Jeffrey David Sachs er bandarískur hagfræðiprófessor við Columbia háskólann í New York fyrrum forstöðumaður The Earth Institute, rannsóknarstofnun við Columbia þar sem viðfangsefnið er umhverfismál í víðum skilningi.
Jeffrey D. Sachs er afkastamikill á ritvellinum og í seinni tíð hafa pistlar hans farið sem eldur í sinu á netinu og er óhætt að segja að hann sé einn áhrifamesti greinandi alþjóðastjórnmála sem nú er uppi.
Jeffrey D. Sachs sendir reglulega frá sér pistla og mun ég birta þá eftir föngum hér á síðunni í dálkinum Frjálsir pennar. Það geri ég í samráði við höfundinn.
Ég mun, að því marki sem ég hef tök á, gefa úrdrátt úr þessum skrifum hér á síðunni jafnframt því sem ég birti pistlana á ensku.
Nýjasti pistillinn er þessi: What Ails America and How to Fix it,
Það sem hrjáir Bandaríkin – og hvernig megi lagfæra brotalamirnar
Í þessari grein færir Jeffrey Sachs rök fyrir því að í bandarísku samfélagi búi gríðarlegur kraftur og möguleikar til góðra verka. Verkefnið sé að virkja þennan kraft. Forsenda þess að það takist sé sú að hvorki hergagnaiðnaðurinn né stórkapítalið fái nánast óáreitt að stýra efnahagskerfinu og þar með samfélagsþróuninni heldur verði horft til þess að gera þjóðfélagið jafnara og réttlátara. Grein Sachs sem er að finna hér á síðunni, https://www.ogmundur.is/is/frjalsir-pennar/what-ails-america-and-how-to-fix-it
Sachs segir niðurstöðu í nýafstöðnum kosningum í BNA sýna að margir hafi kosið gegn óbreyttu ástandi. Samkvæmt könnunum telji meirihluti þjóðarinnar að kjör sín hafi almennt rýrnað á kjörtímabilinu og yfirgnæfandi meirihluti telji að sama skapi að BNA sé á rangri leið í utanríkismálum. Aðeins þriðjungur þjóðarinnar hafi verið sáttur við utanríkisstefnu Bidens.
Brotalamir pólitíska kerfisins í Bandaríkjunum, segir Sachs ekki síst vera þær að lýðræðiskerfið endurspegli ekki vilja hins almenna manns, þar hafi fjármagnið öll ráð á hendi sér. Stórefnafólk og þrýstihópar kaupi sér hreinlega áhrif með fjárstuðningi við framboðin. Bæði repúblikanar og demókratar njóti stuðnings auðkýfinga og séu fyrir vikið undir áhrifum þeirra.
Efnafólkið eigi það sameiginlegt að vilja skattaívilnanir - og þær munu verða veittar – en menn skuli ekki gefa sér annað en að þetta fólk vilji fremur frið en stríð – frið til að geta haldið sínu striki og almennt sé vilji til samstarfs við Kína en ekki stríðsátök. Þeir sem vilji stríð séu pólitískir brjálæðingar að ógleymdum stríðsiðnaðinum.
Ómældur þrýstingur komi frá kauphöllinni í Wall Street, olíuiðnaðinum, byssuframleiðendum, lyfjaiðnaðinum og síðan Ísrael. Allir þessir aðilar beini sjónum að tilteknum þingmönnum sem líklegir séu til að stjórna mikilvægum þingnefndum.
Hundrað milljón dollara framlag í kosningasjóð geti síðar fært gefandanum milljarða dollara ávinning! Og gefandinn leiðir sjaldnast hugann að því hvað almenningi hugnist best.
Þessir veitendur eru oftar en ekki beinlínis andstæðingar almennings. Verum minnug þess sem Adam Smith sagði forðum í Auðlegð þjóðanna 1776: Þeir sem sýsla á sama sviði hittast varla svo - jafnvel þegar ætlunin er að gera sér glaðan dag - að samtal þeirra endi ekki með samsæri um leiðir til að hagnast sameiginlega á almenningi, eða orðrétt á ensku, "People of the same trade seldom meet together, even for merriment and diversion, but the conversation ends in a conspiracy against the public, or in some contrivance to raise prices."
Hættulegasti þrýstingurinn komi frá hergagnaiðnaðinum (og hér gefur JS slóðir á bækur) og svo Ísrael. Úr þessari átt sé þrýstingurinn á stríð og enn meira stríð sem geti aftur leitt til tortímingar. Ákvörðun Bidens um að heimila árásir með langdrægum flaugum frá Úkraínu langt inn í Rússland sé dæmi um hættulegt dómgreindarleysi.
Og þessir sömu aðilar vilja nú stríð við Kína! Netanjahu hefur öðrum fremur verið sá sem hvatti til hrikalegra stríðsátaka í Írak, Líbanon, Líbíu, Sómalíu, Súdan og Sýrlandi. Þessu lýsir Sachs síðan nákvæmar.
Sachs ræðir í grein sinni all ítarlega um erfitt hlutskipti láglaunafólks í Bandaríkjunum. Hjálp til þessa fólk hafi hvorki komið frá repúblikönum né demókrötum.
Hérna sé mótsögnina í bandarískum stjórnmálum að finna, kjósendur Trumps séu upp til hópa úr verkamannastétt en fjárhagslegir stuðningsmenn hans séu hins vegar stórefnafólkið.
Og hvað þá næst? Trump vill viðskiptastríð við Kína og reka innflutt verkafólk úr landi og síðan skattfríðindi til handa hinum ríku.
Sachs færir rök fyrir því að þótt þetta hafi gengið vel í kjósendur muni þetta að öllum líkindum ekki skila tilætluðum árangri. Og ekki muni þetta draga úr halla á ríkissjóði sem sé geigvænlegur.
En lausnir eru til segir Jeffrey Sachs í grein sinni. Draga þurfi saman umsvif hergagnaiðnaðarins. Ljúka þurfi stríðinu í Úkraínu með því falla frá útþenslustefnu NATÓ, sama þurfi að gerast gagnvart Kína, þar þurfi að falla frá hótunum og hervæðingu. Ísrael fái ekki lengur stuðning við stríðsrekstur að óbreyttri stefnu. Viðurkenna verði Palestínu og stuðla að friðsamlegri sambúð.
Til að ná niður hallarekstri þurfi að loka hundruðum herstöðva, skera niður hernaðarútgjöld, himinhá útgjöld til lyfjaiðnaðarins að sama skapi, bæta skattkerfið og draga úr skattsvikum sem séu óhemju mikil.
Síðan þurfi að hugsa stórt í samræmi við getu Bandaríkjanna sem sé óumdeilanleg. Í framhaldinu ræðir Sachs um möguleikana í tækni- og tölvugeiranum og segir að beri Trump gæfu til að horfa til þessa verði honum ekki öll sund lokuð. Musk vilji til Mars en slík áform gangi ekki nema hugað sé að skiptingu verðmætanna heima fyrir. Þar sé verk að vinna.
https://www.commondreams.org/opinion/why-america-is-failing
----------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/ Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
|