JÓDÍS ENN UM MÁLEFNI KÚRDA
Jódís Skúladóttir alþingismaður skrifar grein i Heimildina um reynslu sína með Kúrdum í tyrkneskum dómssal en það er heitið á grein eftir hana sem birtist í Heimildinni. Frásögn Jódísar er í senn upplýsandi um svokölluð Kobani-réttarhöld og áhrifarík fyrir hve myndræn fráögn hennar er.
Ég læt hér að neðan slóð fylgja á greinina í Heimildinni en birti hana auk þess hér á síðunni. Gagnvart Heimildinni geri ég það í heimildarleysi en vona að mér - sem áskrifanda að blaðinu - fyrirgefist það!
https://heimildin.is/grein/22031/med-kurdum-i-tyrkneskum-domssal/
Grein Jódísar:
Með Kúrdum í tyrkneskum dómssal
Í september árið 2014 átti sér stað afdrifaríkur atburður í Kúrdíska bænum Kobani í Norður Sýrlandi nálægt landamærum Tyrklands þegar hryðjuverkasamtökin ISIS gerðu árás á bæinn. Tyrkneska lögreglan stöðvaði slasaða íbúa Kobani á landamærunum þegar fólkið leitaði ásjár í örvæntingu sinni og ótta. Því var mætt með táragasi og kúlnahríð. Á sama tíma var ISIS liðum hleypt yfir landamærin og fengu þeir forgang að heilbrigðisþjónustur. Af þessu birtust myndir í fjölmiðlum sem reitti fólk til mikillar reiði. Næstu daga og vikur brutust víða út mótmæli í Tyrklandi og olía á eldinn var þegar Erdogan forseti líkti PKK (Kúrdíska verkamannflokknum) við hryðjuverkasamtökin ISIS. Yfir 40 létu lífið og tæp 700 slösuðust í átökunum en lögregla beitti mikilli hörku gegn mótmælendumÍ kjölfar mótmælanna undirbjó ríkissaksóknari Ankara ákæru á hendur fjölda fólks en 108 voru handtekin, þar á meðal fyrrverandi formaður Lýðræðisflokksins (HDP).
Þann 16. október síðastliðinn sat ég hluta réttarhaldanna í Kobani málinu. Ég var stödd Ankara, höfuðborg Tyrklands til að sækja landsþing Lýðræðisflokksins (HDP) fyrir hönd Vinstri grænna á Íslandi og auk þess tilnefnd sem fulltrúi flokkahóps sameinaðra evrópskra vinstrimanna á Evrópuráðsþinginu. Fundurinn var haldinn í skugga mikillar ólgu í tyrkneskum stjórnmálum.
Lýðræðisflokkurinn (HDP) hefur þurft að þola þrotlausar árásir frá ríkisstjórninni frá kosningunum 2015. Erdogan forseti og öfgaþjóðernissinnaðir bandamenn hans hafa beitt margskonar kúgunaraðferðum til að þagga niður í flokknum. Frá árinu 2016 hafa yfir 5.000 manns sem tengjast flokknum, þar á meðal fyrrverandi stjórnarmenn, þingmenn, borgarstjórar, flokksstjórnendur og aðrir meðlimir, verið handteknir. Mörg eru í fangelsi og sum eiga yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.
Þennan dag í október ók ég í rútu út fyrir Ankara að herlögreglustöð þar sem réttarhöldin fóru fram. Ég horfði á daglegt amstur íbúa, fólk í vinnu, börn að leik, gamla menn að spila við borð í grasagarði. Lífið virtist svo venjulegt í sólinni og hversdagsleikanum. En það er ekkert venjulegt við lífið í landi þar sem ógnarstjórn handvelur einstaklinga vegna pólitískra skoðana og stingur þeim í steininn. Jafnvel árum saman án ákæru eða dóms. Þegar komið var á áfangastað blasti við æfingasvæði hersins umkringt endalausum gulum sandi. Öryggisgæsla var gríðarleg og eftir miklar bollaleggingar, afhendingu síma og handtaska fengum við að ganga í fylgd vopnaðra varða inn í dómssalinn.
Ég mun ekki gleyma þeirri stund á meðan ég lifi þegar ég sá sakborninga ganga í salinn. Einn og einn í einu var leiddur inn. Þau virtust svo smá. Þennan dag voru tekin fyrir mál nokkurra einstaklinga úr þeim stóra hópi sem handteknir voru fyrir aðild að Kobani málinu. Flest höfðu verið í varðhaldi frá árinu 2014. Eldri kona sem hafði alla tíð stundað barnakennslu og sinnt fjölskyldu sinni en hafði lýst yfir stuðningi við vinstri flokk fyrir kosningar. Blaðamaður á miðjum aldri, sá hafði verið erlendis þegar Kobani mótmælin fóru fram en það dugði ekki til að sanna sakleysi hans .
Ég sat innan um fjölskyldur og vini sakborninga sem sum hver komu mjög langt að til að fá að sjá fólkið sitt. Við máttum ekkert segja, túlkar töluðu í lágum hljóðum svo við værum meðvituð um það sem fram fór. Það var tilfinningaþrungin stund þegar við stóðum öll upp og lyftum krepptum hnefa sem stuðningsyfirlýsingu til sakborninga. Í gegnum árin hafa aðstandendur komið sér upp tjáningu í þögninni innan um vélbyssurnar. Í þessum uppréttu hnefum fólust ekki bara orðin „ ég stend með þér“, þau merktu líka „ég sakna þín“, „ég elska þig“, „ég bíð eftir þér“, „ég gleymi þér ekki“ og öll hin orðin sem mæður, feður, börn, makar, vinir og stuðningsfólk má ekki segja upphátt við fólkið sitt.
Ég hef stutt við baráttu Kúrda eins og mér frekast er unnt og mun halda því áfram. Það er ekki einkamál Tyrkja hvernig komið er fram fólk undir einræði forseta. Þúsundir sitja í tyrkneskum fangelsum fyrir það eitt að vera Kúrdar eða félagar í systurflokki okkar Vinstri grænna.
Alþjóðasamfélagið verður alltaf að vera vakandi og standa vörð um þau gildi sem nú eiga undir högg að sækja í uppsveiflu öfga hægristefnu í heiminum. Þessi gildi eru lýðræði, skoðanafrelsi, kvenfrelsi og réttlæti. Ég fordæmi aðför tyrkneskra stjórnvalda gegn Kúrdum, lýðræði og mennsku.
----------------------------------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.