Fara í efni

Í MESÓPÓTAMÍU: VÖGGU SIÐMENNINGAR

Öll höfum við einhverja hugmynd um hinar frjósömu byggðir á svæðinu á milli Efrats (Euphrates) og Tígris, hinna miklu fljóta sem eiga upptök í Tyrklandi og streyma langa vegu suður í Persaflóa. Við þekkjum til þessa svæðis úr sögubókum enda er þarna sjálf vagga siðmeningar okkar, margra þúsund ára gömul.

Ég er nýkominn úr ferð um Basúr, íraska hluta Kúrdistans eins og ég hef fjallað um hér á heimasíðu minni undanfarna daga. Sögulegar menjar er að finna víða á þessum slóðum. Þess má geta að í Urfa sem er nokkru vestar en það svæði sem ég fór um núna og er innan landamæra Tyrklands, hafa fundist rústir frá því um 10 þúsund árum fyrir Krist. Ég nefni Urfa sérstaklega því þar er sagt að fæðst hafi Abraham, ættfaðirinn mikli, sem gyðingar, kristnir menn og múslímar eigna sér. Sagan - og langar rætur hennar - er allt um kring á þessu svæði, sem tekur til gömlu Mesópótamíu (landinu milli ánna eins og Mesópótamía mun þýða á grísku).

Mér finnst hollt fyrir Vesturlandabúa að hafa það í huga, í bland til að slá ögn á sjálfumgleði og hroka þeirra, að þarna þróaðist í áradaga menning sem átti eftir að næra andann í okkar hluta heimsins þar sem íbúarnir voru frumstæðir í samanburði við það sem þarna hafði verið að finna um árþúsundir!

Á útrásartíma vestrænna nýlenduvelda var hamast á þessum heimshluta með ofbeldi og gripdeildum og honum síðan skipt upp í ríki samkvæmt landamærum sem þjónuðu nýlendustefnu Vesturlanda fyrst og fremst en ekki í neinu samræmi við vilja íbúa, menningu og sögulega arfleifð. Þetta verða þeir að átta sig á sem á annað borð vilja öðlast skilning á pólitískum erfiðleikum sem þarna er að finna. Handhafar hinna “vestrænu gilda” bera ekki litla ábyrgð á þessum erfiðleikum og er þá ekki enn farið að ræða þjófnað þeirra á auðlindum þjóðanna!

Um þessi efni hef ég skrifað fjölda greina en í tilefni af þessari heimsókn minni nú til Basúr vísa ég hér til pistils sem ég skrifaði að lokinni fyrstu heimsókn minni á slóðir Kúrda árið 2014, fyrir nær réttum áratug. Þá heimsótti ég Diyarbakir eða Amed eins og borgin heitir á kúrdísku svo og Urfa.(https://www.ogmundur.is/is/greinar/a-thjodhatid-i-kurdistan)

Þá vitnaðí ég meðal annars í yfirlýsingu Abdullah Öcalan, hins fangelsaða leiðtoga Kúrda, en ég hef talað fyrir því í nokkrum ferðum til Tyrklands að hann yrði fenginn að samningaborði með tyrkneskum stjórnvöldum svo taka megi upp að nýju þann friðarþráð sem spunninn var á á árunum 2013 til 2015.

Í frásögn minni frá 2014 vitnaði ég í yfirlýsingu frá Öcalan sem lesin var upp á fjöldafundi sem ég sótti:

Við búum í vöggu menningar mannkynsins, Mesopotamíu hinni fornu. Þar hefur margt gerst í tímans rás en nú á sér hér stað vakning. Tökum henni fagnandi. Kúrdar þekkja þrengingar, stríð og ofbeldi. Við höfum staðist slíkar raunir. Við kunnum líka að höndla friðinn. Og þegar við erum beitt ofbeldi af hálfu yfirvalda til að setja friðarferlið út af sporinu til að veikja okkur, þá látum við ekki slá okkur út af laginu. Friðurinn þjónar öllum ekki bara okkur heldur Mið-austurlöndum öllum og reyndar gervöllum heiminum.

Nú heyrist ekkert frá Öcalan. Einangrun hans er alger. Ég hef reynt að leggja lóð á þá vogarskál að þessi einangrun verði rofin.

Hér a neðan er mynd tekin út um bílrúðu og sýnir fjöll og sléttu á leið frá Erbil til Sulaymani. Ekki besta mynd sem völ er á af stórbrotnu landslagi - en mynd engu að síður.


Ég vek athygli á að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda.