Fara í efni

REICODE

„Eignir Reykjavík Energy Invest verða á bilinu 180 til 300 milljarðar króna þegar félagið fer á markað árið 2009 ef áætlanir fyrirtækisins standast. Þetta kom fram á kynningarfundi sem Bjarni Ármannsson og Hannes Smárason héldu fyrir hugsanlega fjárfesta í Lundúnum á dögunum. Á fundinum var fyrirtækið kynnt af FL Group sem leiðandi fjárfestingafyrirtæki í jarðvarmaverkefnum. Þar var sagt frá því hvernig Íslendingar hafa í meira en 100 ár nýtt jarðvarma til hitunar húsa og að við samruna Geysir Green Energy og REI hafi fyrirtækinu hlotnast aðgangur að öllum þeim lykilstarfsmönnum sem hafa þekkingu á þessu sviði. Það sem vekur sérstaka athygli við kynninguna eru þó ekki þessi atriði heldur hitt að fyrirtækið stefnir að því að eignir fyrirtækisins muni allt að áttfaldast á næstu tveimur árum.“ Þetta kom fram á Stöð 2 laugardaginn 13. október sl.

Hér getum við skipt út nokkrum orðum. „Íslendingar eiga nákvæmar sjúkraskýrslur frá árinu 1915. Fyrirtækinu hefur hlotnast einkaaðgangur að þeim og sömuleiðis öllum lykilstarfsmönnum heilbrigðiskerfisins næstu tólf árin a.m.k. Þetta snýst um að búa til verðmæti, ekkert annað.“

Þá fer væntanlega ýmsa að gruna hvert ég er að fara. Eða Morgunblaðið í Reykjavíkurbréfi sunnudaginn 14. október sl: „Hættan, sem er fyrir hendi, þegar bæði stjórnmálamenn og aðrir byrja að tala hlutabréfaverð upp er auðvitað sú, að þegar Reykjavík Energy Invest verður sett á markað æði verð hlutabréfa upp fyrst í stað, þeir sem eignuðust bréfin fyrir lítið í upphafi innleysi sinn hagnað og nokkrum mánuðum seinna sitji almenningur uppi með sárt ennið. Um þetta eru dæmi í íslenzkri viðskiptasögu.“

Hér er augljóslega átt við gagnagrunnsævintýrið. Hannes Smárason og Bjarni Ármannsson voru lykilmenn í því máli. Bjarni leiddi gráa markaðinn, sem sá um sölu sex milljarðanna, sem Davíð Oddsson lét ríkisbankana kaupa af amerískum fjárglæframönnum. Hannes sá hins vegar um útfærsluna inn á Nasdaq hlutabréfamarkaðinn. Enn eru sömu menn á ferð með ríkisstudda fjárglæfrastarfsemi, pilsfaldakapitalisma.

.