ILLUGA SVARAÐ: LÍÐAN EFTIR ATVIKUM GÓÐ
Það jaðrar við að ég þurfi að biðja Illuga Jökulsson, rithöfund, afsökunar á að hafa ekki svarað spurningu sem hann beindi til mín og samherja minna nokkurra, á vefsíðu Stundarinnar fyrr í mánuðinum. Ég vil gjarnan virða Illuga svars og gera það áður en mánuðurinn er á enda runninn. Vangaveltur hans snúast um sök og samviskubit fólks sem hann telur hafa sitthvað á samviskunni og þær snúast einnig um ketti - pólitíska villiketti.
Eins ágætir og kettir kunni að vera í dýraríkinu þá séu þeir greinilega afleitir í heimi stjórnmálanna. Af grein Illuga má ráða að í þeim heimi séu sauðir eftirsóknarverðari enda má til sanns vegar færa að sauðir hafi ýmsa augljósa kosti umfram ketti; gagnstætt köttum er auðvelt að smala þeim og auk þess virðist sauðum líða vel í hjörð. Það þykir sumum vera mikill kostur í stjórnmálum þótt ekki sé ég þar á báti.
Í umræddum pistli Illuga Jökulssonar kemur fram að hann telur að flestar raunir síðustu ríkisstjórnar hafi verið runnar undan rifjum einstaklinga, sem þáverandi forsætisráðherra kallaði villiketti því ekki væri hægt að smala þeim í rétt með góðu móti. Illugi nefnir nokkra slíka pólitíska ketti á nafn, þar á meðal mig sem hann ávarpar sérstaklega. Spyr hann hvernig svona fólki líði, hvort við séum ánægð með framlag okkar til stjórnmálanna!
Illuga Jökulssyni þykir augljóslega að okkur eigi að líða illa, þessum einstaklingum, "sem tóku sín prívatsjónarmið fram yfir þau þjóðþrifamál sem ríkisstjórnin var að reyna að vinna." Engu að síður þykir honum öruggara að spyrja, og gerir hann það í fyrirsögn greinar sínnar: "Hvernig líður köttunum?" Auðvitað væri eftir öðru að við værum svo gersneydd dómgreind að sjá ekki hvílikt óþurftarfólk við værum.
Það er reyndar ekki nóg með þetta, því deilumál innan stjórnarmeirihlutans á síðasta kjörtímabili eru öll rakin til okkar og hefðum við með framferði okkar valdið því að ríkisstjórnin hlaut ekki brautargengi í síðustu alþingiskosningum.
Við erum orðin allvön skrifum af þessu tagi frá hendi hóps manna, sem reyndar er ekkert óskaplega fjölmennur, en þeim mun stærri eru orðin sem hann velur sér. Þetta er ekki nýtt í stjórnmálum. Það þekkist víða að þeir sem leyfa sér að hlíta ekki möglunarlaust skipunarvaldi flokksforystu þykja hafa unnið sér til óhelgi þótt síðar meir komi iðulega í ljós að fleiri vildu gjarnan hafa tekið sama pól í hæðina. Á Blair tímanum í Bretlandi var þannig býsnast yfir fólki sem andæfði einkaframkvæmd stjórnarinnar innan heilbrigðiskerfis og félagsþjónustu og gagnrýndi innrásina í Írak. Einn slíkur maður heitir Jeremy Corbyn og var nýlega kosinn af grasrót Verkamannaflokksins til forystu í óþökk þingflokks og nánast alls stofnanaveldis flokksins.
Hér á landi voru uppi nokkur hörð deilumál á síðasta kjörtímabili. Þar var um að ræða aðildarumsókn að Evrópusambandinu sem sumir "villikatta" höfðu alla tíð andæft og vísuðu í flokkssamþykktir þar að lútandi, en aðrir höfðu viljað hraða ferlinu sem mest mátti og ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok kjörtímabils á grundvelli þeirra forsendna sem þá lægju fyrir. Fyrir hinu síðara sjónarmiði talaði ég opinberlega. Um þetta var vissulega deilt.
Stærsta deilumálið var þó án efa Icesave. Þar sagði ég af mér ráðherraembætti til að forða ríkisstjórninni falli því hvorki vildi ég fella ríkisstjórnina né samþykkja óséðan samninginn og þeim mun síður eftir að ég hafði séð hann og skilið. Það má til sanns vegar færa að Icesave hefði ekki farið á þann veg sem það fór, hefði ekki verið til að að dreifa andstöðu innan VG. Þetta er að sjálfsögðu blákaldur veruleikinn.
Þýðir það þá að um skemmdarverk af hálfu okkar hafi verið að ræða, prívatsjónarmið þvert á knýjandi þjóðþrifamál?
Landsdómsmálið var líka stórt tilfinningaþrungið deilumál þar sem ég gerði rækilega grein fyrir afstöðu minni og þá einnig þegar hún breyttist. Nú um síðir stíga fleiri fram sama sinnis.
Það var líka hart deilt innan ríkisstjórnarinnar um hvort bæri að veita kínverskum auðkýfingi undanþágu til að kaupa drjúgan hluta af Norð-austurlandi. Hefði verið farið að vilja forsætisráðherrans og fleiri, hefði Núbó verið heimilað að kaupa Grímsstaði á Fjöllum.
Það var líka deilt opinberlega um einkaframkvæmd og það var deilt um það þegar Vaðlaheiðargöng voru tekin út úr samgöngunguáætlun gegn vilja þáverandi samgönguráðherra, sem var undirritaður.
Það voru líka "villikettir" sem vöruðu við því að niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu væri orðinn hættulega mikill. Þau varnaðarorð reyndust því miður vera rétt og andæfir því enginn nú.
Og gæti það verið að þrýstingur í umhverfismálum úr þessari átt hafi reynst til góðs frá sjónarhóli móður náttúru? Það var ekki alltaf friður um þau mál á heimili stjórnarmeirihlutans.
Ef til vill hefur Illugi Jökulsson eitthvað allt annað í huga en þessar deilur. Þetta voru þó fyrirferðarmestu deilurnar og svo stjórnarskrármálið alveg undir blálokin. Varla á hann við ósætti sem aldrei fór þó mjög hátt, til dæmis þegar meirihluti Alþingis breytti frumvarpi innanríkisráðherrans um sveitarfélög og dró úr rétti fólks til að efna til almennrar atkvæðagreiðslu um einstök mál. Átti einhver að verða reiður þá, eða átti, eins og eðlilegt hefði verið í öðrum deilumálum líka, einfaldlega að taka lýðræðislega fenginni niðurstöðu Alþingis?
Margar spurningar vakna, t.d. hvaða þjóðþrifamál það hafi verið sem Illugi Jökulsson segir að óþurftarfólkið hafi stöðvað eða fólst eyðileggingin í þeim tíma sem fór í deilur um Icesave, einkaframkvæmd og Vaðlaheiðargöng?
Mér finnst Illugi Jökulsson skulda því fólki sem hann nánast kallar þjóðníðinga, skýringar á orðum sínum. Hann spyr um líðan mína og samherja minna. Ég held að okkur líði svipað og öðru fólki sem reynt hefur að koma fram samkvæmt bestu samvisku í því augnamiði að vinna í þágu almannahags. Þá er svarið til hans líkast til þetta: Eftir atvikum líður okkur bærilega vel lllugi góður.
Sjá jafnframt slóð: http://stundin.is/pistill/illuga-svarad-lidan-eftir-atvikum-god/