Fara í efni

INDEFENCE: GLEYMDA AFMÆLISBARNIÐ

MBL  - Logo
MBL - Logo
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 13/14.10.18.
Tíu ár eru frá því að ríkisstjórn Bretlands sendi út opinbera yfirlýsingu þess efnis að Íslendingar væru hryðjuverkaþjóð og vorum við þar með, í London alla vega, komin undir sama hatt og Al Kaeda og Norður-Kórea.

Breska stjórnin þurfti nefnilega lagalega syllu til að standa á í viðureign sinni við íslenska banka að ógleymdum íslenskum skattgreiðendum. Og eins og við vitum þá er allt leyfilegt í stríði við hryðjuverkamenn.

Ekki var lítið í húfi. Bretar höfðu umvafið breska viðskiptavini gylliboðabankans Icesave og ætluðust nú til þess að islenskir skattgreiðendur borguðu breskum yfirvöldum fyrir umstangið og þá einnig himinháa vexti því ekki þótti nægja að viðskiptavinum Icesave yrði greitt í topp heldur ætlaði breska ríkið líka að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Gömul nýlenduríki kunna á þjóðir í þrengingum.

Breska stjórnin var borubrött enda höfðu þeir Brown og Darling allt lögregluveldi kapítalismans á sinni sveif. AGS stýrði þumalskrúfunum og ESB minnti á alvöru málsins með lágraddaðri bakraddasveit. Við heyrðum hummið alla leið til Íslands frá stjórnarfundum AGS í Washington. Meira að segja Norðurlöndin, að undanskildum Færeyingum sællar minningar, tóku þátt í ofbeldinu.

En í hverju skyldi alvara málsins hafa verið fólgin? Svarið er einfalt. Þegar kapítalisminn kemst í illleysanleg vandræði með fjármálakerfi sitt þá skal almenningur látinn blæða. Nú síðast fengu Grikkir að borga þýskum og frönskum bankabröskurum með afsali á náttúrperlum sínum. Í okkar tilviki ætluðst Bretar og Hollendingar til þess að Alþingi, löggjafarstofnun þjóðarinnar, sæi til þess að samningur yrði lögfestur um skuldbindingar íslenskra skattborgara til að standa straum af herkostnaðinum við Icesave. Og þegar til stóð að samþykkja þetta í ágúst 2009 með þeim fyrirvara að Íslendingar færu ekki í gjaldþrot fyrir vikið, þá var því hafnað af gömlu nýlenduveldunum tveimur. Var nú gerð önnur tilraun en niðurstaðan af henni fór í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem 98% þjóðarinnar sagði nei.

Þetta er í rauninni hið sögulegasta við hrunið. Og það vissu eftirlitsmenn kapítalismans. Það má nefnilega aldrei leyfa almenningi að greiða atkvæði um tvennt: milliríkjasamninga og peningamál. Almenningur á að halda sig við flugvelli og hundahald. Meira að segja samkvæmt tillögum Stjórnlagaráðs  gæti þjóðin ekki krafist atkvæðagreiðslu um Icesave!

En almenningur gerði engu að síður kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Og hvers vegna skyldi það hafa verið? Nú erum við farin að nálgast gleymda afmælisbarnið, InDefence hópinn sem svo kallaði sig. Það var hann sem setti fram kröfuna um aðkomu þjóðarinnar. Indfencehópurinn, sem samanstóð af tugum einstaklinga í upphafi og að sjálfsögði kjarnavinnuhópi, reiddi fram upplýsingar eins og þær gerast bestar, reyndi með skipulegum hætti að nálgast bresku þjóðina, ekki bara stjórnvöldin, og spurði: Eigum við, fólkið, ekki að standa saman? Áttatíu og sex þúsund manns undirrituðu þá beiðni.

Í farabroddi stóðu Agnar Helgason, mannfræðingur, Davíð Blöndal, eðlisfræðíngur, Ólafur Elíasson, píanóleikari, Eiríkur Svavarsson, hæstaréttarlögmaður, Ragnar Ólafsson, félagssálfræðingur, Torfi Ólafsson. verkfræðingur, Sigurður Hannesson, stærðfræðingur, Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur, Jóhannes Þór Skúlason, kennari og sagnfræðingur, Helgi Áss Grétarsson, lögfræðingur, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, stjórnmálamaður, og á þeim tíma afgerandi í umræðu um skipulagsmál ... og fleiri og fleiri. Þetta var þverpólitískur hópur fræðimanna, listamanna, einstaklingar úr ýmsum geirum þjóðfélagsins. Og aftur efndi InDefence til undirskriftasöfnunar, nú til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-skuldbindingarnar. Sú undirskriftasöfnun gerði forseta lýðveldisins mögulegt að skjóta málinu til þjóðarinnar.

Þetta var afrek.

Margt hefur verið sagt um hrunið og er þó enn margt ósagt. Allt á sinn tíma.

En þetta er vitað og augljóst: afrek InDefence.

Látum InDefence, gleymda afmælisbarnið, njóta sannmælis í söguminni þjóðarinnar.