Iðrunargangan hin síðari
Birtist í Mbl
Á nýafstaðinni hátíð á Þingvöllum þótti mörgum nóg um hve langt var gengið í því að samtvinna ríkisvald og kirkju í trúarathöfnum og helgihaldi. Þannig tóku fulltrúar ríkisvaldsins til dæmis beinan þátt í messugjörðinni sem fram fór að loknum þingfundi. Það var helst að menn söknuðu ríkisstjórnarinnar í iðrunargöngunni sem farin var í aðdraganda hátíðarhaldanna en að öðru leyti voru fulltrúar hennar jafnan til staðar. Nú hafa hins vegar skipast veður í lofti og ráðherrar og bankastjórar keppast hver um annan þveran við að gera yfirbót og iðrast synda sinna. Að vísu kann einhverjum að finnast þessi síðari iðrunarganga stefna í öfuga átt við það sem þeir hefðu kosið en það er önnur saga.
Þær yfirsjónir sem ráðherrar og bankastjórar með forsætisráðherrann í broddi fylkingar biðjast nú afsökunar á er að hafa leyft sér að hafa haft skoðun á gjaldeyrisbraski og spákaupmennsku sem hófst undir lok júnímánaðar. Það var reyndar ekki nóg með að þeir hefðu leyft sér að hafa skoðun. Þeir leyfðu sér að höfða til ábyrgðarkenndar og siðferðis fjármálamanna og í því efni gekk forsætisráherrann manna lengst. Ég var í hópi þeirra sem fannst hann eiga lof skilið fyrir þessa afstöðu.
Svo dæmi um þetta ferli séu rakin má nefna að í viðtali sem birtist við Birgi Ísleif Gunnarsson seðlabankastjóra í júní sagði hann að spákaupmenn hefðu gert atlögu að gengi íslensku krónunnar og Yngvi Örn Kristinsson einn helsti sérfræðingur bankans í peningamálum var mjög afdráttarlaus í yfirlýsingum sínum í þessa veru. Davíð Oddsson forsætisráðherra var einnig beinskeyttur og afgerandi í mati sínu á atburðarásinni og hann virtist ekki velkjast í vafa um þær hvatir sem lægju að baki. Hann sagði að flest benti til þess að handafli hefði verið beitt til að reyna að fella gengið og væri slík atlaga „á ystu mörkum þess sem unandi er við og viðskiptasiðferði á bak við slíka atlögu er náttúrlega afar hæpið, svo ekki sé fastar að orði kveðið.“ Þetta sagði Davíð Oddsson í Morgunblaðsviðtali í júní og svipaður tónn var í yfirlýsingum hans í öðrum fjölmiðlum á þessum tíma.
Í verðbréfahöllunum kunnu menn ekki að meta málflutning af þessu tagi. Þannig sagði í einhverju Morgunkorninu hjá FBA að veiking krónunnar væri „eðlileg viðbrögð markaðarins við versnandi horfum í efnahagslífinu.“ Þarna kvað við gamalkunnan tón peningafrjálshyggjunnar enda eru þetta hin kórréttu viðbrögð sannra markaðssinna. Samkvæmt kenningu þeirra eru hvorki til góðir menn né slæmir á markaði og siðferði þar af leiðandi ekki til umræðu. Svo framarlega sem landslögin eru ekki beinlínis brotin á allt að vera leyfilegt og allt sem á sér stað á markaði er eðlilegt og meira að segja ekkert eðlilegra en að hver og einn reyni að hagnast og græða sem mest. Samkvæmt þessari kenningu er út í hött að ætlast til samfélagslegrar ábyrgðar af hálfu fjármálamanna. Það mesta sem hægt væri að vonast til er að óbeinar afleiðingar gjörða þeirra verði til hagsbóta fyrir samfélagið.
Þetta er vélræn hugsun og ekki mjög vitræn. En hún er í tísku á Íslandi nú um stundir. Hvort það var til að tolla í tískunni eða til að gleðja pólitíska samherja þá fór að heyrast annað og breytt hljóð úr strokkum stjórnarráðs og Seðlabanka þegar komið var fram í júlí. Í sjónvarpsspjalli 16. júlí sagðist Birgir Ísleifur Gunnarsson seðlabankastjóri „viðurkenna“ að málflutningur sinn hefði nú aðrar áherslur en fyrr og kvaðst hann hafa notað „nokkuð hörð orð“ um spákaupmenn í júnímánuði. Og þegar hann var spurður hvort hann sæi það fyrir sér að Seðlabankinn þyrfti að berjast við spákaupmenn í framtíðinni sagðist bankastjórinn ekki vilja nota slíkt orðalag: „Ég vil kannski ekki nota orðið að berjast við, en að venja sig við og lifa með, og spákaupmenn á gjaldeyrismarkaði eru alls ekkert af hinu illa.“
Davíð Oddsson forsætisráherra var nú einnig farinn að tala um „eðlilegar sveiflur á gjaldeyrismarkaði.“ Þær lytu einfaldlega framboði og eftirspurn og það væri „eingöngu jákvætt“ að slíkar sveiflur gætu átt sér stað. Síðan gætti forsætisráðherrann þess jafnan að árétta að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar væri eins góð og skynsamleg og hugsast gæti og lofaði síðan fjármálamönnum að áfram yrði haldið að einkavæða og selja ríkiseignir.
Nú skal það sagt að sumir litu svo á að eðlismunur hafi verið á sveiflunum á gjaldeyrismarkaði í júní og júlí. Þetta kann vissulega að skýra að nokkru breyttan málflutning þeirra manna sem hér hefur verið vitnað til enda leggja þeir báðir á það áherslu að grundvallarmunur hafi verið á atburðarásinni í júní og júlí. Sjálfur dreg ég mjög í efa að þetta sé rétt mat og hafi verið stigsmunur á en ekki eðlismunur. Ég hef fyrir þessu ástæður sem ég tíunda ekki að svo stöddu. En hvað sem því líður er ljóst að þau skilaboð sem þessir fulltrúar ríkisstjórnar og bankayfirvalda vilja að komist til skila til þjóðarinnar eru á þá lund að okkur beri að sætta okkur við það svigrúm sem fjármálamenn ætla sér í samfélaginu; að við verðum að venja okkur við að lifa með þeirri staðreynd, svo notað sé orðfæri Seðlabankans.
Ábyrgð manna í samfélaginu og ábyrgð okkar á samfélaginu er verðugt umhugsunarefni. Þegar allur þorri almennings á í hlut, - að ekki sé á það minnst þegar láglaunafólk og millitekjuhópar ganga frá kjarasamningum - þá verður ráðamönnum tíðrætt um þjóðfélagslega ábyrgð. Þegar hins vegar stóreignamenn eru annars vegar og þeir leyfa sér að braska með eignir þjóðarinnar, stunda grimma spákaupmennsku með gjaldeyri okkar í von um skjótfenginn hagnað í eigin vasa þá er allt tal um siðferði og félagslega ábyrgð látið víkja. Þá eru það lögmál markaðarins sem eiga að ráða og græðgin jafnvel talin til dyggða. Þannig hjóðar lögmál markaðarins og þeir sem leyfa sér eitt andartak að efast um þetta lögmál, eins og henti seðlabankastjórann og forsætisráðherrann, þurfa að gera yfirbót og iðrast. Sú iðrunarganga hefur nú verið gengin.