Fara í efni

Í FYRSTU LEIÐIGJARNT ...

Það varð æ meira áberandi þegar leið á síðasta kjörtímabil hversu lýðhyllin var Steingrími J. mikilvæg. Maður getur varla varist þeirri hugsun að viðurkenningarþráin hafi verið hans helsti drifkraftur, og nýja bókin eigi að festa arfleifðina í sessi.
Menn með svona skapgerð geta verið hófstilltir og setið rólegir í sæmd sinni séu þeir fullvissir um að vera mikils metnir af alþýðu. Steingrímur átti ekki því láni að fagna, a.m.k. ekki þegar leið á kjörtímabilið. Þakkirnar fyrir unnin störf létu á sér standa (enda var flestum málum ríkisstjórnarinnar sem máli skiptu siglt í átakafarveg og að endingu í strand). Svo virðist sem Steingrímur hafi brugðist við með nokkurskonar herferð til að sannfæra þjóðina um þakkarskuld sína.
Þó ekki væri hægt að hrósa sér af verkunum var nærtækast að segja frá hversu mikið hann legði sig fram og hverju var fórnað. Það var greint frá löngum vinnudögum, stífum fundahöldum og sumarfríum sem aldrei voru farin. Þá greindi ráðherrann frá því að hlutskipti væri ekki öfundsvert og enginn annar myndi vilja axla þessar byrðar þó eftir væri leitað.
Eins var sagt frá því að á götum úti væri hann hylltur eins og þjóðhetja, eða hann hefði a.m.k verið stoppaður af eldri konu sem kunni honum þakkir fyrir vel unnin störf.
Þegar annað brást var vísað til upphefðar að utan þar sem útlendingar litu nú til Íslands sem fyrirmyndar við kreppuúrlausn, og hann sjálfur væri afreksmaður á því sviði. Í nýju bókinni bætir hann um betur í því efni og segir að það láti nærri að hann sé eins frægur og sjálfur forsetinn á erlendri grundu.
Frammistaða Steingríms í fjölmiðlum við kynningu á bókinni er beint framhald af þessu. Þessi píslarvættis sjálfsupphafningarstíll er furðu lífseigur. Þetta var leiðigjarnt þegar hann var við völd en eiginlega bara sorglegt þegar endalaust er haldið áfram.
HP