ÍSLAND HERVÆÐIST EN MARGIR KOMA AF FJÖLLUM
Fylgispekt Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra, við NATÓ og hervæðingu Vesturheims að boði Bandaríkjanna, virðist vera að ná nýjum hæðum. Var þó hátt flogið áður.
Í Silfri Sjónvarpsins í vikubyrjun lýsti ráðherrann áhyggjum yfir því að Íslendingar áttuðu sig ekki „nógu hratt“ á því sem væri „að gerast í kringum okkur.“ Við yrðum „að gera hluti sem allir aðrir eru að gera!“ Og hvað skyldi það vera sem allir aðrir eru að gera? Jú, ganga í takt „við verðum að ganga í takt,“ sagði utanríkisráðherra Íslands í sjónvarpsþættinum.
Valur Ingimundarson, prófessor, sem einnig var í Silfrinu, hélt ró sinni í þessum sama sjónvarpsþætti en aðrir sem rætt var við í fréttatímum og fréttaþáttum þetta kvöld voru í miklu uppnámi eftir nýjustu skýrslugjöf frá utanríkisráðuneytinu um hernaðaruppbyggingu Bandaríkjamanna á Suðurnesjum bæði þá sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og það sem enn væri framundan. https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Utanrikisraduneytid/PDF-skjol/Samantekt%20um%20varnarm%c3%a1l_WEB.pdf Ekki síst virtist fréttamönnum brugðið – sem kæmu þeir af fjöllum eins og reyndar sumir aðrir gera á þessum tíma árs.
Fram kom hjá öðrum háskólaprófessor, Guðmundi Hálfdanarsyni, þeim ágæta fræðimanni, að tugmilljarða hernaðaruppbyggingin á Suðurnesjum væri tímabundinn viðbúnaður BNA hér á landi vegna Úkraínustríðsins, nokkuð sem ég tel ekki vera rétt mat, reyndar af og frá. Þessi hervæðing er einfaldlega í fullkomnu samræmi við hernaðaruppbyggingu Bandaríkjanna og fylgifiska þeirra í NATÓ um heim allan. Hernaðurinn í Úkraínu verður ekki aðskilinn umræðu um auðlindir, olíu, gas, og önnur verðmæt jarðefni fremur en að hernaður í Miðausturlöndum verði skiljanlegur án þess að vera settur í samhengi við auðlindir, olíuleiðslur auk hernaðarítaka og þar með yfirráð yfir fólki og landi. Nýlendustefnan hvarf aldrei, fór bara í ný föt.
Stríðsæsingar um allan heim
Fyrir nokkrum vikum hittI ég stjórnmálakonu frá Filippseyjum og spurði ég hana út í ástandið þar í landi. Hún sagði að helsta áhyggjuefnið væri stóraukin ágengni Bandaríkjamanna með miklu vopnaglamri. Hún hefði sínar efasemdir gagnvart Kína, en nú væru Bandaríkjamenn mættir með fjölgun herstöðva á Filippseyjum og allar væru þær með Kína í sigti. Bandaríkjamenn væru þar með, sagði hún, að stilla Filippseyjum upp sem framverði á hugsanlegri víglínu og gera þær að skotmarki kæmi til ófriðar á milli Kína og BNA. Bandaríkjamenn væru með svipaða útþenslu hernaðarumsvifa víða á Kyrrahafssvæðinu.
Ég sagði henni að nákvæmlega þetta væri að gerast á Norðurlöndum. Þar létu menn umyrðalaust gera sig að víglínufóðri bandaríska heimsveldisins. Allir að verja „vestræn gildi“ þótt öllum mætti vera ljóst að slagurinn stæði um auðlindir og yfirráð alþjóðaauðvaldsins í heiminum. Eflaust mætti kalla það svo að gripdeildir Vesturlanda um heiminn allan byggðust á einhvers konar gildum. En þau gildi hefðu þá að sjálfsögðu neikvæð formerki en ekki jákvæð. Sorglegt væri að sjá andvaraleysið á Norðurlöndum og hve langt þau létu vopnaiðnaðinn teyma sig. Sennilega hefði Jens Stoltenberg þáverandi framkvæmdastjóri NATÓ slegið einhvers konar met í undirgefni og þrælslund í ræðu sem hann flutti í Washington í upphafi árs, sbr.: https://www.ogmundur.is/is/greinar/norskur-krati-bugtar-sig-i-washington
Forviða fréttamenn
En aftur að undrun fréttamanna, að ógleymdri undrun margra stjórnmálamanna yfir nýuppgötvuðum hernaðarumsvifum Bandaríkjamanna á Íslandi. Margir þeirra sem ættu að vita betur spyrja nú hvernig á því standi að hernaðaruppbygging í Keflavík skuli hafa átt sér stað nánast umræðulaust á Alþingi og án þess að eftir því væri tekið í þjóðfélaginu.
