Fara í efni

INNIHALDIÐ Í LAGI

Fyrir ekki svo ýkja löngu vöktu mikla athygli hugmyndir, reifaðar í sjónvarpi og blöðum, um nýja nálgun á skipulagsmál í Reykjavík og bæjum og borgum almennt. Sá sem kom þannig með ferska vinda inn í umræðuna um skipulagsmál hafði aflað sér þekkingar á stað sem ekki var af verri endanunum, Oxford á Englandi.
Nú bregður svo við að tiltekinn fjölmiðill, Fréttatíminn, leggur sig í líma við að sanna að þetta hafi ekkert verið sérstaklega góðar hugmyndir þegar allt kemur til alls, þekking flytjandans hafi verið marklaus, því vafi leiki á prófgráðum að námi loknu og þar með menntun viðkomandi einstaklings: Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins.
Allrar útskýringar Sigmundar Davíðs eru blásnar út af borðinu á sama tíma og grafið er undan orðspori hins unga stjórnmálaforingja - bæði á skrifstofum Oxfordháskóla með sífelldu naggi þar og frammi fyrir íslenskum kjósendum. Það mikið þekki ég til framhaldsnáms að ég veit að jafnvel algengara er en hitt að á langinn dragist að skila endanlegum ritgerðum í framhaldsnámi. Það breytir engu um raunverulega menntun þeirra sem í hlut eiga eins og Sigmundur Davíð sannaði svo rækilega með framlagi sínu til umræðunnar á sínum tíma.
Menntun er nefnilega ekki sama og prófgráða. Í mínum huga er meira um vert að innihaldið sé í lagi en umbúðirnar. Það er dapurlegt hve margir með ágætar  prófgráður upp á vasann koma aldrei neinu á framfæri við sína samtíð - ná aldrei að nýta það sem þeir hafa lært - og kannski lærðu þeir aldrei neitt sérstaklega mikið þrátt fyrir gráðurnar. En á þeim hefur framangreindur fjölmiðill engan áhuga enda ekki um að ræða stjórnmálamenn á pólitískum dauðalista.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mun hins vegar hrista þetta allt af sér eins og yfirleitt gerist sem betur fer þegar innihaldið er í lagi.