INNLEND ATVINNUSKÖPUN - LOFTRÝMISGÆSLA
Sæll Ögmundur.
Í tilefni af pistli þínum um öryggisráðið, Össur og drápstólin. Ég er þér sammála um viðbrögð Össurar. Það er tilbreyting að heyra í ráðamanni sem segir hug sinn!
Varðandi loftrýmisgæsluna (er þetta ekki nýyrði?) þá vil ég leggja til að við spörum gjaldeyri með því að fela Veðurstofu Íslands að sjá um loftrýmisgæsluna. Þar á bæ þurfa menn hvort eð er að líta til himins og skrá skýjafar daglega - og hafa net ábyggilegra umboðsmanna til þess um allt land. Ólíkt núverandi fyrirkomulagi yrði hér um stöðuga gæslu að ræða, a.m.k tvisvar á dag, árið um kring. Sjálfsagt væri að greiða fyrir þessa þjónustu - en ég tel jafnvel líklegt að veðurathugunarmenn væru til í að gera þetta "ganske gratis" ánægjunnar vegna.
Það fjármagn sem nú rennur til erlendra herja og hernaðarbandalaga vegna loftrýmsgæslu getur ríkissjóður nýtt til þess að hvetja til innlendrar nýsköpunar í atvinnumálum.
Ingibjörg Sólrún, þú myndir kannski upplýsa okkur um hvað þessi þjónusta kostar þjóðarbúið á nýja genginu?
Jón Þórisson