Fara í efni

JÓHANNESAR TÓMASSONAR MINNST

Útför Jóhannesar Tómassonar fyrrum samstarfsmanns míns og vinar fór fram síðastliðinn föstudag. Margir hafa minnst Jóhannesr enda vinsæll maður, hlýr og hjálpsamur. Eftirfarandi eru minningarorð mín sem birtust í Morgunblaðinu á föstudag:

Þann tima sem ég gegndi embætti samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, síðar innanríkisráðherra, var upplýsingafulltrúi ráðuneytisins einn nánasti samstarfsmaður minn. Þetta var Jóhannes Tómasson, Jói Tomm, sem svo var jafnan nefndur.
Það er mikil eftirsjá að honum þegar hann fellur nú frá. Jóhannes var einstaklega góður samstarfsmaður og félagi og sem upplýsingafulltrúi reyndist hann afburðavel. Menntun hans og starfsreynsla kom að sjálfsögðu að góðum notum en Jóhannes átti að baki langan og farsælan feril í útgáfumálum og blaðamennsku. Færni hans var óvéfengjanleg.

En það sem gerði útslagið í mínum huga var þó einkum tvennt.

Í fyrsta lagi var þekkingu hans á viðfangsefnum ráðuneytisins viðbrugðið, sérstaklega öllu því sem sneri að samgöngumálum. Hann gerþekkti landið og hafði á því ást og áhuga. Við fórum margar ferðir saman um landið í fylgd forsvarsmanna Vegagerðarinnar og mátti ævinlega treysta því að um þær ferðir yrði fjallað af hálfu ráðuneytisins af þekkingu og innsæi. Þetta átti vissulega einnig við um annað sem heyrði undir ráðuneytið þótt samgöngumálin væru sér á báti hvað Jóhannes varðar.


Í öðru lagi vil ég nefna hve góður félagi Jóhannes var. Lundarfar manna skiptir ekki litlu máli þegar þétt er unnið saman. Því mátti treysta að öllum óvæntum, og stundum erfiðum, uppákomum tæki Jóhannes með jafnaðargeði og góðum húmor. Það var því gott að vera í návist hans enda sóttist ég eftir henni.

Auk þess sem við ferðuðumst saman innanlands fórum við einnig í langferð vestur um haf, alla leið suður til Maxíkó þar sem við sóttum alheimsráðstefnu um samgöngumál. Létum við talsvert að okkur kveða þar í umræðu um fyrirkomulag samgöngumála og fluttum heim til Íslands reynslusögur af einkavæðingu grunnkerfa og voru þær ætlaðar sem víti til varnaðar.
Sérstaklega eftirminnilegt var líka að fara með þeim hjónum heim að Hólum þar sem Málfríður kona Jóhannesar hafði unnið menningarstarf sem fróðlegt var að kynnast.

Málfríði og börnum þeirra Jóhannesar, tengdabörnum og barnabörnum, færum við Vala innilegar samúðarkveðjur um leið og við minnumst mikils öðlingsmanns og góðs vinar.