Jón Baldvin Hannibalsson hótar endurkomu
Fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins og núverandi sendiherra Íslands í Helsinki í Finnlandi, mætir nú í hvert viðhafnarviðtalið á fætur öðru, nú síðast um helgina í Fréttablaðið, og hótar því að hefja að nýju þátttöku í íslenskum stjórnmálum. Reyndar er hann þegar kominn inn á fullu gasi. Og hvar skyldi Jón Baldvin Hannibalsson fyrst bera niður? Jú, það er áminningarfrumvarp Geirs H Haarde, fjármálaráðherra, sem þessi tilvonandi alþingismaður staðnæmist fyrst við. Eins og menn rekur eflaust minni til gengur þetta frumvarp út á það að hægt verði að segja starfsfólki upp skýringalaust. Um þetta segir þessi fyrrverandi Alþýðuflokksformaður og núverandi Samfylkingarmaður: "Ég var alltaf á móti æviráðningum. Framfarir þjóðfélagsins eru háðar breytingum. Það verður að vera hægt að innleiða breytingar. Ef þröskuldar og girðingar eru reistar verður stöðnun."
Getur verið að maðurinn viti ekki að æviráðning var lögð niður fyrir langa löngu!!!? Getur verið að hann viti ekki að hægt er að segja opinberum starfsmönnum upp með þriggja mánaða fyrirvara ef fyrir því eru málefnalegar ástæður? Það eina sem ekki er hægt að gera er að beita geðþóttavaldi til að reka fólk án skýringa. Það hefur lengi verið kappsmál lélegra og huglausra stjórnenda að geta farið sínu fram og rekið fólk án þess að þurfa að gera grein fyrir efnislegum ástæðum uppsagnar. Stjórnendur sem telja að duttlungavald stjórnenda eigi að ráða hafa nú fengið liðsmann í "jafnaðarmanninum" Jóni Baldvin Hannibalssyni, eins og hann lýsir sjálfum sér nánast í annarri hverri línu í Fréttablaðsviðtalinu. Jón Baldvin veltir því fyrir sér hvort stjórnvöld "hafi kynnt málið nægilega vel fyrir verkalýðshreyfingunni" eins og segir í Fréttablaðinu. Já, gæti það verið að við höfum ekki skilið málið nógu vel og nauðsynlegt sé að kynna okkur það betur? Hvers konar yfirlætisrugl er þetta?
Nú segir Jón Baldvin Hannibalsson að hann vilji endurreisa velferðarkerfið og að til þess þurfi skatta. Þá vilji hann ekki lækka. Auðvitað er það ánægjuefni ef Jón Baldvin Hannibalsson hefur séð að sér eftir að hafa gengið undir Sjálfstæðisflokknum fyrsta kjörtímabil Davíðs Oddssonar sem forsætisráðherra og þjónað hagsmunum hans í einu og öllu. Hversu trúverðugt er þetta tal nú? Jón Baldvin segist vera mikill velferðarsinni. Á þessum tíma gekk hann hart fram í því að réttlæta niðurskurð á fyrirtækjasköttum. Eitt samstarfsárið með Íhaldinu nam slíkur niðurskurður um fimm milljörðum. Þetta bitnaði á öryrkjum, barnafólki - fimm hundruð milljónir voru klipnar af því eitt árið – og sjúklingum, sem stofnuðu varnarsamtök gegn jafnaðarmönnunum Jóni Baldvin Hannibalssyni og Sighvati Björgvinssyni. Þau samtök hétu Almannaheill. Þessi samtök voru hædd og spottuð af forsvarsmönnum jafnaðarmanna.
Hótanir Jóns Baldvins Hannibalssonar um að ráðast að ráðningarkjörum starfsmanna ríkis og sveitarfélaga lofa ekki góðu um endurkomu hans í íslenska pólitík. Allt minnir þetta á gamla daga. Og þá daga vill Jón Baldvin Hannibalsson tilbaka. Ekki virðist mér það spennandi kostur.