Í UPPHAFI KIRKJUÞINGS
Íslenskt þjóðfélag tekur örum breytingum. Þær breytingar endurspeglast á meðal annars í viðhorfum til trúarbragða og stofnana sem þeim tengjast. Talað er um að skilja að ríki og kirkju - að fullu, höggva á öll tengsl. Spurt er hvort trúarbragðafræðsla eigi heima í skólum og þá hvernig og í hvaða mæli. Eiga allir að sitja við sama borð? Kristin trú, Islam, lífsskoðunarfélög, Búddismi?
Hvert viljum við stefna? Þessum spurningum er varpað fram í þjóðfélagsumræðunni og ég hef fylgst af áhuga með því hvernig kirkjunnar menn hafa blandað sér í þessa umræðu og iðulega átt frumkvæði að henni sjálfir. Hefur mér þótt hún vera alvöruþrungin og mjög á dýptina.
Sjálfur hef ég velt þessu nokkuð fyrir mér.
Eitt er að horfa til hinna trúarlegu og siðfræðilegu þátta, annað er að líta til stofnana og forms. Viðfangsefni umræðunnar eru tengslin þarna á milli. Spyrja þarf um markmið.
Í mínum huga hlýtur takmarkið að vera að skapa víðsýnt og umburðarlynt samfélag; samfélag sem virðir lýðræðislegan og einstaklingsbundinn rétt; samfélag sem skapar ekki einum rétt á kostnað annars. Við viljum í senn lúta lýðræðislegum meirihlutavilja og virða minnihlutasjónarmið. Þetta eru markmiðin hvað skipulagið varðar. Ef mönnum þykir núverandi skipulagi ábótavant og ekki fullnægja þessum grundvallaratriðum þá þarf að gera á því breytingar. Spurningin er þá hverjar þær breytingar eigi að vera og þá ekki síður hvernig þeim skuli hrundið í framkvæmd. Hér leyfi ég mér að hvetja til mikillar yfirvegunar.
Kirkjan er hluti af heild. Þegar rætt er um samskipti ríkis og kirkju þarf að spyrja hvernig við viljum haga samskiptum ríkis og trúarhreyfinga almennt í framtíðinni. Ef hugsunin er sú að réttlætinu verði þá fyrst fullnægt að öllum trúarbrögðum og trúflokkum verði tryggð sama aðstaða og stuðningur og kristin kirkja hefur haft þegar best hefur látið, þá gæti þessi nálgun leitt til meiri stofnanalegrar trúvæðingar í samfélaginu en við höfum þekkt til þessa. Hin varfærnari og þess vegna íhaldsamari nálgun byggir á því að draga fremur úr en bæta í. Þar er ég á báti.
Þau viðhorf eru allfyrirferðarmikil, ekki aðeins innan Þjóðkirkjunnar heldur í ýmsum trúarsöfnuðum að of langt sé gengið í því að úthýsa trúarbrögðum út úr daglegu lífi skólans. Þau viðhorf heyrast viðruð að ganga eigi í gagnstæða átt og að trúarlíf eigi að fá ríkulegri aðgang að stofnunum, skólum og öllu opinberu lífi en nú er. Þessi viðhorf eru síður en svo einskorðuð við einhver ein trúarbrögð. Það ber þjóðkirkjunnar mönnum að hafa í huga. Víða erlendis eru það einmitt annarrar trúar menn en kristinnar trúar sem halda þeim á loft. Verði okkur úthýst úr skólum og stofnanalífi, segir þessi hópur, hljótum við, með hliðsjón af þeim grunnreglum sem halda ber í heiðri um trúfrelsi og virðingu fyrir rétti minnihlutahópa, að fá að stofna sérstaka skóla með áherslu á okkar trúarbrögð með öflugum styrk frá ríkinu og ekki minni en almennir skólar fá.
Þetta viðhorf er vissulega til staðar hér á landi og hefur íslenkst samfélag svarað því, til dæmis með því að styrkja kaþólskan skóla í Reykjavík. Ekki er hann hverfisskóli en stuðningurinn byggist á þessari almennu afstöðu um að virða beri vilja fólks og er óháð því hvort vilji fólks tengist trúarbrögðum eða skólastefnu. En hversu langt værum við reiðubúin að ganga í þessu efni? Á að virða rétt allra trúarbragða með þessum hætti inni í stofnanakerfi landsins?
