Jafnréttismál í brennidepli
Umræða um kvenfrelsismál er mjög brýn og þarf að fá mikið vægi. Í aðdraganda kosninga veltir fólk því eðlilega fyrir sér hvaða leiðir séu færar til að tryggja jafnræði með kynjunum í tengslum við komandi kosningar og að þeim afloknum. Reyndar eru teikn á lofti um að ekki sé mjög bjart framundan hvað þetta varðar. Hitt er þó ljóst að allir eru sér meðvitaðir um réttmæti kröfunnar um jafnrétti kynjanna og að markvisst verði komið í veg fyrir mismunun á kostnað kvenna. Svo er nú komið að þegar jafnréttiskrafan nær ekki fram að ganga þá vaknar sektarkenndin. Viðhorfin eru gerbreytt frá því Kvennaframboðið og Kvennalistinn komu með stormi inn í stjórnmálin í byrjun níunda áratugarins. Á ráðstefnu Kvenréttindafélags Íslands í Ráðhúsi Reykjavíkur á fimmtudagskvöld voru jafnréttismálin til umræðu. Ráðstefnan bar yfirskriftina “Ímynd kvenna í stjórnmálum”.
Þrjú erindi voru flutt á ráðstefnunni. Rósa Erlingsdóttir, stjórnmálafræðingur og jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands, fjallaði um stjórnmálaþátttöku kvenna. Hún rakti þróun þeirrar hugmyndafræði sem beitt hefði verið í kvenfrelsisbaráttu allt frá því á 18. öld og mátaði hana við hugmyndagrunn frjálslyndisstefnunnar. Frjálslyndisstefnan lagði höfuðáherslu á að jafna tækifæri einstaklinga til þátttöku og áhrifa í þjóðfélaginu, einkum á fyrri hluta 19. aldar, þótt talsmenn stefnunnar yrðu sífellt betur meðvitaðir um mikilvægi samfélagslegra þátta eftir því sem fram liðu stundir. Rósa Erlingsdóttir sagði að róttækir femínistar sem komu fram á sjöunda áratugi tuttugustu aldar hefðu gagnrýnt frjálslyndisstefnuna fyrir að halda á lofti hugmyndum um hefðbundna skiptingu á milli einkalífs og opinbers lífs. Hún sagði að kvenfrelsisbarráttan og sú hugmyndafræði sem hún byggði á hefði einmitt lagt mikið upp úr því að draga úr þessari aðgreiningu. Þeir sem nú hugsuðu í þeim farvegi væru margir hallir undir sértækar aðgerðir í þágu kvenna. Þær gætu birst í ýmsum myndum, t.d. með því að ryðja úr vegi hindrunum sem yrðu á vegi kvenna á leið þeirra inn á vettvang stjórnmálanna, svo sem kostnaðarsömum prófkjörum. Einnig gæti það þjónað hagsmunum kvenna, umfram karla, að setja þak á leyfileg fjárútlát í tengslum við prófkjör. Í þessu samhengi væri nauðsynlegt að viðurkenna kynferði sem pólitíska breytu sem hefði áhrif á þjóðfélagslega stöðu kvenna og karla og að skilgreina bæri konur sem hóp á vettvangi stjórnmálanna. Í því fælist viðurkenning á að þjóðfélagið væri samansett af mismunandi hópum sem ættu ólíkra hagsmuna að gæta.
Rósa Erlingsdóttir kvað mikilvægt að við misstum ekki sjónar á hinu sögulega samhengi og væri gagnlegt að þekkja rætur kvenfrelsisbaráttunnar. Sú barátta hefði það að markmiði að tryggja jafnrétti kynjanna og uppræta þann ójöfnuð á milli karla og kvenna sem við byggjum við. Viðurkenna þyrfti að viðfangsefnið væri hagsmunamál stjórnmálaflokka og þjóðfélagsins alls. Rósa lagði áherslu á að ójöfnuður á einu sviði gæti af sér önnur þjóðfélagsmein og væri þannig keðjuverkandi. Að lokum vitnaði hún í breska baráttukonu og prófessor í stjórnmálafræði, Anne Philips, sem hefði skilgreint fjórar ástæður fyrir því að mikilvægt væri að tryggja jafnræði með kynjunum á þjóðþingum og annars staðar á lýðræðislegum vettvangi:
Í fyrsta lagi væri um að ræða mannréttindabaráttu. Barátta fyrir jafnrétti væri þannig barátta fyrir réttlæti. Ranglætið fælist í því að kerfið hefði gert karlmönnum kleift að nær einoka hið pólitíska svið og um leið neitað konum um sömu réttindi.
- Í öðru lagi væru konur líklegri til að taka á málum sem snertu hagsmuni kvenna beint og einmitt þess vegna væri þjóðfélaginu mikilvægt að konur hefðu jafnan rétt á við karla við lagasmíðina og aðra ákvörðunartöku.
- Konur nálguðust viðfangsefni sín á annan hátt en karlar og myndi fyllri aðkoma þeirra að stjórnmálum færa nýjar víddir þar inn. Þetta yrði til þess að auka gæði stjórnmálanna.
- Í fjórða lagi væru konur í stjórnmálum mikilvæg fyrirmynd.
Arna Schram, þingfréttaritari Morgunblaðsins, dró upp mynd af Alþingi og sýndi með dæmum hvernig karlar og konur hefðu mismunandi áherslur. Hún fjallaði um skiptingu karla og kvenna – þingkarla og þingkvenna sem hún nefndi svo – í þingnefndir. Niðurstaðan var sú að konur tengdust umönnunarmálum og velferðarmálum almennt en síður efnahags- og viðskiptamálum. Það var bjartsýnn tónn í Örnu. Hún kvað þjóðfélagið vera að breytast mjög ört núna, staða kvenna væri að styrkjast verulega og ástæða til að fagna því hve margar mjög kröftugar ungar konur væru nú að hasla sér völl í stjórnmálum.
Sandra Berg Cepero stjórnmálafræðingur sagði frá rannsóknum sínum þar sem leitað er svara við því hvers vegna staða kvenna væri sterkari á Norðurlöndunum en í þremur ríkjum sem voru tekin til samanburðar, Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi. Í rannsókninni voru kannaðar og bornar saman aðstæður og þróun í öllum þessum löndum. Niðurstöðurnar voru fjölþættar. Í fyrsta lagi væri á það að líta að atvinnuþátttaka kvenna hefði lengi verið miklu meiri á Norðurlöndunum en í ríkjunum þremur og vöxtur og viðgangur velferðarþjónustunnar miklu meiri og örari. Þetta hefði styrkt mjög stöðu kvenna. Í öðru lagi hefði skapast hefð fyrir samráði í þjóðfélaginu. Þjóðfélag sem býr yfir samráðsvettvangi og byggir á þeirri hefð að nýta hann væri í stakk búið til að beita handafli ef því er að skipta, t.d. greiða götu kvenfrelsisbaráttu og jafna þannig stöðu kynjanna. Með öðrum orðum, tækin væru til staðar. Í þriðja lagi skiptu áherslur stjórnmálaflokka og hefðir þeirra miklu máli og kosningafyrirkomulag gæti einnig skipt sköpum. Þannig hefði sýnt sig að tveggja flokka kerfi væri konum óhagstæðara en fjölflokkakerfi með meiri margbreytileika. Sama gilti um einmenningskjördæmi, þau hefðu reynst konum óhagstæð.
Að loknum erindum sátu fulltrúar stjórnmálaflokka á þingi í pallborði. Þar var staðan reifuð nokkuð með hliðsjón af því sem fram kom í ofangreindum erindum.