ICESAVE OG ESB
"Enginn er eyland" sögðu gömlu kommarnir með Kristinn E. Andrésson í broddi fylkingar. Getur Ísland því sagt sig úr lögum við alþjóðasamfélagið? Verðum við ekki að samþykkja Icesave-samningana eins og þeir liggja fyrir. Hér er meira sem er undir. Ísland hefur ríka hagsmuni af því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það er hagsmunir sem setur þær skyldur á herðar Alþingis að láta til sín taka og samþykkja þingsályktunartillögu um samningaviðræður við Evrópusambandið.
Kjartan Emil Sigurðsson
Sæll og þakka þér bréfið. Við þurfum einmitt að tengjast alþjóðasamfélaginu, ekki bara innan Evrópusambandsins heldur í heiminum öllum. Þá er ég að tala um almenning, launafólkið, hina eignalausu, þá sem aldrei áttu innistæðu hjá Icesave en eiga nú að borga, ég er að tala um hið raunverulega alþjóðasamfélag, ekki klúbb hinna innvígðu í Brussel. Mér finnst óþægilega mikil tenging á milli viljans til hraðafrágangs á Icesave og áfergju í Evrópusambands-inngöngu. Getur það verið? Málið er í minum huga stærra en svo að við getum mátað það í skammtímahagsmuni. Við þurfum að hugsa allt til langs tíma.
Með kveðju,
Ögmundur