Fara í efni

ÍBÚÐALÁNASJÓÐUR SVARI ÞÖRFUM ALMENNINGS EKKI MARKAÐSKREDDUM

Bjarni Ármannsson, bankastjóri hjá Glitni mætti á morgunvarkt RÚV til að ræða vaxtahækkanir. Aðalbölvaldur hagkerfisins, að hans mati, var Íbúðalánasjóður. Hann hefði boðið upp á lán á alltof lágum vöxtum og hefðu bankarnir því neyðst til að færa sína vexti niður. Þetta eru svosem gamlar lummur frá talsmönnum viðskiptabankanna, sem vilja Íbúðalánasjóð feigan til þess að komast sjálfir yfir öll viðskipti með íbúðalán landsmanna.

Tvennt vekur athygli í þessum málflutningi. Í fyrsta lagi sú breytta söguskýring að það hafi verið Íbúðalánasjóður en ekki bankarnir sem riðu á vaðið með lækkun vaxta fyrir fáeinum misserum. Hinu gagnstæða var nefnilega lengi haldið fram af hálfu talsmanna viðskiptabankanna til að sýna hve mjög einkavæðingin hefði gagnast lántakendum. Vaxtalækkunin átti að vera bönkunum að þakka. Því fór fjarri. Vaxtalækkun bankanna kom til vegna þess að Íbúðalánasjóður var til staðar. Bankarnir lækkuðu vexti eftir að þeim hafði mistekist að knésetja Íbúðalánasjóð með kæru til ESA-dómstóls EES. Vaxtalækkunin var– góðu heilli – Íbúðalánasjóði að þakka og hefur sjóðurinn rækilega sannað hve mikilvægur hann er almenningi sem kjölfesta og sem aðhald gagnvart hinum gráðugu og óseðjandi bankastofnunum. Þá skal því haldið til haga að það voru bankarnir sem hófu samkeppni og verðstríð við Íbúðalánasjóð - þ.e. tilraun til að auka markaðshlutdeild sína - en ekki öfugt.

Hitt sem athygli vekur er sú óskammfeilni að réttlæta hið gegndarlausa okur fjármálastofnana. Lán til íbúðakaupa með 5% vöxtum ofan á vísitölubindingu í verðbólgu sem mælist yfir  8% gengur engan veginn upp nema náttúrlega ef þú hefur 20 milljón króna mánaðarlaun. Hér er um að ræða 13% vexti. Það þýðir að fjármagnskostnaður fyrir 10 milljón króna lán er 1,3 milljónir á ári! Þetta er hverjum venjulegum launamanni ofraun og í sjálfu sér ekkert annað en rán um hábjartan dag. Þegar við svo heyrum úr munni bankastjóra Glitnis og hans líkum að það hafi verið sérlega óábyrgt af hálfu Íbúðalánasjóðs að færa þennan kostnað niður og þar með hafi sjóðurinn í reynd fyrirgert tilverurétti sínum, þá verður manni orðvant. Ekki síst þegar þetta kemur frá aðilum sem mala gull á kostnað almennings og fyrirtækja í landinu.

Kvakið í fulltrúum Efnahags- og framfarastofnunarinnar,OECD,  hér á dögunum um að rétt sé að leggja gjald á Íbúðalánasjóð sem “endurspegli ríkisábyrgðina” er af svipuðum frjálshyggjutoga! Hvers eiga íbúðakaupendur að gjalda? Ríkisábyrgðin er til þess að halda vöxtum í lágmarki þeim til varnar og hagsbóta. Íbúðalánakerfið á að sníða að þeirra hagsmunum en ekki hugmyndum markaðssinna um hið “hreina” kerfi.

Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs heldur ró sinni í viðtali við Blaðið í gær: “Ég held að flestir séu þeirrar skoðunar að bankarnir hafi farið of geyst fram í þessum geira og því hafi þeir þurft að stíga mun harkalegar á bremsurnar heldur en við. Þróunin í efnahagsmálum hefur komið fram í okkar starfsemi og ég held að það muni hægja enn meira á næstu mánuði. Það er hins vegar eðlilegt að við sem opinber stofnun höldum ákveðnum stöðugleika í starfseminni. Það kann ekki góðri lukku að stýra að hafa opið í dag en lokað á morgun.”
Undir þetta skal tekið.