Í VENEZUELA ERU MESTU OLÍBIRGÐIR HEIMS – ÞARF AÐ SEGJA MEIRA?
Bandarísk stjórnvöld minna okkur þessa dagana á hver þau eru, hverra erinda þau ganga. Ríki þeim handgengin víðs vegar um heiminn fara að dæmi húsbónda síns í Washington og gömlu nýlenduríkin í Evrópu sömuleiðis. Þau minna okkur á að þau eru enn við sama heygarðshornið og þau voru á nýlendutímanum svokallaða, þegar þau fóru rænandi og ruplandi um heiminn kinnroðalaust fyrir opnum tjöldum. Gripdeildirnar voru þá öllum sýnilegar – því nýlenda var nýlenda og laut stjórrn nýlenduherranna. Nú er allt sveipað lygavef og heiminum talin trú um að drottnunarvaldið sé í raun umhyggja fyrir mannréttindum og lýðræði.
Við þurfum hins vegar ekki annað en að fletta upp á auðlindum Venezuela til að sjá hvað klukkan slær. Þar í landi er að finna mestu olíuauðlindir veraldarinnar, talsvert meiri en í Saudi-Arabíu, Íran, Írak, Kanada, Kuwait, Qutar, Nígeríu, …
Í Venezuela er með öðrum orðum mest af svarta gullinu og það ætla auðvaldsöflin sér og sínum!
Almenningur fengi notið auðlindanna
En talandi um meinta lýðræðisást þá er það einmitt lýðræðið sem heims-auðvaldið ekki virðir þegar hagsmunum þess er ógnað. Og það gerðist svo sannarlega í Venezuela þegar Hugo Chavez komst þar til valda skömmu fyrir aldamót á öldufaldi fjöldahreyfingar sem krafðist aukinnar hlutdeildar í olíu-auðlindum sem alþjóðlegar samsteypur höfðu setið nær einar að. Margoft var reynt að hrekja Chavez frá völdum og tókst tímabundið. Enn fara félagar hans með völdin að honum látnum. Maduro, núverandi forseti var síðast kjörinn í kosningum árið 2017. Andstæðingar hans neituðu þá margir að taka þátt í kosningunum, að eigin sögn vegna þess að þeir treystu ekki að kosningarnar væru heiðarlegar, aðrir hafa haldið því fram að þeir hafi ekki viljað láta reyna á lýðræðið. Maduro hefur verið sakaður um valdaklæki og ólýðræðisleg vinnubrögð, ekki síst eftir að stjórnarandstaðan náði þingmeirihluta í kosningum 2015. Þá var hafist handa um að breyta stjórnarskrá forsetanum í vil.
Efnahagslegt ofbeldi
Bandaríkin hafa haft þann hátt á þegar reynt hefur verið að ná auðlindum sem alþjóðaauðvaldið hefur stolið, aftur til almennings, að beita efnahagsþvingunum og síðan þegar ástandið er orðið óbærilegt í viðkomandi landi af völdum þeirra, er framkvæmt valdarán – regime change. Í Venezuela er allt þetta að ganga eftir, vaxandi óvinsældir stjórnvalda vegna efnahagsöngþveitis sem á að verulegu leyti rót að rekja til efnahagsþvingana hafa undanfarin ár jafnt og þétt grafið undan vinsældum og stuðningi við stjórnvöld.
Ástandið í Venezuela er orðið skelfilegt. Ekki að undra, arðinum af olíusölu erlendis er haldið frá þjóðinni. Dæmi um þetta er að Citgo fyrirtækinu, sem staðsett er í Houston í Texas og annast olíuhreinsun og viðskipti með olíu frá Venezuela, er meinað að senda arð af viðskiptum sínum til heimalandsins enda þótt olían komi þaðan og fyrirtækið sé í meirihlutaeign ríkisolíufélags Venezuela, PDVSA. Eða öllu heldur, vegna þess að arðurinn á að renna til almennings í Venezuela eru skorðurnar reistar. Af þessari ráðstöfun einni verður Venezueala af milljarði Bandaríkjadala á ári hverju. En miklu meira kemur til. Bandarískum fjármálafyrirtækjum er fyrirskipað að koma í veg fyrir hvers kyns greiðslumiðlun á vegum stjórnvalda í Venezuela, hvað þá að endursemja um endurfjármögnun lána. Þetta er nokkuð sem Íslendingar ættu að skilja, eftir að fá bank í höfuðið frá lögreglu heimskapitalismans, AGS fyrir réttum áratug. Allt stefnir nú í allsherjargjaldþrot ríkisins.
