Fara í efni

JEREMY CORBYN: FULLTRÚI HÓFSEMI OG SKYNSEMI

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Birtist í DV 19.09.15.
Langt er síðan annar eins hófsemdarmaður hefur komist í fremstu víglínu breskra stjórnmála og nýkjörinn formaður Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn.
Hann hefur verið sjálfum sér samkvæmur þótt flokkur hans hafi á síðasta hálfum öðrum áratug hneigst til  stefnu bæði í innanríkismálum og utanríkismálum sem að mínu mati er mjög öfgafull.
Þannig tók Tony Blair, fyrrverandi formaður Verkamannaflokksins og forsætisráðherra Bretlands, fullan þátt í blekkingarleik Bush Bandaríkjaforseta gagnvart umheiminum á sínum tíma, um að sannanir lægju fyrir um að gereyðingarvopn væri að finna í Írak undir handarjaðri Saddams Husseins. Þessar fullyrðingar voru síðan notaðar til að réttlæta viðskiptabann á írak sem, að mati sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna, murkaði lífið úr hálfri milljón íraskra barna að ógleymdri innrásinni í Írak sem flestir eru nú samdóma um að hafi verið hrapalegt óráð.

Á móti brotaviljanum

Hið umhugsunarverða er að lygarnar lágu alltaf meira og minna fyrir enda voru staðhæfingar eftirlitsmanna SÞ alla tíð afdráttarlausar. Þeir máttu sín hins vegar lítils gegn mönnum með einbeittan brotavilja.
Bush er sagður hafa látið þau orð falla á fyrsta fundi sínum með ráðuneyti sínu, eftir að hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna, árið 2001: „Til stendur að gera innrás í Írak, finnið fyrir mig ástæðurnar, find me the reasons!"
Síðan lögðust þeir báðir á bæn, Bush og Blair, og létu þau boð út ganga að nú skyldi halda í krossför hinnar 21. aldar.
Meintar öfgar Jeremy Corbyns eru einörð andstaða hans við þessa árásarstefnu og það sem verra var, í hugum andstæðinga hans,  stuðningur við friðsamlegar lausnir í Mið-Austurlöndum og almennt í heiminum í stað hernaðarstefnu.

Pólitísk stjórnmálafræði

Ég hef hlustað á menn sem koma fram í nafni „stjórnmálafræðinnar" í fjölmiðlum og útmála Corbyn sem öfgamann án þess að þurfa að færa rök fyrir því í hverju meintar öfgar felist. Í þá veru talaði til dæmis einn slíkur fræðingur, varaþingmaður Samfylkingarinnar, í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins fyrir fáeinum dögum og bætti því við að í röðum breskra  Íhaldsmanna væri nú án efa mikill fögnuður að fá andstæðing á borð við Corbyn og þá vegna þess hve úti á jaðri hann stæði í pólitíkinni.
Spurningin er hins vegar þessi: Hvor skyldi standa á jaðrinum Blair eða Corbyn. Báðir bjóða þeir sig fram undir merkjum félagshyggju og jafnaðar. Annar ræðst stórstígur í einkavæðingu innviða samfélagsins og grípur til ráðstafana sem auka misskiptingu í landinu og efla áhrif fyrirtækja og fjármagns á kostnað almennings og lýðræðis. Hinn talar og vill framkvæma í anda jafnaðar og leggur frá fyrsta degi á formannsstóli fram tillögur í þá veru. Þar nefni ég húsnæðismálin og tillögur um að færa almenningssamgöngur og einkavædda innviði að nýju til almennings.
Í stað þess að leggja til kröfu um lágmarkslaun setur hann fram tillögu um að bann verði sett við hámarkslaunum og að atvinnurekendur skuli gera grein fyrir því á opinn og gagnsæjan hátt á hvaða forsendum þeir greiði laun, hve margar vinnustundir búi þar að baki. Þar með er kominn vilji til að gera kjarasamninga að nýju opna og félagslega. Eru þetta öfgar? Eflaust finnst þeim þetta vera öfgar sem fitnað hafa á fjósbita frjálshyggjunnar á undanförnum áratugum! Sjálfum finnst mér þetta vera fullkomlega réttmæt skynsemi. Og ef hana væri bara að finna á jaðri stjórnmálanna þá yrði svo að vera. Ég held hins vegar að þetta séu sjónarmið sem eiga fylgi að fagna og muni nú blómstra þegar þau fá að njóta sín.

Mátti ekki hnýta bindið betur?

Fréttir frá Bretlandi herma að almenningi á vinstri kanti stjórnmálanna - Jeremy Corbyn hefur aldrei reynt að vera allra - finnist ferskur andblær fylgja hinum nýja formanni Verkamannaflokksins og áherslum hans á réttlæti. Fyrri valdaöfl flokksins gera hins vegar allt sem í þeirra valdi stendur til að bregða fyrir hann fæti.
„Af hverju söng hann ekki þjóðsönginn, God save the Queen, við athöfn til minningar um fórnarlömb Heimstyrjaldarinnar seinni? Er það vegna þess að hann er lýðveldissinni og andvígur konungdómi? Varla er hann laglaus. Og af hverju var hann í svona jakka en ekki hinsegin jakka? Mátti ekki hnýta bindið betur?"
Svona er hamast, ekki bara í pressunni og á netinu heldur einnig af hægri mönnum í Verkamannaflokknum sem sjá að baki fengsælli og stundum fitandi valdatíð.

Hverjir hlæja?

Og komum við þá aftur að yfirlýsingu ívitnaðs stjórnmálafræðings um meinta gleði Íhaldsmanna.
Það má vel vera að þeir sem hugsa í flokkum en ekki hugmyndum og hugsjónum telji að eitthvert slangur af hægra fylgi í Verkamannaflokknum haldi nú á fyrri slóðir. Raunverulegt hugsjónafólk til hægri eins og járnfrúin breska, Margaret Thatcher, hefði ekki hlegið. Hún fagnaði nefnilega Blair þegar hann settist á valdastól. Hún sá að þar með ykjust líkur á að ýmsar hugsjónir hennar yrðu að veruleika, auk þess sem pólitíkin yrði öll færð í þá átt sem henni væri að skapi.
Það hlægir þau ekki sem þannig hugsa í stjórnmálum og standa til hægri, að nýkjörinn formaður Verkamannaflokksins breska, skuli heita Jeremy Corbyn og vera sá sem hann er og hefur verið.