Fara í efni

JÓLAKVEÐJA

Ég sendi lesendum ogmundur.is hjartanlegar kveðjur á jólum. Myndina sem ég vel af þessu tilefni er af geisladiski þeirra Gerðar G. Bjarklind og Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur.
Þennan disk spila ég gjarnan á aðventunni til hátíðabrigða enda vel staðið að lagavalinu!
Ragnheiður Ásta féll frá á árinu og er að henni mikil eftirsjá.
Gerður er hins vegar í fullu fjöri og þau okkar sem fylgdust með skemmtiþætti Baggalúts í Sjónvarpinu í vikunni sem leið sáu og heyrðu Gerði G. Bjarklind sýna listir sínar.
Karl Sgurðsson, Baggalútur, brá á leik með Gerði og spurði hvernig mætti gæða texta lífi með áherslum í flutningi. Dæmið var að sjálfsögðu jólakveðja, uppdiktuð en hugsuð sem prófraun á hinn gamalkunna og þrautþjálfaða útvarpsþul.
Fyrst las Kalli og gerði það afbragðsvel eins og við var að búast.
Svo las Gerður.
Þá sannfærðist ég um það eina ferðina enn hver listgrein það er að lesa upp texta í útvarp.
Það er ekki öllum gefið. En Gerði G. Bjarklind er það gefið og Ragnheiði Ástu var það gefið!
Þess vegna fæ ég nú lánaða myndina af þeim til að senda ykkur öllum jólakveðjur.