Fara í efni

ICESAVE ERFITT

Sæll Ögmundur og gleðilegt nýtt ár. Nú gleðjast hægri menn eftir ýmsa „sigra" eins og þeir vilja orða hlutina. Sennilega hefur þetta dæmalausa Icesave mál verið ríkisstjórninni einna erfiðast en þegar öllu er á botninn hvolft, hefðum við náð nákvæmlega sömu niðurstöðu fyrir 3 árum! Í ljós hefur komið og var í raun alltaf rétt, að nægar innistæður væru fyrir öllum þessum skuldbindingum. Nú hefur meira að segja komið í ljós að sennilega mun töluvert meira fé skila sér af útistandandi skuldum þrotabús Landsbankans. Nú hefur Björgvin Guðmundsson gamalreyndur og varkár viðskiptafræðingur reiknað út að töfin í boði braskaranna með Ólaf Ragnar sem meðhjálpara á að leysa Icesave hnútinn, kostað þjóðarbúið milli 60 og 100 milljarða. Hann rökstyður þessa útreikninga á því að fyrir 3 árum hefðum við fyrr notið hærra og hagstaðara lánshæfismats með betri viðskiptakjörum og vöxtum. Hagvöxtur hefði aukist hraðar og atvinnuleysið dvínað hraðar. En því miður voru það æsingamennirnir sem í öll þessi ár klifuðu á einhverjum rangindum. Það var alltaf deginum ljósara að ástæðan fyrir þessu þófi voru formsatriði í samningunum um ábyrgðir ef svo færi að afskrifa þyrfti ALLAR útistandandi skuldir þb. Landsbankans. Kannski við eigum í þakkarskuld við Gordon Brown eftir allt saman að hann kom í veg fyrir að braskaraliðið kæmi eignum Landsbankans undan til Tortóla, Lúxemborgar eða annarar skattaparadísar. En nóg af svo góðu, þið í ríkisstjórninni verðið að efla varðliðið gagnvart hægri öflunum sem stöðugt eru að færa sig upp á skaftið.
Guðjón Jensson

Sæll og þaka þér bréfið Guðjón. Yfirleitt er ég þér sammála en alls ekki um Icesave! Þú manst kannki að ég sagði af mér ráðherradómi vegna  Icesave og var hjartanlega sammála forsetanum í því að skjóta málinu til þjóðarinnar sem í reynd varð til þess að bjarga okku út úr vandanum. Ástæðan fyrir slæmu lánshæfismati var efnahagshrunið og ekki hefði bætt úr skák að borga tugmilljaðra í vexti í gjaldeyri vegna Icesave; gjaldeyri sem ekki var til!  það vill gleymast að þeir peningar hefðu EKKI komið úr þrotabúinu heldur ríkissjóði - hinum sama og fjármagnar heilbrgðis- og menntakerfið.
Kv.,
Ögmundur