JÓN ÁSGEIR, LÁNSTRAUST HF OG BANAKALEYNDIN
14.11.2008
Jón Ásgeir Jóhannesson telur ófært að á Alþingi sé spurt um hver hafi lánað honum fjármuni til að kaupa upp nánast alla fjölmiðla landsins; hvað þá að bankarnir veiti slíkar upplýsingar. Slíkt finnst honum ósvinna og hótar hverjum þeim lögsókn sem biður um slíkar upplýsingar eða veitir þær.
Hér er farið út af sporinu. Upplýsingar um kaup á fjölmiðlaflóru eins lands varða almannahag og á að upplýsa um. Þetta eru ekki upplýsingar um almenn bankaviðskipti og er ekki einkamál. Á sama hátt og fjármála- og hagsmunatengsl stjórnmálamanna og annarra sem sýsla með hagsmuni samfélagasins eru ekki þeirra einkamál.
Kröfur Jóns Ásgeirs hljóta að vekja ýmsar áleitnar spurningar. Ef það er rangt að veita upplýsingar um lán til handa manni sem kaupir fjölmiðla í heilu landi, hvað mega þeir þá segja, sem lenda í vanskilum og bankarnir afhenda fyrirtækjum á borð við Lánstraust og öðrum aðilum, sem gera sér blankheit manna að lifibrauði, upplýsingar um? Er í lagi að veita upplýsingar um fólk sem einhvern tíma hefur lent í fjárhagslegum þrengingum svo setja megi það á svarta útilokunarlista?
Hverra hagsmuna skyldi Björgvin, bankamálaráðherra ætla að gæta, smáskuldarans eða stórskuldarans? Eða kannski almennings? Ef hann ætlar að passa upp á almannahag þarf hann að sjá til þess að upplýst verði um öll hagsmunatengsl sem máli skipta í viðskiptalífi og stjórnmálum. Er þá ekki aðeins horft til Jóns Ásgeirs heldur líka stjórnmálamanna, ráðherra og þingmanna, bæjarfulltrúa og annarra sem treyst er fyrir almannahag. Spillingardæmin sem nú koma upp hvert af öðru minna okkur á þörfina á þessu.