Allt þetta hljótum við að hugleiða þegar við horfum til framtíðar. Og þetta eru sjónarmið sem þjóðkirkjan verður að hafa hliðsjón af í umræðu um trúboð í skólastarfi.
Enda þótt ég sé almennt þeirrar skoðunar að trúarbrögð eigi í mjög takmörkuðum mæli að fá aðgang að skólastofnunum, þá þarf að hyggja að ábendingum skólafólks um að ekki megi vanrækja skólann sem mikilvægan vettvang til að ná til mismunandi trúar- og menningarheima. Það verði að horfast í augu við veruleikann og fræða um hann, einnig trúarbrögðin. Hanna Ragnarsdóttir, lektor við Kennaraháskóla Íslands, hefur bent á, að almennt reyndi fólk sem flust hefði til landsins að laga sig að samfélaginu. Skólarnir okkar, sagði hún, væru ekki hugsaðir fyrir það fjölmenningarsamfélag sem hér væri þegar orðið. Þetta þýddi til dæmis að börnum, sem kæmu frá fjölskyldum sem væru ekki kristinnar trúar, væri þröngvað inn í annan heim í skólanum. Spenna myndaðist, annars vegar vegna viljans til að aðlagast og hins vegar löngunar til að sýna þeim gildum sem fjölskyldan innrætti, virðingu og fylgispekt. Þetta gæti grafið undan samstöðu innan fjölskyldunnar og/eða leitt til einangrunar hennar, sem þá færi að sinna sinni trú á heimilinu og þá í samneyti við aðrar fjölskyldur af sama uppruna og menningarheimi. Þessi einangrun væri varasöm, að mati lektorsins, og yrði skólinn að íhuga leiðir til að laga sig að þörfum fólksins í stað þess að þröngva því inn í sitt einsleita mót.
Þetta sjónarhorn á umræðuna er mikilvægt: Að við spyrjum að hvaða marki samfélagið og stofnanir þess eigi að laga sig að fjölbreytileikanum og svo á hinn bóginn, að hvaða marki hægt sé að ætlast til að einstaklingar og hópar lagi sig að samfélaginu. Að því leyti sem hið síðarnefnda er uppi á teningnum hlýtur að vera rík krafa um jafnræði, tillitssemi og víðsýni. Kristín Dýrfjörð, lektor við Háskólann á Akureyri, hefur bent á að við eigum að horfast í augu við að Ísland er fjölmenningarþjóðfélag og kennarar sérstaklega verði að vera sér þessa meðvitaðir og virða mismunandi óskir og þarfir. Undir þetta vil ég taka, bæði út frá sjónarhóli skoðana- og trúfrelsis en einnig af þeirri praktísku ástæðu að sinna beri þessum þörfum og kröfum í sameiginlegu umhverfi allra hópa í þjóðfélaginu en ekki í sérskólum sem reistir eru á grundvelli trúarbragða.
Allt er þetta vandmeðfarið og línur ekki alltaf skýrar. En hvar drögum við mörkin á milli trúarlegs efnis annars vegar og efnis sem flokka má undir almenna hefð en með trúarlegu ívafi? Þegar talað er um að leggja niður kirkjuna sem þjóðkirkju þá finnst mér stundum að menn séu að tala um hið ómögulega. Við hvorki viljum né getum lagt niður þjóðkirkjuna í þeim skilningi að hún er saga okkar í þúsund ár. Hún er menning okkar og hefð.
Hvað með Heilræðavísur Hallgríms Péturssonar svo dæmi sé tekið? Getur verið að einhverjum sé það virkilega alvara að láta banna að hafa þær fyrir börnum? Hér væri ekki aðeins verið að úthýsa trúarlegu efni heldur gamalagrónum heilræðum og menningararfi.
