Jóhann Óli og Óli Björn
Niðurlag leiðara DV í dag er einstaklega gott og vil ég taka undir hvert einasta orð, sérstaklega í lokasetningunni. Hún er svohljóðandi: "Í þessu efni eins og öðrum verður skynsemin að ráða." En þótt þessi setning sé góð og hafi lög að mæla þá gildir hið sama því miður ekki um flestar aðrar setningar í þessum leiðara sem er skrifaður undir flennifyrirsögninni: Einkaframkvæmd góð leið. Röksemdafærslan fyrir þessari fullyrðingu þykir mér vera mögur en hún er á þessa leið: "Hvalfjarðargöngin hafa einnig sýnt það og sannað að einkaframkvæmd getur verið skynsamleg leið til að fjármagna framkvæmdir sem ríkið hefur fram til þessa séð alfarið um. Einkaframkvæmd hefur rutt sér til rúms hér á landi, enda úrtölumenninrnir sjálfir farnir að skilja kosti hennar. Allt frá byggingu skólahúsa til vegamannvirkja og hjúkrunarheimila hefur leið einkaframkvæmdar verið valin með góðum árangri."
Til að byrja með skal tekið undir að í einhverjum tilvikum getur einkaframkvæmd verið skynsamleg leið eins og hér er staðhæft. Það getur meira að segja verið nauðsynlegt að fara þessa leið fyrir fjárvana ríki eða sveitarfélög sem ekki hafa aðgang að ódýrari fjármagni en býðst með einkaframkvæmdinni. Vandinn við einkaframkvæmdina er einmitt sá að fjármagnið er dýrt. Stjórnarformaður Spalar hf hefur margoft sagt í mín eyru og hvergi farið leynt með þá skoðun sína, að hefði ríkið tekið fjármagnið beint að láni hefði það fengist á betri kjörum. Í öðru lagi getur einkaframkvæmd verið réttlætanleg ef notandi viðkomandi mannvirkis er ekki beinlínis knúinn til að nota það, með öðrum orðum, að hann eigi annarra kosta völ. Þetta átti við um Hvalfjarðargöngin svo dæmi sé tekið. Við höfum átt þess kost að aka fyrir Hvalfjörð í stað þess að fara göngin og greiða Spalarmönnum skattinn. Í þriðja lagi getur einkaframkvæmd verið réttlætanleg ef í henni felst áhætta, sem ríki eða sveitarfélag vill ekki axla en verktaki er hins vegar reiðubúinn að taka. Þetta átti hins vegar ekki við í Hvalfjarðardæminu. Þar var það ríkissjóður sem tók áhættuna með því að ábyrgjast lánin. Hvað vannst þá við einkaframkvæmd Hvalfjarðarganganna? Ríkissjóður þurfti ekki að leggja út fyrir framkvæmdinni. Notendur borguðu hana beint úr eigin vasa. Ekki sé ég neitt stórkostlega athugavert við þetta í tilviki Hvalfjarðarganganna þótt við hefðum getað gert okkur þetta ódýrara og léttbærara. Öðru máli gegnir um skólana, sjúkrahúsin og dvalarheimili aldraðra. Þar er meiningin væntanlega ekki að láta notandann borga beint. Eða hvað? Að vísu stóð það í leiðbeiningarbæklingi ríkisstjórnarinnar um einkaframkvæmd að hugmyndin með þessari skipan væri einmitt að láta notandann borga. Upp á síðkastið eru menn orðnir feimnir við slíkar yfirlýsingar og er stefna Sjálfstæðisflokksins núna að láta skattborgarann borga.
Þá hlýtur sú krafa að vera gerð fyrir hönd skattborgarans að þetta verði gert á eins hagkvæman hátt fyrir hans hönd og kostur er. Það verður hins vegar ekki gert með einkaframkvæmd, það skal ég fullyrða. Dæmin tala sínu máli. Frægast er Sóltún. Haft var eftir Jóhanni Óla eins aðaleiganda Öldungs hf sem fékk reksturinn á Sóltúnsheimilinu í hendur undir forskriftum einkafrramkvæmdar, að hægt væri að þéna vel á öldruðum. Þar væri "gífurlegan fjárhagsávinning" að hafa. Þegar Ríkisendurskoðun kannaði að beiðni VG hvort Sóltúnsheimilið væri skattborgaranum dýrari en önnur heimili var svarið játandi enda hlyti fyrirtæki af þessu tagi "að gera eðlilegar kröfur um hagnað af starfsemi félagsins".
Þarna er líka komin skýringin á því að Verslunarráðið er mjög áfram um að opna velferðarþjónustuna fjárfestum. Þar er nefnilega "gífurlegan fjárhagsávinning " að hafa ef rétt er á málum haldið. Og þar er komið að hinum Ólanum, ritstjáranum á DV: Óla Birni Kárasyni. Hann er greinilega á þeim buxunum að tala máli Jóhanns Óla og félaga. Fórnarlambið er hins vegar sakttborgarinn og náttúrlega þeir sem búa við annað rekstrarform. Skyldu menn gera sér grein fyrir því að ef elliheimilið Grund fengi greitt samkvæmt sama mælikvarða og Öldungur hf – að teknu tilliti til hjúkrunarþyngdar - þá væru greiðslur úr ríkissjóði 285 milljónum krónum hærri á ári en þær eru nú! Um þetta segir yfirlæknirinn á Skjóli í ársskýrslu sem birt var 14. mars 2003: " Það er hins vegar mikið undrunarefni, hve mismunur milli heimila og vistmanna þeirra vex." Skýringin er augljós segir hann ennfremur, "sá óhjákvæmilegi munur hlýtur að vera augljós á verktakakostnaði aðila sem annars vegar reiknar sér og hluthöfum sínum15% arð af starfseminni og hins vegar sjálfseignarfélögum sem hafa það eitt á stefnuskrá að skrimta hallalaus frá ári til árs." Þegar leiðarahöfundur DV fullyrðir að einkaframkvæmd sé góð leið.þá mætti hann bæta því við að hann ætti fyrst og fremst við þá sem ætluðu sér að gera út á skattborgarann og notendur velferðarþjónustunnar. Fyrir þá síðarnefndu væri þetta hins vegar hvorki gott né skynsamlegt. En eins og svo ágætlega var sagt í niðurlagi leiðara DV í dag: " Í þessu efni eins og öðrum verður skynsemin að ráða."