn hef­ur reynst ís­lensku at­vinnu­lífi. Það er mjög ánægju­legt að fá að fagna af­mæli samn­ings­ins með leiðtog­um ríkja ESB. EES-samn­ing­ur­inn veit­ir okk­ur enn frem­ur tæki­færi að eiga sam­tal um mik­il­væg alþjóðamál svo sem lofts­lags- og mann­rétt­inda­mál, sem er ekki vanþörf á í ljósi þró­un­ar heims­mála.“ 

Hafa þessir “leiðtogar” svokölluðu virkilega reynst vera eftirsóknarverður félagsskapur? Þetta er TISA hópurinn sem sprengdi upp GATS viðræðurnar í andlitið á fátækasta hluta heimsins, þetta eru sömu forkólfar og gegndu svívirðilegu hlutverki í Írak, Líbíu, Sýrlandi og nú í Venesúela, alltaf tilbúnir að ganga erinda alþjóðaauðvaldsins; þetta eru leiðtogarnir sem halda hlífiskildi yfir Erdogan í Tyrklandi, láta óátalið ofbeldið hvar sem er í heiminum ef það er runnið undan rifjum félaganna góðu í NATÓ. Aðra má gagnrýna en þó ekki þannig að það trufli teboðin.   

Í nafni EES samningsins – þessa frábæra samnings (eða þannig) fyrir eyþjóðina litlu – er nú verið að undirgangast enn frekari markaðsvæðingu raforkunnar. Þarf ekki að hafa einhvern smáfyrirvara á lofinu í garð Evrópusambandsins – okkar vegna, alla vega sumra hverra sem erum á þessum kanti stjórnmálanna? En kannski aðallega sannleikans vegna. 

Samstarf Evrópuríkja er eftirsókjnarvert, hvort sem er á sviði menningar, menntunar, mannréttinda eða viðskipta. Um þetta ætti ágreiningur að vera takmarkaður. Það eru kröfurnar sem reistar eru inn á við um markaðsvæðingu innviða samfélagsins sem ég geri athugasemdir við og það er þarna sem ágreiningurinn rís – og á að rísa! Ég geri líka athugasemdir við það að alþjóðlegar grunnreglur vinnumálastofnunarinnar ILO, séu víkjandi fyrir rétti og dómapraxis í ESB og að ríki, sem reist hafi öfluga varnarmúra utan um grunnréttindi launafólks, þurfi jafnan að lúffa í Brussel fyrir hagsmunum markaðshyggju og auðvalds.

Það er nákvæmlega þarna sem hin pólitísku landmæri liggja samkvæmt mínum atlas.