Fara í efni

ÍBÚAVÆNIR EÐA VERKTAKAVÆNIR FRAMBJÓÐENDUR?

Verktakar og skipulagsmál
Verktakar og skipulagsmál


Mín tilgáta er sú að upp til hópa komi byggingaverktakar á höfuðborgarsvæðinu til með að kjósa þá flokka sem eru reiðubúnir að láta verktaka verða ráðandi afl í skipuagsmálum borgarinnar.  

Skipulagsmálin í höndum núverandi valdahafa í Reykjavík vekja sífellt meiri furðu. Án samráðs við íbúa er boðuð þrenging inn á við, eins og það heitir víst þegar jarðýtum hefur verið hleypt á bílageymslur við Hjarðarhaga til að rýma fyrir nýjum íbúðarhúsum og sama mun eiga að gerast við Suðurgötuna, upp af gamalgróinni Aragötunni, þar er grasræma  sem skipulagsyfirvöld hafa komið auga á að megi byggja á. Tek ég þá aðeins dæmi úr mínu nágrenni um tillögur sem hent er framan í íbúana þessa dagana. Margir furða sig á fyrirhugaðri opnun Melanna fyrir aukinni bílaumferð, þar á meðal við barnaskólann í hverfinu. Að sjálfsögðu  án samráðs.

Sama er uppi á teningnum í flugvallarmálinu. Þrátt fyrir yfir 70 þúsund undirskriftir til stuðnings flugvellinum í Vatnsmýrinni og margendurteknar skoðanakannanir sem ALLAR sýna stuðning við flugvölinn, þá skal hann burt enda segir oddviti Samfylkingarinnar - forseti borgarstjórnar -  að sá flokkur sé ekki í hefðbundinni „vinsældakosningu". Ég skal játa að ég ber virðingu fyrir þeim sem eru reiðubúin að standa og falla með sannfæringu sinni. Þannig eiga stjórnmálin að vera. En kjósendur verða þá að gera slíkum frambjóðendum gerlegt að lifa samkvæmt sannfæringu sinni  og falla með hinni óvinsælli skoðun , ef sú er raunin.

Unadarlegt er það óneitanlega að sama fólk og hamast gegn meirihlutaviljanum í Reykjavík, skuli  flykkjast á Austurvöll til að krefjast þess að lýðræðið verði látið ráða varðandi Brussel. Skýtur skökku við að tala máli lýðræðisins í öðrum húsum en sínum eigin en hunsa  íbúaviljann í eigin túngarði.

Andstæðingar flugvallarins rifja það stundum upp að atkvæðagreiðsla hafi farið fram og hafi þá meirihluti borgarbúa viljað flugvöllinn burt.

Nokkuð er til í þessu. En á það er að líta að á fundi  borgarráðs hinn 13. febrúar 2001 var samþykkt að atkvæðagreiðsla um framtíð flugvallarins, sem þá stóð fyrir dyrum, skyldi því aðeins verða bindandi ef 75% atkvæðisbærra manna tækju þátt eða að 50% atkvæðisbærra manna greiddu öðrum valkostinum atkvæði sitt. Þátttakan var hins vegar lítil, einungis 37,2%. Lýstu 18% kosningabærra manna stuðningi við flugvöllinn en 19% vildu völlinn burt. Þarna skildu einungis að rúm 300 atkvæði.

Síðan verður ekki horft framhjá því að frá því að þessi atkvæðagreiðsla fór fram hefur mikið vatn runnið til sjávar og viðhorfin breyst  eins og rækilega hefur sannast. Allt bendir til þess að  yfirgnæfandi meirihluti bæði borgarbúa og landsmanna (sem í sameiningu eiga náttúrlega að leiða málið til lykta)  vilji hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni. Á þetta er hins vegar ekkert hlustað -  af núverandi valdhöfum.

Þétting byggðar er hugsjón sem komin er til ára sinna. Hún byggir á því að vilja hafa sem minnst gras í mannabyggð.  Þegar þessi hugsjón er síðan komin í vinfengi við verktakafyrirtæki í  byggingariðnaði og braski verður til kokteiill, sem hefur pólitískar afleiðingar sé hans neytt í óhófi.

Nú þurfum við að vita um vilja einstakra frambjóðenda - valdhafa komandi kjörtímabils. Við þurfum að vita hvort þeir eru íbúavænir eða verktakatvænir.