Fara í efni

INNSÆI EÐA MISMÆLI?

Þeir voru dramatískir félagarnir að baki Halldóri Ásgrímssyni, formanni Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, á hlaðinu fyrir framan ráðherrabústaðinn á Þingvöllum í gærkvöldi þegar Halldór sagði að hann myndi nú fara frá sem forsætisráðherra og innan skamms einnig sem formaður Framsóknarflokksins. Alltumlykjandi í sviðsmynd fréttamannafundarins voru (karl)menn sem greinilega áttu að sýna skjaldborg sem slegin hefði verið um Framsóknarflokkinn og fráfarandi foringja hans. Þungir á brún minntu þeir svolítið á Kreml hér forðum.
Halldór Ásgrímsson, fráfarandi forsætisráðherra, sagði á þessum fréttmannafundi að nú myndu hefjast nýjar stjórnarmyndunarviðræður og myndi hann leiða þær fyrir hönd Framsóknarflokksins.

Geir vill enga stefnubreytingu...

Á þessu vakti stjórnarandstaða athygli í fjölmiðlum sem opnaðir voru upp á gátt vegna þessara viðburða. Geir H. Haarde, tilvonandi forsætisráðherra, sagði þessa túlkun stjórnarandstöðu byggða á misskilningi. Þetta yrði sama stjórn, sama stefna. Það þyrfti því engar stjórnarmyndunarviðræður.
Nú er spurningin þessi, mismælti Halldór Ásgrímsson sig eða sýndi hann þarna pólitískt innsæi? Ég held hið síðarnefnda. Niðurlag Framsóknarflokksins í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum var ekki vegna persónu Halldórs Ásgrímssonar. Því fer fjarri. Það var vegna stefnu ríkisstjórnar undir hans forystu, álvæðingarinnar, einkavinavæðingarinnar, félagslegs misréttis sem hún hefur skapað og stefnunnar í utanríkismálum.
Ef stjórnin ætlar að eiga minnstu von í kosningum að ári verður hún að breyta algerlega um kúrs á öllum þessum sviðum. Þetta virðist Halldór skynja. Þess vegna er það rétt hjá honum að þörf er á nýjum stjórnarviðræðum.

...og missir af tækifæri

Geir H. Haarde þykir hins vegar greinilega til nokkurs vinnandi að fá að máta sig í Stjórnarráðinu þótt ekki væri nema í nokkra mánuði. En þar með er hann að missa af miklu tækifæri. Ef hann hugsar með langtímahagsmuni þjóðarinnar í huga og sennilega síns flokks einnig, ætti hann að boða  hið snarasta til alþingiskosninga og freista þess að komast aftur í Stjórnarráðið með endurskoðaðar og ferskar áherslur. Þetta væri tilraunarinnar virði fyrir hans flokk þótt líklegra sé að stjórnarandstaðan muni ná meirihluta í næstu þingkosningum og mynda ríkisstjórn. Hvað sem hins vegar hagsmunum einstakra flokka líður krefst þjóðarhagur nýrra kosninga.
Með því að boða áframhald stjórnarstefnu sem er að leiða okkur inn í vaxandi verðbólgu og vaxtahækkanir með tilheyrandi kjaraskerðingu, og sem verst bitnar á lágtekju- og meðaltekjufólki, er ríkisstjórnin að grafa sér gröf.

Innanflokksmein Framsóknar ráða kúrs á þjóðarskútu

Fólk mun skynja hve óábyrgt það er að láta kúrsinn á þjóðarskútunni ráðast af skammtímahagsmunum hvað þá innanflokksmeinum Framsóknarflokksins, sem nú þurfi ráðrúm til að byggja sig upp og treysta innviði sína!
Nú er þörf á víðtæku samráði í þjóðfélaginu þar sem að borði komi verkalýðshreyfing, atvinnurekendur og stjórnvöld til þess í sameiningu að freista þess að koma böndum á verðbólgu og skapa grundvöll fyrir nýtt uppbyggingarskeið.

Áhöfn vantar á bát

Þetta verður ekki gert án nýrra stjórnarmyndunarviðræðna eins og Halldór Ásgrímsson nefndi. Slíkar viðræður án þess að fram hafi farið alþingiskosningar eru hins vegar til lítils. Þær yrðu til þess eins að skapa skammtímalausn nú þegar þörf er á að mynda ríkisstjórn sem horfir til framtíðar.  Þótt forsætisráðherrann fráfarandi greini stöðuna rétt að því leyti að breyta þurfi um kúrs þá sér hann ekki hitt að einnig er þörf á að skipta um áhöfn. Til þess þarf kosningar. Og það hið snarasta.