ÍSLAND HAFT AÐ FÉÞÚFU
Fréttir sem nú berast úr fjármálalífinu hljóta að vekja þjóðina til umhugsunar um hvert stefnir í íslensku efnahagslífi. Vextir eru, sem kunnugt er, mjög háir hér á landi. Bankarnir sem státa af milljarða hagnaði sjá sér ekki fært að lækka vexti og þjónustugjöld. Munurinn á milli vaxtakjara á Íslandi og í viðskiptalöndum okkar er margfaldur. Þannig eru stýrivextir hér á landi 9,5% en rúmlega 2% í Evrulöndum sem nemur meira en 7% vaxtamun. Þetta þýðir að fjármálamenn – erlendir og innlendir – taka peninga að láni þar sem vextir eru lágir og flytja þá til Íslands þar sem vextir eru háir. Íslensk heimili og íslenskt atvinnulíf er þannig haft að féþúfu.
Þetta er í sjálfu sér ekki nýtt því á undanförnum misserum hefur verið dælt gífurlegu fjármagni erlendis frá inn í íslenskt efnahagskerfi. Það sem er nýtt er að fréttir berast nú af því að erlend verðbréfafyrirtæki eru farin að gefa út skuldabréf í íslenskum krónum. Um er að ræða 12 milljarða á aðeins örfáum dögum. Fjármálafyrirtækin gefa skuldabréfin út með sjálfstæðum hætti og kaupendurnir eru erlendir.
Um þetta segir Greiningardeild KB banka: " Það sem rekur viðskiptin áfram eru hinir háu vextir sem eru til staðar hérlendis sem virðast vega á móti þeirri gengisáhættu sem hinir erlendu aðilar eru að taka með viðskiptum sínum. Þetta er því klassísk högnunarviðskipti eða spákaupmennska með gjaldeyri sem hefur styrkt gengi krónunnar á síðustu dögum."
Hvað þýðir svo aftur styrking krónunnar? Hún þýðir að innfluttur varningur verður ódýrari og þannig kjarabót þótt mikil áhöld séu um að innflytjendur hafi skilað allri þeirri kjarabót til neytenda. En styrking krónunnar þýðir líka að afurðir okkar, á borð við fiskinn, verða dýrari á mörkuðum erlendis. Það segir sig sjálft að þarna þarf að ríkja ákveðið jafnvægi. Verði afurðirnar of dýrar seljast þær ekki lengur og undan íslenskum framleiðsluatvinnuvegum molnar. Sama gildir um ferðaþjónustu og fiskinn. Í síðasta fréttabréfi Samtaka ferðaþjónustunnar segir: " Það er ljóst að hátt gengi íslensku krónunnar ... hefur áhrif á þann afturkipp sem orðið hefur á erlendum ferðamönnum hingað til lands það sem af er þessu ári. Stjórnendur í ferðaþjónustu og söluaðilar erlendis hafa þó meiri áhyggjur af næsta ári en margt þeirra ferðamanna sem hingað hafa komið í ár keyptu ferðir sínar á föstu verði á síðasta ári af ferðaskrifstofum sem sitja uppi með gengistapið."
Forsvarsmenn fiskvinnslunnar hafa áhyggjur af þessari þróun og einsog hér kemur fram einnig forsvarsmenn ferðaþjónustunnar. Það á hins vegar ekki við um ríkisstjórnina. Hún segir allt í himnalagi og það þrátt fyrir að stefni í að viðskiptahalli verði 12 – 15 % á árinu, í júlímánuði einum nam hann 10 milljörðum!
Peningum er með öðrum orðum dælt inn í landið. Fólk er hvatt til að taka lán og "neyta" sem aldrei fyrr og bæta þar með í viðskiptahallann. Gengi krónunnar verður óraunhæf mæling á íslenskum framleiðsluatvinnuvegum. En í fréttum baðar viðskiptaráðherra sig í milljarðagróða banka.
sjá nánar: http://www.kbbanki.is/?PageId=874&NewsID=9418