Í HEIMSÓKN HJÁ TALSMANNI NEYTENDA
Þessa dagana er ég gestapenni hjá Talsmanni neytenda www.tn.is . Geri ég að umræðuefni þá þróun sem orðið hefur á auglýsingamarkaði samfara aukinni samþjöppun og tilhneigingu til fákeppni. Því meiri fákeppni því innihaldslausari auglýsingar: "Og er það ekki líklegt að það sé einmitt einkennandi fyrir stórfyrirtæki í fákeppni að hafa lítið annað fram að færa í auglýsingum en ímyndarsmíði þar sem þau eru öll að bjóða sömu þjónustuna á nánast sömu kjörunum? Góð ímynd er öllum nauðsynleg en varla verður hún til lengdar trúverðug með tómum glansmyndum – auglýsingum sem veita engar upplýsingar um raunverulega starfsemi og þjónustu fyrirtækjanna."
Það má segja að stjórnmálamenn séu á hálum ís að agnúast út í auglýsingamennsku á sama tíma og stjórnmálaflokkarnir auglýsa án afláts. Í því sambandi vil ég þó segja fyrir mitt leyti að ég hef aldrei verið á móti auglýsingum. Þær eru mikilvægar ef þær gefa réttar og góðar upplýsingar. Það getur þannig verið réttlætanlegt að birta mynd af frambjóðanda til að minna á að hann er í framboði en þarna er hinn gullni vegur vissulega vandrataður.
Sú krafa sem fólk hlýtur að gera til stjórnmálaflokka eins og fyrirtækja er að auglýst sé á réttum forsendum eða svo vitnað sé aftur í fyrrnefnda grein á heimasíðu Talsmanns neytenda: "Auðvitað eigum við að gera kröfu til fyrirtækja að þau auglýsi vörur sína og þjónustu á réttum forsendum og segi okkur satt og rétt frá. Við viljum ekkert fá að heyra um fífilbrekkur og gróin tún eða ást á landi og þjóð þegar við heyrum frá Kaupþingi, Glitni eða Landsbanka. Við viljum heyra um lánakjörin, hve háir vextir eru, til hve langs tíma sé lánað, um verðtryggingu, uppgreiðslugjöld og svo framvegis. Olíufélögin eiga að segja okkur hvað bensín kostar hjá þeim og hvaða þjónustu boðið er upp á í verslunum þeirra. Skyldu olíufélögin auglýsa þannig? Nei, þau leggja fyrst og síðast áherslu á að skapa sér jákvæða ímynd með því að segja okkur að þau taki þátt í skógrækt og öðrum þjóðþrifaverkefnum. Þetta er reyndar þróun sem er einkennandi fyrir æði mörg fyrirtæki. Þau reyna að fjárfesta í góðri ímynd. Banki með hjarta, var yfirskrift á nýlegri frétt í Morgunblaðinu þar sem sagði frá góðverkum Landsbankans. Stjórnarformaðurinn Björgólfur var þar að afhenda fjölda fatlaðs fólks ávísanir. Á sama tíma birtust opnuauglýsingar og húsveggir þaktir með bleikum miðum frá Landsbankanum. Ekki orð um vaxtakjörin."
HÉR má sjá greinina í heild sinni.