En þá skal spurt á móti hvað þetta segi okkur um stjórnmálin og fjölmiðlaumfjöllun á Íslandi. Því allt hefur þetta gerst fyrir opnum tjöldum og með stuðningi stjórnamálamanna úr öllum flokkum á þingi og andvaraleysi sömu fjölmiðlamanna og nú standa á öndinni.
Ákall um að gleyma ekki erindi sinu í stjórnmálum
Ekki get ég fallist á það að engin gagnrýni hafi komið fram á hervæðingu Íslands og þjónkun við BNA og NATÓ og gæti ég nefnt fjölda dæma umfram það sem beinlínis hefur verið í fréttum og stundum með talsverðri prentsvertu á síðum blaða. Á vefmiðlinum Neistum hefur birst fjöldi gagnrýninna greina og af eigin skrifum nefni ég nánast af handahófi skrif frá 27. júlí 2019 þar sem sett er fram ákall til Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um koma í veg fyrir að bandaríski herinn sneri aftur til Íslands. Slíkri gagnrýni var mætt með staðhæfingum um að allt væri þetta öðrum að kenna, VG fengi ekki við neitt við ráðið.
Allt ákveðið af öðrum: https://www.ogmundur.is/is/greinar/ja-en-amma
Ákall til VG: https://www.ogmundur.is/is/greinar/vg-getur-ekki-leyft-ser-ad-leyfa-hernum-ad-snua-til-baka
Nánast eintóna Alþingi
Fljótlega breyttist tónninn hjá VG á Alþingi og varð þingið nú allt nánast eintóna í afstöðu sinni til NATÓ og hernaðaruppbyggingar á Suðurnesjum. Það var helst úr munni Steinunnar Þóru Árnadóttur þingmanns VG sem vænta mátti að heyra gagnrýnin viðhorf á þessa þróun. Ekki bætti úr skák þegar talsmenn Íslands fóru að stilla sér upp með þeim sem síst töluðu fyrir friði í Úkraínu, hvöttu til stækkunar NATÓ og vildu fyrir alla muni að Úkraína kæmist í klúbbinn þegar í stað þótt öllum sem fylgdust með gangi mála væri ljóst að forsenda skjótra friðarsamninga væri hið gagnstæða, vopnin kvödd og útþensla NATÓ stöðvuð.
Í júli 2020 sló Morgunblaðið því upp á forsíðu (sbr. mynd ) að í hönd færu milljarða framkvæmdir á vegum hersins í Keflavík. Nú var hætt að segja að þetta væri öðrum að kenna enda urðu kærleikar á NATÓ fundum nú öllum sýnilegir og þótti greinilega upphefð af. Styrmir Gunnarsson fyrrum Morgunblaðsritstjóri skrifaði með mikilli velþóknun á þjóðhátíðardaginn, 17. Júlí 2021 að nú væri svo komið að ekki þætti lengur tiltökumál að formaður VG sæti leiðtogafundi NATÓ og væri það heldur betur fráhvarf frá því sem áður var.
