Siðlaus gagnaeyðing
Það hefur mikið verið talað um lýðræði og traust á síðustu árum.
Leikreglur eru sagðar heilbrigðari en nokkru sinni í þjóðfélagi upplýsingar og þekkingar. Um þetta hafa talað hæst þeir sem farið hafa fram með geðþótta og valdbeitingu.
Fá mál í seinni tíð varpa betur ljósi á þessar mótsagnir en gagnagrunnsmálið. Því máli er formlega lokið með hæstarréttardómi þar sem íslenzka ríkið er dæmt fyrir að brjóta friðhelgisákvæði stjórnarskrárinnar á ungri stúlku. Margt á þó eftir að upplýsa í því dæmalausa spillingarmáli. Það eigum við ungum sagnfræðingi Guðna Th. Jóhannessyni að þakka að ýmis gögn voru dregin fram í dagsljósið áður en þeim var komið undan eins og nú tíðkast í ráðuneytum. Í fróðlegri bók sinni "Kári í jötunmóð" skýrir hann frá því að frumvarpið að gagnagrunnslögunum barst frá forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar til skrifstofustjóra í Heilbrigðisráðuneytinu haustið 1997. Síðar upplýstist að lögfræðingur fyrirtækisins, Baldur Guðlaugsson nú ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, hafði samið frumvarpið.
Skólabróðir Baldurs er Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. Á árum áður vildu þeir "báknið burt". Nú hafa þeir báðir skilað sér heim þar sem fyrir voru félagar þeirra, Friðrik Sóphusson, Davíð Oddsson og Hannes Hólmsteinn Gissurarson alla tíð. Jón Steinar er óumdeilanlega snjall lögmaður og óragur. Hann verður hins vegar vegna framlags síns í þágu gagnagrunnsmálins vanhæfur í Hæstarétti komi málið frekar til kasta réttarins eins og líklegt má telja. Eins alþjóð veit skoruðu ríflega hundrað lögmenn með eigin undirskrift á dómsmálaráðherra að veita Jóni embætti hæstarréttardómara. Frelsi höfðu þeir til þessa en því fylgdu skyldur - m.a. upplýsingaskylda. Meðferð áskorunarskjalsins og eyðilegging þess eins og frá hefur verið skýrt er með slíkum hætti að mann setur hljóðan.