Ætla sér að ráða því hver er forseti
Og nú er svo komið að ríki sem ganga erinda alþjóða auðvaldsins, með Bandaríkin í broddi fylkingar, hafa veitt stjórnmálamanni, sem í vikunni sagðist vilja láta viðurkenna sig sem forseta landsins, slíka viðurkenningu. Þetta er forseti þings Venezuela, Juan Guaidó, og segir hann að Maduro, hinn réttkjörni forseti, sé “ólögmætur”. Undir það tók frá fyrstu mínúntu Trump og fylgjendur hans á heimsvísu. Spurning hvað Donald Trump segði ef heimsbyggðin segðist hafa komist á þá skoðun að lýsa hann ólögmætan en demókratann Steny Hamilton Hoyer, leiðtoga fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, þar sem demókratar hafa meirihluta, hinn eina sanna forseta Bandaríkjanna. Nákvæmlega þetta er nú að gerast gagnvart Venezuela.
Íslandsvinurinn Pompeo – en vinur hverra?
Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna – sá hinn sami og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands sýndi vinarhót fyrir fáeinum dögum og sagði að samstaða væri um auka samvinnu við “á sviði varnarmála” - fer nú mikinn í umboði forseta síns.
Þeir félagar Trump og Pompeo hafa fengið sér til halds og trausts sem sérstakan umsjónarmann í samskiptum Bandaríkjanna og Venezuela, alræmdan bófa, Elliott Abrams að nafni. Hann er ég ekki einn um að kalla bófa því bandarískt réttarkerfi komst að raun um að hann hafi gerst alvarlega brotlegur í hinum svokallaða Íran/Contra lygavef sem spunnin var á tímum Reagan-stjórnarinnar til að fela stuðning við vopnaðar öfgasveitir sem stefnt var gegn stjórnvöldum í Nikaragua á þessum tíma.
Abrams þótti liðtækur í að bera sakir af bandarískum yfirvöldum fyrir stuðning við dauðasveitir í El Salvador á níunda áratugnum og þegar “sannleiksnefnd” á vegum Sameinuðu þjóðanna sem rannsakaði 22 þúsund morð og ódæðisverk í El Salvador á tólf ára tímabili, komst að þeirri niðurstöðu að 85% þeirra væru á ábyrgð stjórnarhersins og dauðasveita sem honum tengdust, sagði Abrams að stuðningur við hin hægri sinnuðu stjórnvöld El Salvador, sem þóttu alla tíð mjög undirgefin Bandaríkjastjórn, væri skínandi dæmi um árangur: “The administration’s record on El Salvador is one of fabulous achievement.”
Um þennan mann sagði Íslandsvinurinn Pompeo í vikunni: “Elliott will be a true asset to our mission to help the Venezuelan people fully restore democracy and prosperity to their country.”
Stendur til að auka hernaðarsamvinnu við BNA? Og hvað á að segja um Venezuela?
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna er holdgervingur þeirrar hrikalegu valdbeitingar sem við nú verðum vitni að gagnvart Venezuela. Ætla íslensk stjórnvöld að fordæma hana?
Og enn er spurt er ástæða til að auka samvinnu við Trump/Pompeo stjórnina í vígbúnaðarmálum eins og utanríkisráðherra Íslands hefur hótað að gert verði.
Það er nógu slæmt að Ísland skuli vera í NATÓ. En það er til að bæta gráu ofan á svart að vilja AUKA samvinnu á sviði “VARNARMÁLA”. Varla er þetta ákvörðun ríkisstjórnarinnar? Hafa þessi mál verið rædd á fundum hennar eða í utanríkismálanefnd Alþingis? Sú nefnd hefur verið kölluð saman af minna tilefni.