Í KVÖLD ER ÞAÐ SALURINN Í KÓPAVOGI
Í gærkvöldi var kveikt á kertum við kínverska sendiráðið í Reykjavík til að minna kínversk stjórnvöld á að heimurinn fylgist með mannréttindum í Tíbet. Ekki veit ég hve margir vissu um þessa athöfn en fjölmiðlar hafa haft öðrum hnöppum að hneppa þegar Kína er annars vegar en að fjalla um mannréttindi í Tíbet og annars staðar í hinu víðfeðma kínverska ríki. Mér er deyfð fjölmiðla umhugsunarefni. Hópurinn sem stóð fyrir kertaathöfninni við kínverska sendiráðið í gærkvöldi er sami hópur og stendur fyrir tónleikum í Salnum í Kópavogi klukkan 20 í kvöld. Þessi hópur hefur ekki fjármuni til að auglýsa atburðinn. Fari fram sem horfir munu fjölmiðlar ekki vekja á honum athygli. Ég hvet þá sem lesa þessar línur að láta sem flesta vita um styrktartónleikana í kvöld. Með því að mæta má slá tvær flugur í einu höggi: Styrkja gott málefni og eiga góða stund.