Íslendingar vilja borga fyrir góða heilbrigðisþjónustu
Birtist í Fréttablaðinu 11.02.04
Hér á landi eru gerðar miklar kröfur til heilbrigðisþjónustunnar. Það kom vel fram í skoðanakönnuninni sem Fréttablaðið birti á sunnudag. Ef eingöngu er litið til þeirra sem tóku afstöðu reyndust 57,4% ánægð neð heilbrigðiskerfið en 42,6% óánægð. Enda þótt meirihluti þjóðarinnar sé, samkvæmt þessari könnun, ánægður með heilbrigðiskerfið er hinn hlutinn stór sem lýsir óánægju. Sannast sagna kom mér á óvart hversu stór þessi hluti er. Mín tilgáta um skýringu á þessari óánægju er þríþætt.
Í fyrsta lagi þá er það staðreynd að víða eru langir biðlistar í heilbrigðiskerfinu og er skiljanlegt að það valdi óánægju og reiði. Í öðru lagi tel ég þetta vera viðbrögð við vaxandi gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Hún hefur orðið þess valdandi að sístækkandi hópur treystir sér ekki af peningaástæðum að sækja læknisþjónustu. Þetta segir okkur að ennþá stærri hópur -næsta tekjubilið fyrir ofan þá sem ekki hafa fjárráð til að nýta sér kerfið - þarf að velta hverri krónu fyrir sér áður en leitað er læknis. Þessi hópur lýsir án efa óánægju með heilbrigðiskerfið í landinu og það af mjög skiljanlegum og réttmætum ástæðum, kerfið er orðið notandanum of dýrt. Þriðji hópurinn er óánægður af allt annarri ástæðu. Þetta er efnafólkið sem svíður það að geta ekki keypt sig fram fyrir aðra í biðröðunum.
Í framangreindri skoðanakönnun Fréttablaðsins kom fram að "um helmingur þjóðarinnar væri reiðubúinn að borga meira fyrir betri læknisþjónustu" .Hvað þýðir þetta? Vilja menn efla samhjálpina eða vilja menn að sjúklingar borgi beint? Þarna hefði þurft nánari eftirfylgni og við þyrftum einnig að þekkja forsendur svaranna. Flest værum við án efa tilbúin að borga aleiguna fyrir eigin heilsu eða til að hjálpa okkar nánustu í erfiðum sjúkdómum ef samhjálparkerfið hlypi ekki undir bagga. Það er ekki þar með sagt að við værum fylgjandi því að sjúklingar borgi beint.
Vilja borga á meðan þeir eru frískir
Flestar kannanir til þessa hafa sýnt fram á að Íslendingar vilji þegar allt kemur til alls borga heilbrigðisþjónustuna í gegnum samneysluna, það er skattkerfið en ekki með þjónustugjöldum sem eru fínt orð yfir sjúklingaskatta. Árið 1998 lét BSRB gera umfangsmikla könnun á afstöðu Íslendinga til fjármögnunar heilbrigðisþjónustunnar. Yfirgnæfandi meirihluti, eða 67% var tilbúinn að greiða hærri skatta og gjöld til að bæta heilbrigðisþjónustuna og 71% aðspurðra höfnuðu því að færa fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar frá sköttum yfir í notendagjöld. Athyglisvert var að í samanburði við svipaða könnun frá árinu 1989 hafði fylgi við skattaleiðina aukist og andstaða við sjúklingaskattana að sama skapi. Á þeim tæpa áratug sem leið þarna á milli höfðu menn fengið reynslu af vaxandi gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu.
Ekki bíða þangað til þeir verða veikir
Hvað þýðir þetta í reynd? Í reynd þýðir þetta að Íslendingar vilja samhjálparkerfi. Þeir hafna hvers kyns mismunun þegar kemur að heilbrigðisþjónustunni. Það gefur auga leið að eftir því sem peningagreiðslur fyrir læknisaðstoð vega þyngra þeim mun meiri verður mismununin. Þá er eðlilegt að það fólk sem hefur lítil eða tiltölulega takmörkuð fjárráð bendi á þá augljósu staðreynd að þjóðin öll hafi byggt upp velferðarkerfið, þar með talda heilbrigðisþjónustuna. Það hafi sýnt sig að læknisþjónusta án nokkurs opinbers stuðnings geti ekki borið sig, alla vega þegar um dýrari aðgerðir er að ræða. Há sjúklingagjöld myndu þess vegna aldrei dekka kostnaðinn af allri þjónustunni. Þau myndu hins vegar fleyta hinum ríkari framfyrir þá sem minni efni hafi. Það amast enginn við því að læknar stundi atvinnurekstur sinn algerlega óstuddir og selji sína þjónustu á markaði. Í nýafstaðinni sérfæðilæknadeilu var hins vegar tekist á um það hvort læknar sem nytu ríkisstuðnings, væru inni í almannatryggingakerfinu, gætu jafnframt haft sjálfdæmi um gjaldskrá.
Í sinni einföldustu mynd snýst spurningin um þetta: Viltu borga fyrir heilbrigðisþjónustuna með sköttum á meðan þú ert heilbrigður eða viltu bíða og borga úr eigin vasa þegar þú ert orðinn veikur? Það hefur margoft sýnt sig að meirihluti Íslendinga vill borga á meðan hann er frískur.