INGIBJARGAR BJÖRNSDÓTTUR MINNST
Í dag fór fram í Dómkirkjunni í Reykjavík útför Ingibjargar Björnsdóttur frænku minnar. Fjöldi minningargreina biritst um Ingbjörgu í Morgunblaðinu í dag frá fjölskyldu hennar og samferðafólki og séra Hjálmar Jónsson flutti falleg minningarorð í kirkjunni. Eftirmælin báru öll vott um væntumþykju og eftirsjá og þótti mér þau vera góður spegill á mikla mannkostamanneskju.
Frá 17.júlí árið 1998 hefur myndin hér að ofan staðið á litlu myndaborði á heimili mínu. Þess vegna er hún orðin svolítið upplituð af sólarljósinu sem á hana hefur skinið í tæpan aldarfjórðung.
Þann dag varð ég fimmtugur og færði frænka mín mér þá þessa mynd. Undir henni stendur, ritari fjármálaráðherra og formaður BSRB á góðri stund. Það voru starfsheiti okkar á þeim tíma.
Eftirfarandi eru minningaroð mín í Morgunblðinu í dag:
Ingibjörg Björnsdóttir lést á afmælisdaginn sinn í faðmi fjölskyldu sinnar. Það var við hæfi því í hennar faðmi átti allt hennar fólk ætíð athvarf. Þannig mun það hafa verið svo lengi sem hver og einn hafði minni til.
Og við börn Guðrúnar og Jónasar B. föðurbróður hennar vorum hennar fólk. Sú var okkar tilfinning. Hún hafði passað okkur á unga aldri, eins konar stóra systir og á lífsleiðinni áttum við margar gefandi stundir í návist hennar. Alltaf stafaði frá henni hlýju. Það er ekki öllum gefið að vera sá sem allir reiða sig á, öllu heldur saman, sjálft límið. Þanning var Ingibjörg frænka okkar. Öllum leið vel í návist hennar.
Þetta átti ekki aðeins við um heimilið heldur einnig vinnustaðinn. Á yngri árum starfaði Ingibjörg um skeið á fræðsluskrifstofu Reykjavíkur þar sem faðir okkar var verkstjórinn. Hann hefði verið ákveðinn stjórnandi, ekki síst gagnvart sér, sagði hún okkur, en alltaf af væntumþykju og umhyggju. Hún sagði að hann hefði viljað að frænka sín yrði afbragð allra annarra.
Það varð hún svo sannarlega af sínum verðleikum. Um árabil var Ingibjörg lykilmanneskja á skrifstofu fjármálaráðherra. Það held ég að hafi verið nákvæm starfslýsing. Það heyrði ég frá fleiri en einum fjármálaráðherra.
Í æsku komum við systkinin, Jón Torfi, Ingibjörg og Björn oft á Mánagötuna til foreldra Ingibjargar, þeirra Björns L. Jónssonar og Halldóru Guðmundsdóttur og síðar á heimili þeirra við Rauðalæk. Mikill vinskapur var með þeim hjónum og foreldrum okkar. Sá vinskapur hefur aldrei slokknað.
Við kveðjum Ingibjörgu Björnsdóttur með miklum söknuði og færum hennar stóru fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Sjá einnig hér: https://www.mannlif.is/frettir/ingibjorg-ritari-fjarmalaradherra-lest-a-afmaelisdegi-sinum-vid-munum-alltaf-sakna-thin/