Fara í efni

ÍSLENSK NÁTTÚRA MUN SAKNA HILDAR HERMÓÐSDÓTTUR

Hildi kynntist ég sem ráðgjafa um málfar þegar hún kom að bók minni Rauða þræðinum fyrir ekki svo ýkja löngu. Þar var ekki komið að tómum kofunum því næmi hennar á okkar ylhýra móðurmál var viðbrugðið. Hún setti fram tillögur sínar án þess bó nokkurn tímann að gerast yfirgangssöm.

Áttum við stundum skemmtilegar samræður um íslenska menningu og sögu en einnig um náttúru og náttúruvernd. Þar vorum við sammála í öllum grundvallaratriðum, vildum ekki markaðsvæðingu nátturuverndar. Hún kæmi niður á náttúrunni fyrr eða síðar.

Þegar Hildur Hermóðsdóttir kvaddi sér hljóðs á opinberum vettvangi um þessi mál eða önnur var talað tæpitungulaust, þannig að öruggt væri að ekkert færi á milli mála.

Það var ánægjulegt að henni skyldi takast að skrásetja ást sína á Laxá en samnefnd bók hennar fjallaði um Stóra hvell, sem svo var stundum nefndur, þegar hópur manna undir forystu föður hennar Hermóðs Guðmundssonar í Árnesi greip til aðgerða til verndar Laxár í Aðaldal. Sprengd var stífla sem gerð hafði verið í ánni með dýna­míti. 113 lýstu verkinu á hendur sér. þar af voru 65 ákærðir.

Á meðal þeirra sem að þessu stóðu var útvarpsmaðurinn Ævar Kjartansson frá Grímsstöðum á Fjöllum, þá tvítugur aldri, en þótti liðtækur þrátt fyrir ungan aldur, nýkominn frá Suður-Ameríku. Frést hafði að þar hefðu málsvarar hinna undirokuðu, skæruliðar, haft sig nokkuð í frammi og munu Þingeyingar hafa viljað hafa á að skipa einum slíkum kunnáttumanni – sem í það minnsta hefði teoríuna á hreinu.

Ég mæli með því að þau sem ekki eiga bók Hildar, Ástin á Laxá, nái sér í eintak til þess að lesa sér til fróðleiks og skemmtunar og kannski einnig í minningu um höfundinn.
“Bók­in fang­ar ást­ina á nátt­úr­unni og bregður upp mynd­um af fólk­inu sem verndaði hana með sam­heldni og eld­móð að vopni,” segir í kyninngu bókaútgáfunnar.

Hildur Hermóðsdóttir gerði sitt til að hrista upp í samtíma sínum sem henni fannst einkennast af afstöðuleysi og rolugangi. Ekki veit ég hvort hún hefði notað það orð – en það var inntakið í herhvöt hennar þegar hún byrsti sig.

Fráfall Hildar Hermóðsdóttur minnir á hve dýrmæt þessi eintök homo sapiens eru sem taka yfirvegaða og rökstudda afstöðu og fylgja henni síðan eftir af óttaleysi.

Í eftirfarandi skrifum er fjallað um málefni sem tengjast ofangreindu, þar á meðal mynd Gríms Hákonarsonar um Hvell, skrif Björns Jónassonar um þá mynd og fleira:

https://www.ogmundur.is/is/greinar/herhvot-hildar

https://www.ogmundur.is/is/greinar/thad-sem-their-vildu-fa-var-ekki-til-solu

https://www.ogmundur.is/is/greinar/sprengt-i-adaldal-50-ara-herhvot-um-heimildarmynd-og-greinarskrif

Ég vek athygli á að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.