Ekki var þetta þó óumdeilt og aftur var mótmælt í ljósvakafjölmiðlum og skrifaðar greinar og pistlar:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/hernadaruppbyggingin-i-keflavik-er-fyrir-hann
https://www.ogmundur.is/is/greinar/norraen-rettlaetiskennd-tekur-breytingum
https://www.ogmundur.is/is/greinar/vilja-nota-thyfid-til-ad-drepa-russa
https://www.ogmundur.is/is/greinar/banvaen-ord-og-ekki-saklaus
Í bók minni Rauða þræðinum (Bókútgáfan Sæmundur 2022, bls, 490-491) vek ég athygli á skrifum Björns Bjarnasonar, eins ákafasta Nató-sinna Íslands frá 28. ágúst 2021 þar sem hann segir m.a.: „Ekki er lengur agnúast út í veru bandarískra hermanna í landinu. Þeir koma og fara, eru fylgdarlið flugvéla af ólíkum gerðum. Í upphafi vikunnar komu hingað til dæmis þrjár flugvélar bandaríska flughersins af gerðinni Northrop B-2 Spirit til tímabundinnar dvalar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og taka 200 liðsmenn flughersins þátt í verkefninu. Þetta eru fullkomnustu sprengjuflugvélar heims og torséðar í ratsjám.“
Á sama stað í Rauða þræðinum er að sjá mynd af B-2 vél á Keflavíkurflugvelli með þessari skýringu: „B-2 sprengju þotur eru sérstaklega hannaðar fyrir kjarnorkuárásir og geta borið 16 kjarnorku sprengjur. Þessa mynd frá bandaríska flughernum birti visir. is 12. september 2021 af B-2 sprengjuvél á Keflavíkurflugvelli undir yfirskriftinni: „Keflavíkurflugvöllur skilgreindur sem framvarðarstöð B-2 til sprengju árása.““
Hið umhugsunarverða er að þessi skrif eru frá því í ágúst og september 2021, aðeins fáeinum dögum fyrir Alþingiskosningarnar sem fram fóru 25. september. Ekki man ég til þess að viðvera kjarnorkuárásarflugvéla í Keflavík hafi hreyft við nokkrum manni, hvorki á meginstraums fjölmiðlum né í framboði!
Ísland úr NATÓ herinn burt
Hernaðarandstæðingar eru þó ekki dauðir úr öllum æðum og birtist kærkomin auglýsing frá samtökunum í mars 2024 með 75 undirskriftum, eitt fyrir hvert ár sem liðið er frá því að Ísland var skráð í NATÓ að þjóðinni forspurðri. Nú þarf að fjölga þessum undirskriftum – helst tífalt á hverju ári – þar til við höfum stigið út úr þessum siðlausu glæpasamtökum.
https://www.ogmundur.is/is/greinar/samtok-hernadarandstaedinga-alykta
https://www.ogmundur.is/is/greinasafn/2024/3/1
https://www.ogmundur.is/is/greinar/nato-vid-rauda-bordid
https://www.ogmundur.is/is/greinar/sagnfraedingar-tala-um-nato-og-30-mars-1949
https://www.ogmundur.is/is/greinar/hernadarhyggja-leidd-til-ondvegis-og-thordis-baetir-i
https://www.ogmundur.is/is/greinar/osammala-katrinu
Hvað er til ráða?
Hvers vegna var þögn um hervæðingu Íslands? Eins og hér hefur verið rakið var þögnin ekki alger - fjarri því. En á þingi má heita að svo hafi verið. Og þá má spyrja hvers vegna þögn á Alþingi? Almennt er það að segja um þögnina að hún verður að veruleika ef menn þegja. Þá verður þögn – og þegar litið er yfir nýjan þingmannahóp er varla við öðru að búast en framhaldsþögn.
Við slíkar aðstæður er ekki annað að gera en að þegja ekki utanþings: fylgjast með gagnrýni sem fram kemur í fjölmiðlum á borð við Samstöðina (samstodin.is) og Neista (neistar.is) sem hefur birt afbragðs vel unnar, gagnrýnar greinar um alþjóðamál.
En mikilvægast er náttúrlega að við þegjum ekki sjálf.
Ekki rifjð upp í tilgangsleysi
Ofangreint er ekki rakið hér út í bláinn heldur gert í tvennum tilgangi. Í fyrsta lagi til þess að minna á að það skiptir máli og hefur áhrif á fylgissveiflur stjórnmálalflokka þegar grunnstefnu er breytt í alþjóðamálum sem öðrum málum. Í öðru lagi þá hefur það áhrif á kjósendur til langs tíma hvort þeir telja að stjórnmálamenn horfist í augu við verk sín og gangist við þeim, hvort sem þeir telja þau hafa verið réttmæt eða misráðin. Með öðrum orðum geri málin heiðarlega upp. Þegar það er gert verður til trúverðugleiki. Ella verður hljómurinn holur.
------------------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.