Fara í efni

Íslandsmethafinn, mannorð hans og forsætisráðherra

Meintur Íslandsmethafi í skattsvikum, Jón Ólafsson fyrrverandi Skífuþeytara og eigandi Norðurljósanna, hefur nú höfðað mál gegn Davíð Oddssyni forsætisráðherra. Eina sem Davíð hefur unnið sér til saka var að láta í ljósi þá sjálfsögðu skoðun sína, og túlkaði hann þar vafalaust viðhorf meirihluta þjóðarinnar, að kaup Jóns í Bónus í félagi, amk. að því er virðist, við Kaupþing-Búnaðarbanka á meintum eignum Jóns bæri brag af verslun með þýfi.
Að sjálfsögðu mega allir verja mannorð sitt og þar með talinn Jón Ólafsson. En ég legg það til við Jón að auk nefndrar málshöfðunar auglýsi hann nú þegar í blöðunum, og helst í heilsíðuauglýsingum, hvað hann hefur persónulega greitt í tekjuskatt og útsvar til samfélagsins á undanförnum 20 árum eða svo. Ekki veit ég hvort upplýsingar þar um muni vekja upp öldu samúðar í samfélaginu en ég man amk. þá tíð að opinber gjöld hans voru með þeim hætti að helst hefði mátt ætla að hann hírðist í tjaldræfli á tjaldstæðinu í Laugardalnum árið um kring. Og í ljósi þessa mætti hann einnig upplýsa hvað hann hefur fengið í félagslegan stuðning frá samfélaginu á þessum sínum erfiðleikaárum.
 Framundan eru hins vegar erfið réttarhöld hjá forsætisráðherra þar sem hann verður án efa að beita kjafti og klóm svo að handhafi Grettisbeltisins í skattsvikum hafi hann ekki undir. Ég hygg hins vegar að Davíð eigi sér enn allnokkra möguleika í þessu frekju- og græðgissamfélagi sem nú ríkir á Íslandi og sem hann sjálfur hefur átt drjúgan þátt í að skapa. Þannig má hann kallast heppinn að hafa ekki verið búinn að einkavæða dómskerfið og selja það eihverjum flottræflum úti í bæ. Þá nýtur hann þess enn um sinn að geta tjáð sig á öldum ljósvakans þar sem ríkisstjórnin hefur ekki þorað að stíga það óheillaskref að selja gróðapungastéttinni sjálft Ríkisútvarpið.
Það hefur þrengt að forsætisráðherra í seinni tíð. Þannig er nú ástandið eftir einkavæðingu bankanna að hann er í vandræðum með að geyma sparifé sitt annars staðar enn undir kodda. Nýsprottið fjölmiðlaveldi moldríkra einstaklinga leggur hann í einelti, þykist frjálst og óháð en þjónar fyrst og síðast eigendum sínum og dregur þannig stórlega úr skoðana- og tjáningarfrelsi. Og ég spái því að ekki sé langt í það að sömu aðilar og nú hafa sölsað undir sig Fréttablaðið, Dagblaðið Vísi og Norðurljósaveldið í allri sinni dýrð muni einnig ná tangarhaldi á Morgunblaðinu. En það má koma í veg fyrir samþjöppunina með lagasetningu og ljóst er af máli forsætisráðherra að hún er í undirbúningi og verður vonandi til þess að höggva í herðar niður vaxandi fjölmiðlaskrímsli Jón Ásgeirs Jóhannesarsonar og félaga.
 Sem betur fer – og ekki seinna vænna – hefur forsætisráðherra lært sína lexíu af einkavæðingarfylleríi undanfarinna ára enda er það farið að bitna á honum sjálfum. Þannig er hann farinn að tala um að nauðsynlegt sé að stórefla Ríkisútvarpið og í útvarpinu í morgun uppnefndi hann sjálfan sig “frjálshyggjupjakk”. Hefði slíkt og annað eins þótt saga til næsta bæjar fyrir nokkrum árum. En pjakkurinn þarf að gera fleira en að efla Ríkisútvarpið. M.a. verður hann að stöðva fyrirhugaða sölu á Landssímanum þótt ekki væri nema til þess að koma í veg fyrir að klippt verði á allt samband hans við umheiminn af þeim sömu mönnum sem nú gína yfir öllum verðmætum í íslensku samfélagi. Þá ætti Davíð að láta það verða sitt síðasta verk á stóli forsætisráðherra að standa fyrir stofnun nýs þjóðbanka til mótvægis við þá óþolandi fákeppni sem ríkjandi er á fjármálamarkaðnum. Margt fleira í þessum dúr getur Davíð Oddsson gert áður en hann hverfur af vettvangi stjórnmálanna og ég held reyndar að innst inni langi hann til þess. Í mínum huga er það bara spurning um að þora því er enginn maður að minni að draga í land og viðurkenna mistök sín. Þvert á móti. Og hvað svo sem sagt hefur verið um Davíð Oddsson forsætisráðherra getur enginn haldið því fram að hann skorti kjarkinn. Í trausti þess að hann láti nú drauminn rætast og taki til við að vinda ofan af græðgissamfélagi frjálshyggjunnar horfi ég, fyrir hönd þjóðarinnar og reyndar einnig vinar míns Davíðs Oddssonar, björtum augum fram á veg. Að síðustu óska ég landsmönnum öllum gleðrilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Með góðri kveðju,
Þjóðólfur.