Hafðu hvorki háð né spott
hugsa um ræðu mína
elska guð og gerðu gott
geym vel æru þína
Fyrir nokkrum árum hlustaði ég á fyrirlestur um aðskilnað ríkis og kirkju. Fyrirlesari sagði að við hlytum að stefna að fullum aðskilnaði samkvæmt þeirri grundvallarafstöðu að jafnræði skyldi ríkja milli allra trúarbragða. Og hann hélt vangaveltum sínum áfram: Kirkjan á að boða kristna trú, sagði hann, hún á ekki að hafa með höndum stjórnsýslulegt hlutverk. Það hljóti meira að segja að slæva raunverulegt ætlunarverk trúboðenda. En þar sem ég sat úti í sal spurði ég innra með sjálfum mér: Er þetta með öllu illt, ef niðurstaðan verður sú að gera boðandann/bírókratann meðvitaðan um ábyrgð sína í fjölmenningarlegu umhverfi? Er kirkja sem kappkostar að vera umburðarlynd; kirkja sem skilgreinir það sem hlutverk sitt að veita öllum viðhorfum rými, að virða mannréttindi allra, líka samkynhneigðra - er hún ekki eftirsóknarverðari en ágeng kirkja, slitin úr formlegum tengslum við þjóðfélagið?
Svar mitt er játandi. Og þetta er skýringin á því hvers vegna ég vil fara varlega í sakirnar í öllum breytingum á þessu sviði, fyrst og fremst til að ná því markmiði sem ég nefndi í upphafi máls míns, að skapa víðsýnt og umburðarlynt samfélag. Það á að mínu mati að vera okkar leiðarljós í hvívetna.
Þetta breytir því ekki að kirkjan á að vera brennandi í andanum, ætíð trú sínum boðskap, óhrædd og óbugandi, siðferðilegur vegvísir sem aldrei bregst sem slíkur, kjölfesta og klettur, ætíð til að reiða sig á í sviptivindum samtímans. Það voru einmitt margir kirkjunnar menn í framvarðarsveit friðarhreyfinganna á níunda áratugnum sem felldu alræðiskerfin austan múra. Vestan megin risu þeir upp gegn tískubábiljum þess tíma, hernaðar- og valdahagsmunum, ekki alltaf lofaðir og prísaðir, ekki heldur innan eigin raða. En á endanum höfðu þeir sigur. Meðaldrægu kjarnorkuflaugarnar voru teknar niður. Og síðan hrundi múrinn. Þegar vitnaðist hvers garsrótarlýðræðið fengi megnað, þá tók sú vitneskja á rás og varð eftir það ekki stöðvuð.
Í Nýja testamentinu segir frá því er djöfullinn freistaði Jesú og sagði freistarinn: Ef þú ert Guðs sonur, þá bjóð þú, að steinar þessir verði að brauði. En Jesús svaraði: Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman, heldur sérhverju orði, sem fram gengur af Guðs munni (Matt 4, 4).
Það var í augum freistarans sönnun um almætti að geta breytt steinum í brauð. Að geta breytt leir í gull. Það er draumurinn um að geta skapað auð úr engu. Þetta er sagan um strit mannsins og baráttu við náttúruöflin, sagan um óttann við hungur og örbirgð; óttann við ósigur og dauða. Því engin skepna getur lifað án matar og maðurinn getur ekki lifað án brauðs.
En það hrekkur ekki til. Mannsandinn þráir og þarf meira, ef samfélag á að þrífast.
Í mannkynssögunni hafa af og til verið gerðar tilraunir til þess að finna út hvort maðurinn geti lifað á þessu brauði einu saman. Íslendingar hafa nýlokið einni slíkri tilraun. Hún heppnaðist ekki vel.
Reyndar var gengið óvenju langt í þessari tilraun okkar. Hún átti rót að rekja allt aftur til loka áttunda áratugarins þegar Margrét Thatcher, járnfrúin breska, sagði eftirminnilega, að græðgi væri góð. Okkar útgáfa var mildari og jákvæðari: Virkjum eignagleðina. Þannig
var það orðað hér á landi.
