Jöfnuður skiptir máli
12.08.2003
Morgunblaðið á lof skilið fyrir að birta athyglisverðar erlendar greinar sem varpa ljósi á málefni líðandi stundar. Síðastliðinn laugardag var birt grein eftir Joseph Stiglitz, handhafa Nóbelsverðlaunanna í hagfræði árið 2001 og fyrrverandi varaforseta Alþjóðabankans. Hann hefur ítrekað sett fram gagnrýni á stefnu bankans og í þessari grein, sem ber heitið Lýðskrumarar hafa stundum rétt fyrir sér, varar hann við aðilum, sem reyni að gera lítið úr félagslegum sjónarmiðum: “Þegar grannt er skoðað kemur … í ljós að margar af tillögum “tæknikratanna” byggjast frekar á hugmyndafræði en hagsvísindum.” Stiglitz segir, að oft vilji gleymast að ráðstafanir í efnahagsmálum komi sér misvel fyrir þjóðfélagshópa: Kostirnir “eru oft góðir fyrir suma hópa en verri fyrir aðra. . Í Austur-Asíu, til að mynda hafa fjárhagslegar björgunaraðgerðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hjálpað alþjóðlegum lánadrottnum, en komið hart niður á launþegum og innlendum fyrirtækjum. Aðrar ráðstafanir hefðu getað falið í sér meiri áhættu fyrir alþjóðlegu lánadrottnana en minni fyrir launþega og innlendu fyrirtækin. Þegar ráðstafanir eru valdar standa menn oft frammi fyrir vali á milli gilda, þannig að það er ekki tæknileg spurning um hvaða ráðstöfun sé “betri” í einhverjum siðfræðilega óumdeilanlegum skilningi. Þetta val á milli gilda er pólitískt val og ekki er hægt að láta tæknikratana um það.”
Ekki vill Stiglitz skilja svo við lesandann að hann velkist í vafa um hver afstaða hans er varðandi áherslur í slíku vali því undir lok greinar sinnar segir hann, að menn ættu “að líta svo á að jöfnuður skiptir máli.”
Ekki vill Stiglitz skilja svo við lesandann að hann velkist í vafa um hver afstaða hans er varðandi áherslur í slíku vali því undir lok greinar sinnar segir hann, að menn ættu “að líta svo á að jöfnuður skiptir máli.”