Fara í efni

INNLEGG Í UMRÆÐUNA Á FLOKKSRÁÐSFUNDI VG


Á þessum fundi hefur nokkuð verið talað um flokkadrætti innan okkar hreyfingar. Talað hefur verið um klíkur og niðurrif. Það eina sem á skorti var að heimfæra niðurrifið á nöfn og kennitölur. Það gerði þó Ámundi Loftsson þegar hann tók upp hanskann fyrir sjálfan sig, mig og fleiri. Hafi hann þökk fyrir. Ámundi gerði reyndar meira. Hann heimfærði ágreininginn upp á málefni. Það er gagnlegt. Ásakanir um að einstakir þingmenn hafi komið fram með ágreining - einhvern ágreining, bara ágreining yfirleitt -  í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, korteri fyrir kosningar einsog nokkrir ræðumenn orðuðu það  - verður skiljanlegur á annan hátt þegar í ljós kemur að málefnið sem um var deilt var sala á þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins í hendur áhættufjárfesta og þar með ráðstöfunarrétt yfir orkulindum Reykjaness í eitt hundrað og þrjátíu ár; að þetta var að gerast einmitt þá - korteri fyrir kosningar - og menn vildu að ríkisstjórn með aðild Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs brygðist ekki í málinu en einmitt það þótti umræddum gagnrýnendum vera að gerast. Að sjálfsögðu átti að ræða þetta. Það hygg ég auk þess að mörgu stuðningsfólki VG hafi þótt gott. Meira að segja lífsnauðsynlegt!

Þegar ásakanar um niðurrif eru settar í slíkt málefnalegt samhengi breytist margt. Eins með Icesave. Kristín Helgadóttir spurði hér á fundinum hvernig stæði á því að ég gegndi ekki stöðu heilbrigðsráðherra einsog ég gerði í upphafi kjörtímabils. Svarið er ágreiningur um Icesave. Ég  gat ekki sætt mig við að fara að vilja forsætisráðherra og fjármálaráðherra í því máli - gagnrýndi vinnubrögð og niðurstöður. Ég var vissulega beðinn um að sitja áfram en að því tilskildu að ég færi að þeirra vilja - ella spryngi ríkisstjórnin. Ekki vildi ég verða til þess og sagði af mér. Ég hef alla tíð sagt að mér hafi verið það á móti skapi. Meirihluti þingflokks hefur síðan neitað að gera á þessu breytingar jafnvel þótt í ljós hafi komið að gagnrýni mín átti við rök að styðjast - var með öðrum orðum rétt. Flokkur sem segist virða mismunandi sjónarmið og sannfæringu verður að gera það í alvöru,  ekki bara í orði - líka á borði. Það hefur því miður sannast í þessu máli að það gerir okkar flokkur ekki.

Aftur að flokkadráttum annars vegar og samstöðu hins vegar. Ég er maður samstöðunnar og er meinilla við flokkadrætti. Leiðin til að forðast þá er að beina tali um samstöðu að málefnum en ekki einstaklingum og hópum. Þá verður allur ágreiningur bærilegri. Hann verður skiljanlegur og þess vegna uppbyggilegur. Íslendingar hafa aldrei þurft eins mikið á því að halda og nú að standa saman, í vörn fyrir velferðarkerfið, fyrir þá sem lakar standa, fyrir auðlindirnar til sjávarins og í fallvötnum,  jarðvarma og vatninu. Nú þegar þrengir að þurfum við sem aldrei fyrr að sýna samstöðu um einmitt þetta. Fjármagn innlent og erlent sækir að okkur. Það má enginn velkjast í vafa um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er hér fyrst og fremst til að gæta að því að fjármagnskerfinu sé ekki ógnað. Það er staðreynd  að öll stefnumótun stjórnvalda er orðin gegnsýrð af áhrifum frá AGS. Ekki bara stefnan - heldur er sjálf útfærslan á einstökum stjórnarfrumvörpum rækilega yfirfarin af honum.

Á vissan hátt má líta á stöðu okkar sem þjóðar í stríði. AGS er hér á landi vegna utanaðkomandi þvingana. Það vita allir og eiga að viðurkenna. Við viljum öll losna við AGS sem fyrst. Það hefur marg oft verið sagt. En þar til það gerist verður að hafa virkt og vakandi eftirlit með samskiptum við AGS. Það gerist aðeins með opinni umræðu, meðvitaðri og gagnsærri. Það má aldrei henda aftur einsog gerðist nú í vor að skrifað var upp á framlengingu og nýjar skuldbindingar við AGS án þess að þingið fengi að sjá þær, án þess að ríkisstjórnin fengi að sjá þær! Og hún lét sér það lynda. Svona varð hrunið. Leynd og þöggun átti þar sinn stóra þátt. Við þurfum að horfast í augu við þetta.

Þegar tilskipanir ESB hefur borið á góma á liðnum árum á Alþingi hefur Samfylkingin þagnað - enda fráleitt að ræða um sjálf náttúrulögmálin. Þetta má ekki henda okkur gagnvart AGS  - að sjálfsögðu eigum við að standa vaktina og hafa áhrif sem framast er unnt. Forsendan er opin lýðræðisleg umræða. Þótt þögn og þegjandi samþykki gæti þýtt logn í okkar flokkstebolla þá er það ekki tilvinnandi. Okkar fley er til að sigla - ekki til að liggja í vari.

Það er hægt að hafa áhrif - líka á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn - það vil ég og það ætla ég mér að gera - í þágu okkar málstaðar. Frá honum hef ég ekki hvikað. Ég skora á þau sem hafa uppi gagnrýni á umræðu innan flokksins að þau ræða ágreininginn í ljósi málefna en ekki á grundvelli flokkadrátta. Þá mun okkur líka verða vel borgið.

Til að fá innsýn í tilefni skrifanna sjá m.a.: http://www.smugan.is/pistlar/fastir-pennar/snaeros-sindradottir/nr/3642