Fara í efni

INGIMUNDUR Í SLÆMUM FÉLAGSSKAP?

Ingimundur Sigurpálsson er dagfarsprúður maður og á meðan hann gegndi stöðu sveitarstjóra og sat í stjórn Lífeyrissóðs starfsmanna ríkisins urðu menn þess ekki varir að hann hefði horn í síðu opinberra starfsmanna. Á stjórnarfundum í lífeyrissjóðnum var hann málefnalegur, alla jafna tillögugóður og vildi lífeyriskerfinu hið allra besta. Um þetta get ég sjálfur borið vitni því við vorum samtíða í stjórninni.

Efir að Ingimundur gerðist formaður Samtaka atvinnulífsins virðist einhver viðsnúningur hafa átt sér stað innra með honum. Nú sér hann, ef dæma skal af yfirlýsingum hans á nýafstaðinni ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga, starfsmönnum almannaþjónustunnar allt til foráttu, þeir séu ofhaldnir í launum og kjörum og viti menn einnig í lífeyrisréttindum! Beindi hann því til sveitarstjórnarmanna að nú væri lag að samræma kjörin á öllum vinnumarkaðnum. Hvernig skyldi það nú framkvæmt? Formúla formanns SA er að jafna beri kjörin. Ekkert er nema gott um það að segja ef ekki væri fyrir þá sök að Ingimundur vill ekki jafna kjörin upp á við, heldur aðeins niður!

Það er ömurlegt að þurfa að hlusta á talsmann hálaunahópanna í þjóðfélaginu traktera láglauna- og militekjuhópa með þessum hætti. Eflaust verður Ingimundur Sigurpálsson krafinn nánari útlistunar á þessum furðulegu yfirlýsingum í fjölmiðlum. Við sem þekktum fyrri útgáfuna af Ingimundi, hljótum hins vegar að að spyrja hvað valdið hafi þessum viðsnúningi. Gæti það verið vafasamur félagsskapur í Samtökum atvinnulífsins?