Fara í efni

Í STAÐ BLEKS

Sæll Ögmundur.
Rödd mín er kannski hjáróma, en ég er andvíg því að gangast í ábyrgð fyrir 700 milljarða króna skuld sem ég stofnaði ekki til. Meintur málssvari smælingjanna segir „niðurstöðuna ásættanlega". Hún verður nú að leggja frá sér helgislepjuna. Niðurstaðan er hræðileg. Þeir sem ættu að skrifa undir Icesave-skuldbindingarnar eru þessir: Halldór Kristjánsson, Sigurjón Þ. Árnason, Jón Sigurðsson, Jónas Fr. Jónsson, Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Bjarni Ármannsson, Einar og Benedikt Sveinssynir, Ólafur Ólafsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Hannes Smárason, og allir starfsmenn gömlu bankanna sem báru titlana framkvæmdastjórar eða forstöðumenn sviða. Þetta lið getur svo sett allar eigur sínar að veði fyrir undirskriftunum að svo miklu leyti sem kröfuhafarnir treysta viðkomandi ekki til að standa við undirskriftir sínar. Auðvitað verður þetta ekki, ábyrgðin íþyngir þessu drengjum ekki. Líklega kemur það í hlut fjármálaráðherra, eða Svavars Gestssonar, að skrifa undir hið endanlega plagg. Burtséð frá því hver skrifar undir legg ég til að menn skrifi undir Icesave samningana með sjálfblekungi. Í stað bleks legg ég til að þeir noti blóð, svita og tár úr íslensku alþýðufólki.
Ólína