Í HEIMSÓKN TIL SUÐUR AFRÍKU
Fyrr á þessu ári, í apríl síðastliðnum, kom til Íslands Thuli Madonsela, Public Protector Suður Afríku, en embætti hennar á helst samsvörun í embætti Umboðsmanns Alþingis hér á landi. Hingað hafði Madonsela komið til að taka þátt í „Reykjavík Round Table on Human Rights", sem ég átti þátt í að skipuleggja ásamt Eddu, rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands og Institute of Cultural Diplomacy í Berlín.
Frá því er skemmst að segja að Thuli Madonsela bauð mér til Suður-Afríku til að halda erindi og taka þátt í umræðu um leiðir til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og var þá m.a. horft til þess að ég er formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sem í bland hefur þetta hlutverk með hendi.
Ég þáði þetta boð með þökkum og sé ekki eftir því. Umræðan og erindin á ráðstefnunni voru í senn fræðandi og vekjandi.
Þarna voru saman komnir umboðsmenn frá nokkrum Afríkuríkjum og fræðimenn á þessu sviði víðs vegar að, þó einkum frá Suður-Afríku. Mín aðkoma var úr heimi stjórnmálanna og fjallaði ég um mikilvægi þess að stuðla að samspili milli þeirra stofnana sem sinna aðhaldi og eftirliti annars vegar og þjóðþinganna hins vegar. Úr hinni síðarnefndu áttinni væri sú nefnd sem ég hef veitt formennsku gott dæmi um.
Ég ætla ekki að rekja þau erindi sem voru flutt á ráðstefnunni en þar voru óspart látin fljúga vísdómsorðin úr samtímanum og frá fyrri tíð og var það stundum gert í gamansömum tón. Þannig kom fram í ræðu undir kvöldverði að sennilega væri þetta eins nú og á tíð Voltaires sem á að hafa sagt að varasamt gæti það orðið manni að hafa rétt fyrir sér á sama tíma og valdhafarnir hefðu rangt fyrir sér. Það fylgdi sögunni að sem betur fer væri stjórnarfarið í heimalandi Voltaires, Frakklandi, breytt frá því sem var á 18. öldinni en þegar Idi Amin, Ugandaforseti hefði hins vegar einhvern tíma sagt í gamansömum tón að í Uganda mættu menn segja hvað sem þá lysti en ekki myndi hann ábyrgjast öryggi þeirra eftir að þeir hefðu talað, þá hefðu allir vitað að gamanið væri í besta falli grátt.
En að allri gráglettni slepptri þá þykir mér stórmerkilegt hve öflugt embætti Umboðsmanns er orðið í Suður-Afríku. Nelson Mandela, frelsishetjan mikla og forsetinn fyrrverandi, á að hafa hvatt til þess að embættið yrði gert sem öflugast og að sér liði vel við tilhugsunina um að vera haldið á tánum um að misbeita ekki valdi sínu. Á þetta viðhorf reynir reyndar nú af hálfu Zuma núverandi forseta því Thuli Madonsela, núverandi umboðsmaður, þjarmar nú mjög að honum vegna meintrar spillingar. Þetta erfiða mál er á vinnsluborði Thuli Madonsela, Verjanda fólksins, á lokadögum hennar í embætti en sjálf er hún nú orðuð við forsetaembættið í framtíðinni.
Stjórnarskrá Suður-Afríku þykir mjög framsækin, fimmtíu árum á undan sinni samtíð, var sagt. Ef það er rétt má spyrja hvers vegna? Þannig spurði varaforseti suður-afríska þingsins í ávarpi til ráðstefnunnar og svaraði sjálfum sér að bragði: „Jú, á meðan við vorum kúguð í Suður-Afríku, leituðum við stuðnings um víða veröld, hlustuðum á aðra og lærðum af öðrum. Það var því ekki aðeins að okkar eigin samstaða færði okkur fram á veginn heldur nutum við einnig góðs af samstöðu annarra."
Ég hugsaði oft á meðan ég sat undir fyrirlestrum og umræðum hve þrengingar og barátta í miklu andstreymi virðast geta kennt fólki mikið sé það opið og móttækilegt. Og í Suður-Afríku hafði andstreymið verið mikið - ómennskt. Upp í mér blossaði heift og reiði þegar ég hugsaði til liðins tíma og hvernig þetta vel gerða og gáfaða fólk sem þarna varð á vegi mínum, hafði verið meðhöndlað. Og ekki bætti úr skák að koma í suð-vestur útjaðarborg Jóhannesarborgar, Soweto (skildi ekki nafnið fyrr en nú) og koma á staðinn þar sem börn voru skotin til bana 16. júní árið 1976 og skyggnast um í safni sem reist hefur verið á þessum stað þar sem saga aphartheid - aðskilnaðar- stefnunnar er kortlögð. Fræg varð mynd af þrettán ára dreng, Hector Pieterson, sem lá deyjandi í fangi skólabróður síns sem hljóp með hann að leita hjálpar. Við hlið hans var 17 ára systir Hectors.
Hætt er við að reiðin heltaki huga þeira sem minnast þessara atburða. En það er einmitt reiðinni og hefndarhuganum sem Nelson Mandela, Desmond Tutu og öðrum leiðtogum svartra í Suður- Afríku, tókst að vinna bug á. Það reyndist lykill þeirra inn í uppbyggilega framtíð.
Og það var í flugvélinni á leiðinni heim sem stóð til boða að horfa á kvikmynd sem Clint Eastwood , af öllum mönnum! - hafði gert um magnað samstarf Mandela og fyrirliða Springboks, rugby liðsins, þar sem þessi afstaða kom svo vel fram. Springboks var tákn aðskilnaðarstefnunnar og margir svartir vildu helst láta þurrka þetta lið og þessa íþrótt alveg út. Mandela vildi gera hið gagnstæða og gera íþróttina að þjóðareign og þar með að sameiningartákni. Frægt var þegar hann íklæddist búningi Springboks á leikvangi fyrir framan tugþúsundir en allt þetta og miklu meira sýndi myndin hans Clints, sem hét Invictus. Hún var vel gerð og af skilningi sem ég vissi ekki að hinn þögli vindil-reykjandi bysssumður Vestranna byggi yfir!
Mandela vildi sigrast á andstæðingum sínum með því að ná tökum á sjálfum sér, reiðinni, kveða niður heift og hefnigirni og fyrirgefa.
Viðmælandi í þessari ferð - svört bissniskona - svaraði því til þegar ég spurði hvort hún fyndi til óvildar í garð hvítra að það gerði hún ekki. „Þið verðið að skilja að hvíti maðurinn var hræddur". Það tók mig nokkrar mínúntur að melta þetta og er reyndar er ég enn að því og verð vafalaust lengi enn. En þá skildi ég styrkinn í þessari afstöðu. Þessi svarta kona var hinn sterki að tala um lítilmagnann sem hafði verið hræddur og brugðist við í veikleika sínum.
Þetta kemur líka upp í hugann þegar Mandela segir í sannsögulegri kvikmynd Clints og vísar þá til þeirra daga sem hann var við það að bugast i fangelsinu á Robin Island þar sem hann var innilokaður í 27 ár að hann hafi fundið styrk í ljóði enska ljóðskáldsins William Ernest Henley frá f frá 19. öld Invictus en þar segir „ ...höfuð mitt var blóðugt en óbugað, bloody but unbowed ... því ég er master of my fate and captain of my soul: Ég er eigin gæfu smiður, ég er skipstjórinn í áhöfn sálu minnar!
Í safni sem komið hefur verið upp á heimili Mandela í Soweto eru á veggjum brot úr bréfum hans til fjölskyldu sinnar þar sem kveður við þennan tón, að sigrast á sjálfum sér, finna fyrir þeim styrk sem velvildin og fyrirgefningin veitir. Bréfin voru innhaldsrík og orðin meitluð, urðu að vera það. Fanganum var leyft að skrif tvö bréf á ári og máttu hvort um sig aðeins vera fimm hundruð orð að lengd!
Margt kemur upp í hugann, líkindin með norðri og suðri, hið sammannlega. Merkilegast þótt mér þó sennilega hve oft var vísað í mikilvægi samfélagsins og hve meðvitað fólk var um gildi samvinnu og samstöðu og að allir ættu að eiga hlutverk eins og í Hávamálunum okkar, haltur ríður hrossi, hjörð rekur handarvanur...
Þetta var fróðleg ferð og mun taka langan tíma að melta. Mér finnst við hafa verið óratíma í burtu en við Vala kona mín, sem komum til með að deila minningunum úr þessari ferð, lögðum af stað á miðnætti síðastliðins föstudags, 30. september, flugum um Kaupmannahöfn og Dubai og lentum í Jóhannesarborg á sunnudagseftirmiðdag og var þá kominn 2. október..
Og nú er aftur kominn föstudagur og enn er flogið. Þetta er skrifað yfir Arabíuskaganum, Írak og Kaspíahafinu á leið til Stokkhólms. Þar verður stutt að fara til Íslands en þangað komunum við síðar í dag, laugadag, vel lestuð minningum og suður-afrískum vísdómsorðum. Það er meira til af þeim en mig hafði órað fyrir og höfum við þó aðeins kynnst yfirborðinu. Að vísu verður seint sagt um frelsishetjurnar sem vitnað hefur verið til, að þeir hafi haldi sig á yfirbrðinu.
Jóhannesarborg verður okkur eftirminnileg - kannski að hluta til vegna þeirrar mótsagnakenndu staðreyndar hve lítið við sáum af henni. Íbúðabyggðir millistéttarinnar eru þannig girtar af með háum múrum og rafmgansvírum, afleiðng misskiptingar og kannski líka arfleifðar aðskilnaðarstefnunnar sem ól af sér hatur og hræðslu. Sá sem vildi girða annan af, lokaðist inni sjálfur.
Pretoría, sem er nánast samvaxin Jóhannesarborg varð að nýju lifandi úr löngu liðinni minningu frá því ég skrifaði endalausar fréttir frá frelsisbaráttunni í Suður-Afríku, af þeim félögum Mandela og Tutu og öllum hinum.
Nú er Mandela allur og þegar ég hafði samband við skrifstofu Tutus um hvort ég gæti hitt hann að máli til að þakka honum ómetanlegt framlag hans til mannréttindabaráttu í okkar samtíma, fékk ég að vita að hann væri sjúkur að jafna sig eftir mikið heilsuáfall. Ég hefði varið tilbúinn að fljúga í tvo tíma til Höfðabogar að þakka þessari öldnu kempu framlagið í þágu okkar allra. Í staðinn skrifaðí ég honum bréf og fannst gott að gera það á sömu jörð og frelsisbaráttan hafði verið háð.