INNSÝN Í HRÆGAMMAKAPÍTALISMANN OG ÁBENDINGAR ÓLÍNU
12.10.2008
Illræmdur breskur auðmaður, Philip Green er mættur til Íslands. Hann vill að íslenska ríkið selji sér veð Baugs í Bretlandi á gjafaprís. Látið er að því liggja að Brown forsætisráðherra Breta muni beita sér fyrir því að allar eigur sem rekja megi til íslensks ríkisfangs verði frystar á morgun, mánudag, ef ekki verði látið að vilja Greens. Ekki hef ég fyrir þessu óyggjandi heimildir. Svo er að skilja á Financial Times að þetta hafi þegar verið gert hvað varðar eignir Baugs, sbr http://www.visir.is/article/20081012/FRETTIR01/24988836/-1
Í lesendabréfi hér á síðunni eru ábendingar frá Ólínu sem taka verður alvarlega. Hún bendir á að auðmenn heimsins rói nú að því öllum árum að tryggja sinn hag. En hver gætir hagsmuna almennings við þessar aðstæður, spyr hún. Ég hvet alla til að lesa bréf Ólínu: https://www.ogmundur.is/is/greinar/framtid-islenskra-barna
Ég er sammála því að andvaraleysi í þessu efni er stórhættulegt. Hver dagur getur skipt sköpum. Það er fáránlegur barnaskapur í þessum heimi hrægammakapítalista að fara ekki þegar í stað í kortlagningu á eignum og flutningum á eignum landa á milli og frá einum auðmannavasa í annan. Þetta þarf að kortleggja - því hér er um að ræða eignir okkar. Hvers vegna okkar? Vegna þess að við, börnin okkar og barnabörnin VERÐUM LÁTIN BORGA FYRIR ÞÆR. Nú stendur stríðið um hvort stíla eigi allan reikninginn á okkur eða hvort erlendir áhættufjárfestar þurfi að taka sinn skell.
Brown hinn breski er ekki maður breskrar alþýðu. Hann er fyrst og fremst hagsmunagæslumaður auðmanna. Og þessa dagana sýnir hann í verki hvernig hann passar upp á sína auðmenn. Önnur slík barnapía heitir IMF, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn passar upp á auðmenn allra landa. Fulltrúar hans eru mættir til Íslands í þeim erindagjörðum. Íslenskum stjórnvöldum ber skylda til að gæta íslenskra almannahagsmuna. Ef við þurfum aðstoð erlendis frá við það verk þá skulum við óska eftir henni . Það eru sem betur fer til í heiminum aðilar sem kunna að eiga við kapítalið. Ég horfi til alþjóðlegrar verkalýðshreyfingar, ég horfi til Norðurlandanna og ég horfi til Bandaríkjanna. Þeir sem fylgst hafa með yfirheyrslum á Bandaríkjaþingi yfir þeim sem keyrt hafa kapítalismann upp á sker, vita að þeir eru ekki teknir vettlingatökum. Ekki síst ef eiginhagsmunir hafa þótt keyra úr hófi fram. Við eigum marga kandídata í slíka rannsókn.
Ekki veit ég hvort hann Philip Green hefur komið áður til Ísands. En á þessa síðu hefur hann komið áður, sbr. https://www.ogmundur.is/is/greinar/audmanna-andaktin-og-hin-hlidin