Breytum steinum í brauð. Það var ellefta boðorðið. Og svo mjög ærðust hinir óstöðugu að ekkert heyrðust orðaskil úr Guðs munni um samúð og kærleika og umburðarlyndi. Hvað þá að maður ætti að elska náunga sinn.
Í árþúsundir hafa trúarbrögðin, heimspekin og siðfræðin reynt að beisla hið illa með okkur og virkja hið góða. Þetta er eilífðarverk mannsins. Andvaraleysið er slæmt og ekki hjálpar þegar komið hefur bein hvatning um að virkja þær tilfinningar og hvatir sem við almennt teljum slæmar, ágirndina og eigingirnina.
Best vegnar samfélögum sem eru í góðu jafnvægi, þar sem mannréttindi eru í hávegum höfð, gagnkvæm virðing manna á milli, stofnanir þyka traustsins verðar, réttarkerfið nýtur virðingar og síðast en ekki síst siðleg gildi eru í hávegum höfð.
Sagan kennir að mikilvæg gildi fá þrifist án stofnanalegrar umgjarðar. Kristur barðist við stofnanaveldi sinnar samtíðar. Hann skilgreindi sig aldrei í ljósi eigna eða veraldlegra gæða.
Þau gildi sem hann boðaði, eru grundvöllur siðferðis kristinna manna, í fjölbreyttum söfnuðum víða um heim.
Stofnanir samfélagsins eiga allt sitt undir sátt í samfélaginu. Styrkur þeirra byggist á samkennd og sameiginlegri siðferðisvitund. Það gildir um Alþingi, um dómstóla um viðskipti hvers konar og það gildir líka um kirkjuna. Og þegar sáttin týnist og siðferðið glatast, riða allar stofnanir til falls. Þegar köllin glymja: Breytið steinum í brauð, svo allir ærast af hávaða, þá bresta hin þykkustu tré. Fáir heyra í þeim sem segir: Maðurinn lifir ekki á brauði einu saman.
En nú eru nýir tímar að ganga í garð. Átrúnaðurinn á græðgina og gullgerðaræðið, er í rénun. Nú geta þær stofnanir samfélagsins sem standa á góðu siðferði og gildum, byggt sig upp að nýju og orðið hver annarri styrkur.
Einhver sagðist vera algerlega á móti aðskilnaði ríkis og kirkju. Það væri meira en nóg að hafa eina stofnun sem reyndi að hafa vit fyrir manni. En þær eru ólíkar þessar stofnanir, ríkið og kirkjan. Þjóðkirkjan er þó betur sett að því leyti að enginn kemur þangað nauðbeygður. Ekki er hægt að segja sig undan ríkinu. Ekki er hægt að segja sig úr þjóðfélaginu.
Allar stofnanir þjóðfélagsins eiga undir högg að sækja. Allar stoðir okkar litla samfélags eru í vanda. Verkefni okkar sem störfum í framvarðarsveit stofnana samfélagsins er að endurvinna traust. En það er ekki sama hvernig það er gert. Verkefni okkar er ekki að endurbyggja gömlu húsin eftir gömlu teikningunum. Verkefnið er að finna gallana, endurhugsa alla hluti, efast um allt og vanda til uppbyggingar. Við viljum koma sterkari út úr kreppunni en við fórum inní hana.
Því kreppan var siðferðiskreppa. Og kreppan er enn siðferðiskreppa. Og því er horft til kirkjunnar. En þar starfa líka menn en ekki dýrlingar. Menn sem eru fullir af efa en líka trú. Og þar er líka að finna von og þar er líka að finna kærleika. Og kannski verðum við öll, hvar sem við störfum að endurbyggja samfélagið með kærleika. Þegar allt um þrýtur og hvorki finnast steinar né brauð, er kærleikurinn það eina sem eftir er. Samúð, samhugurinn, samfélagið.
Getum við hafið okkur yfir erfiðleikana? Getum við orðið sterkari eftir en áður? Getum við látið áföllin efla okkur? Svarið er já, en því aðeins að við beygjum okkur og hugleiðum í auðmýkt en ekki í hroka.
Ég óska Þjóðkirkjunni alls góðs. Megið þið hafa gjöfult og gott Kirkjuþing.