Fara í efni

Í MARRAKESH MEÐ ALÞJÓÐAVERKALÝÐSHREYFINGUNNI AÐ RÆÐA FÓLKSFLUTNINGA

Á mánudag og þriðjudag fór fram í Marrakesh í Marokkó ráðstefna Sameinuðu þjóðanna sem staðfesti  Alþjóðasamning um farendur (fólksflutninga), Global Compact on (Safe and Orderly and Regular) Migration, en samhliða er annar samningur í burðarliðnum sem snýr að flóttamönnum, alþjóðasamningur um flóttamenn,Global Compact on Refugees.

Ferli þessara samninga, sem ekki eru skuldbindandi er mismunandi, sá fyrri er hlýtur staðfestingu  á ríkjaráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem nú er afstaðin, en sá síðari fer fyrir hlutaðeigandi nefnd SÞ og í kjölfarið fyrir Allsherjarþingið til samþykktar, fyrir árslok ef áform ganga eftir.

Starfsfólk í heilbrigðisþjónustu

Inn í fólksflutningasamninginn fléttast málefni sem ég kom talsvert að þegar ég sat í stjórnum Evrópusamtaka opinberra starfsmanna, EPSU, og svo Alþjóðasambands  starfsfólks í almannaþjónustu,  Public Services Intarnational, PSI, nefnilega stríður straumur heilbrigðisstarfsmanna frá fátækum ríkjum til hinna auðugri. Þetta gerist samkvæmt lögmálum framboðs og eftirspurnar og veldur ómældum erfiðleikum, fyrir þau ríki sem missa vinnuaflið, fyrir starfsfólkið sjálft, sem iðulega er réttindalítið bæði á meðan það er í starfi og þegar og/ef það missir starf sitt, og síðan veldur þetta líka erfiðleikum fyrir móttökuríkin á ýmsan hátt.

300 starfsmannaleigur

Ekki liggur straumrinn allur til Vestrlanda, heldur þvers og kruss. Þannig má nefna að í Súdan munu vera þrjú hundruð starfsmannaleigur sem reyna, og með miklum árangri, að lokka heilbrigðissttarfsmenn til ríkra Arabaríkja.
Í Global Compact on Migration eru ákvæði sem opna á að unnið verði að því að koma þessum starfsmannaflutningum í farveg sem gagnist öllum. Vísi að slíkum samningum er þegar að finna í samstarfi Þýskalands og Filippseyja og fylgist verkalýðshreyfingin grannt með framvindu þess samnings og hefur formlegan aðgang að því eftirliti.
Á þetta er litið sem kjarnlæga spurningu, nefnilega hvaða aðilar skuli koma að samningum af þessu tagi, en þar banka peningamenn nú mjög fast upp á, verkalýðshreyfingu til lítillar ánægju.

Gagnleg og gefandi umræða

Um þetta var efnt til pallborðsumræðu í Marrakesh sem ég var fenginn til að stýra fyrir hönd fyrrnefndra PSI- og EPSU-samtaka, svo og Friedrich Ebert Stiftung (sem beitir sér fyrir félagslegum málefnum), Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, og þýsku ríkisstjórnarinnar. Fulltrúar allra þessara aðila svo og fulltrúi frá Center for Global Development tóku þátt í umræðunni, svo og hátt í hundrað fulltrúar verkalýðshreyfingar og annarra áhugasamra um málefnið. Fundurinn var mjög fróðlegur og á ég eftir að segja betur frá honum síðar eða smám saman í umfjöllun um þetta brýna málefni.
Markmiðið með málstofunni var að greiða götu PSI að þessari umræðu og efna til skoðanaskipta um heppilegar leiðir. Þessu þótti málstofan skila.

Einnig fundað innávið

Public Services International efndi einnig til heilsdags málstofu um þetta sama málefni og almennt um vandann sem stafar af fjöldafólksflutningum. Ég hafði einnig verið fenginn til að stýra þeirri umræðu sem reyndist mjög fróðleg enda voru þarna komnir saman fulltrúar þeirra svæða sem einna mest brennur á: Jórdaníu, Líbanon, Túnis, Marokkó, Alsír, Nígeríu (þaðan voru fulltrúar frá svæðum þar sem Boko Haram samtökin illræmdu hafa herjað), Fillippseyjum (þaðan sem hjúkrunarfólkið streymir aðallega) svo og frá Bandaríkjunum og Evrópu.  
Fulltrúar PSI komu síðan vel nestaðir til sameiginlegrar ráðstefnu heimssamtaka launafólks (global unions) þar sem einnig voru fulltrúar Alþjóðasambands verkalýðsfélaga, ICTU sem jafnframt var með heimsráðstefnu í Kaupmannshöfn þessa daga með þátttöku fulltrúa frá BSRB og ASÍ eins og sjá má í frásögnum: https://www.bsrb.is/is/frettir/frettasafn/stor-mal-undir-a-thingi-ituc-i-kaupmannahofn  

Merkileg og bráðnauðsynleg tilraun

En aftur að Global Comapact. Ömurlegt var að verða vitni að hverju ríkinu á fætur öðru hlaupast frá því að veita þessari tilraun til að koma málum sem lúta að flóttamönnum og fólksflutningum almennt í betri farveg, samþykki sitt og stuðning. Bandaríkin hlupust undan merkjum í broddi fylkingar og síðan Austurríki, Pólland, Ungverjaland, Tékkland og síðan fleiri lönd, sem hlýtur að teljast undarlegt í ljósi þess vanda sem heimurinn er að reyna að koma einhverjum böndum á.   
Sem betur fer stendur þó þorri ríkja heims að þessu átaki, sem enn er þó lítið annað en vinnuplagg. En ásetningurinn er góður.
Ísland á þarna aðild og er það vel.