INNSÝN Í RANGLÁTT KVÓTAKERFI
Aðalsteinn Baldurssson, formaður Matvælasviðs Starfsgreinasambandsins, hefur gengið fram fyrir skjöldu og krafist raunverulegra mótvægisaðgerða til varnar fiskvinnslufólki sem nú missir unnvörpum atvinnu sína vegna samdráttar í fiskvinnslunni. Hundruð einstaklinga hafa þegar misst vinnuna eða munu gera það á næstunni um lengri eða skemmri tíma. Ríkisstjórnin situr á áhorfendabekk og horfir sljóum augum á framvinduna.
Í haust var hætt að reyna að sporna gegn útflutningi á óunnum fiski en fram til 1. september var slíkur fiskur látinn vega þyngra í kvótaútreikningum en sá fiskur sem fór á innlendan markað. Við þessa breytingu var því heitið að hugað yrði að öðrum mótvægisaðgerðum. VG lagði þá til að allur óunninn fiskur færi á markað til að tryggja að innlendir framleiðendur ættu kost á að bjóða í hann. Á þetta hefur ekki verið hlustað og þær mjög svo auglýstu „mótvægisaðgerðir" svokölluðu hafa ekki komið fiskvinnslufólki til góða.
Atburðir síðustu daga hafa enn einu sinni fært okkur heim sanninn um hvar völdin liggja í sjávarbyggðunum. Þau liggja hjá handhöfum kvótans. Á þeirra valdi eru örlög sjómanna, fiskvinnslufólks og einnig heilla byggðarlaga. Allir vita að sjávarútvegsfyrirtækin, hvort sem er í útgerð eða fiskvinnslu eru mörg hver verulega skuldsett og þar með veðsett. Hvað þýðir það? Það þýðir að ef að þeim þrengist getur það auðveldlega gerst að kvótinn komist allur á hendur banka og fjármálastofnana. Handhafar kvótans hafa því miður alltof margir, frá tilurð kvótakerfisins með framsali og tilheyrandi braski sem einkennt hefur kerfið, ekki sýnt ábyrgð gagnvart sínu samfélagi. Frekari tilfærsla á kvótanum í hendur fjármálaafla - í hendur þeirra sem hvergi hafa nálægt sjávarútvegi komið - verður ekki til þess að efla samfélagslega ábyrgðarkennd þar sem sjávarauðlindin er annars vegar.Group.is hefur ekki reynst ávísun á ábyrgð og réttlæti.