Fara í efni

UMSÁTRIÐ UM SIRTE: LOKAHNYKKUR NAUÐGUNARINNAR Á LÍBÍU

Oftast er dauði Muammars Gaddafis afgreiddur á svipaðan hátt og stríðið í Líbíu árið 2011. Á íslensku Wikipedia segir til dæmis: „Stjórn Gaddafi var steypt af stóli og Gaddafi flúði til Sirte en var þar handsamaður og drepinn af uppreisnarmönnunum“. Miðað við frásögn sem þessa mætti ætla að Gaddafi hafi falið sig fyrir almenningi, en hafi náðst og þá var sagan öll. En þetta er ævintýri.

Hér verður rakinn hinn raunverulegi aðdragandi dauða Gaddafis og endaloka Jamahiriya stjórnarinnar í Líbíu. Notast er við fréttaskot frá einni heimild, norska ríkisútvarpinu, eins og þau bárust á rauntíma, en gleymdust með tímanum. Það sem kemur í ljós er að sú einfalda mynd sem flestir virðast hafa á þessum atburðum er á allan hátt röng. Fæstir gera sér grein fyrir þeim hörmungum sem lagðar voru á alla borgarbúa í borginni Sirte og í hversu langan tíma umsátrið um bæinn varði. Við munum sjá að það voru ekki borgarbúar, og ekki einu sinni Líbíumenn sem á endanum handsömuðu Gaddafi og við munum sjá að enginn manneskja með samvisku gæti fagnað því sem gerðist í vargöldinni í Líbíu árið 2011. Enginn ætti að nota þessar hörmungar sem sönnun fyrir því að þessi nýja tegund hvítu byrðarinnar, nú undir nafninu „responsibility to protect“ sé á einhvern hátt til eftirbreytni. Þess í stað ættum við öll að leggjast á árarnar við að segja frá því sem raunverulega gerðist og reyna að knýja fram þá aðstoð sem hægt er að veita landsmönnum í Líbíu nú.

 Aðdragandi umsátursins um Sirte

Vígamenn uppreisnarmanna náðu völdum yfir Trípólí um miðbik ágústmánaðar 2011 með aðstoð gríðarlegra loftárása Natóflugvéla og sérsveitarmanna frá Natóríkjum, Katar og Sádi Arabíu. Fljótlega kom í ljós að Gaddafi var ekki í borginni og upphófst mikil leit. Þann 24. Ágúst komst NATO á snoðir um það að Gaddafi héldi sig til í heimabæ sínum, Sirte, sem liggur við Miðjarðarhafið mitt á milli Trípólí og Benghazi. Norska ríkissjónvarpið greindi frá því þann 25. ágúst að loftárásir væru þegar hafnar á Sirte og að hersveitir vígamanna væru á leið til borgarinnar. Fyrst til að greina frá þessu var sjónvarpsstöðin Al-Ouraba. Vígamenn uppreisnarmanna hófu strax miklar árásir á Sirte, en mættu þar þungri mótspyrnu frá heimamönnum[i]. Þeir kröfðust því meiri aðstoðar frá NATO, sér í lagi í formi loftárása.

Það var samt ekki fyrr en þann 4. September að „þjóðarráð“ uppreisnarmanna tilkynnti formlega að þeir vissu að Gaddafi væri í Sirte. Her vígamanna umkringdi borgina og hindraði allar flóttaleiðir. Öll smærri þorp nálægt borginni voru smám saman hernumin og vopnuð andspyrna þar kæfð með aftökum og handtökum.

Fréttamaðurinn Eva Stabell[ii]  greindi frá því þann 15. september að uppreisnarmenn hefðu gert ítrekaðar tilraunir til að ná völdum yfir ýmsum bæjarhlutum í Sirte, en mættu þar ætíð mikilli andspyrnu. Þennan sama dag funduðu uppreisnarmenn með Nicholas Sarkozy, Frakklandsforseta, og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands í borginni Benghazi[iii]. Í kjölfarið voru um 900 brynvarðir bílar sendir til Sirte, fylltir hergögnum, til að kremja borgarbúa til uppgjafar.

Sarkozy, frakklandsforseti, og Cameron, forsætisráðherra Bretlands, funduðu með uppreisnarmönnum í Benghazi 15. september 2011. Cameron sagði við tilefnið að NATO myndi halda áfram að láta sprengjum rigna yfir fylgjendur Gaddafis og að stríðinu lyki ekki fyrr en honum yrði náð. Hann lofaði einnig ógrynni vopna og fjár[1]. Hér standa þeir við ráðhús Benghazi þar sem fjöldi fólks var tekið af lífi í opinberum aftökum að hálfu uppreisnarmanna.

UMSÁTRIÐ UM SIRTE: LOKAHNYKKUR NAUÐGUNARINNAR Á LÍBÍU
Þrátt fyrir það kvörtuðu uppreisnarmenn enn yfir því að ekkert gengi að brjóta borgarbúa á bak aftur og að þeir hefðu misst fjölda vígamanna í bardögum[iv].

Uppreisnarmenn og NATO létu nú sprengjum rigna inn í borgina til að undirbúa nýtt áhlaup[v]. Ekkert tillit var tekið til almennra borgara og reyndar voru allir íbúar borgarinnar málaðir með sama pensli, „Gaddafi-fylgjendur“ og látið sem að þetta gerði þá réttdræpa, hvort sem um var að ræða hermenn, börn eða annað venjulegt fólk sem ekki  kærði sig um stjórn þessara uppreisnarmanna.

 Sérsveitarmenn og NATO til aðstoðar

Þann 21. September greindi utanríkisráðherra Íraks, Hoshyar Zebari, frá því á fundi með Council on Foreign Relations í New York, að meðal uppreisnarmanna væru fjöldi evrópskra sérsveitarhermanna, sér í lagi franskir og breskir. Þetta var því langt frá því að vera einfaldlega uppreisn almennings frá Líbíu[vi]. Síðar kom í ljós að þáttur sérsveitarmanna frá öðrum löndum var mun stærri hluti af uppreisnarhernum en látið var í fyrstu.

Ástandið var orðið nokkuð vandræðalegt, því áformað hafði verið að uppreisnarmenn væru nú fyrir löngu búnir að brjóta niður alla andspyrnu. NATO hafði einungis leyfi til að stunda loftárásir sínar til 27. september og útlit var fyrir því að án NATO myndu hersveitir uppreisnarmanna tapa. Því var tekin ákvörðun innan NATO að framlengja leyfi til að „framfylgja flugbanninu“ (No-fly-zone) um 90 daga til viðbótar[vii].

Ástandið í Líbíu allri var einnig orðið skelfilegt. Mikill fjöldi fólks hafði þá þegar reynt að flýja landið yfir Miðjarðarhafið og eyjaskeggjar voru ráðþrota um hvað ætti að gera. Sérstaklega slæmt var ástandið í ítölsku eyjunni Lampedusa þar sem um 50 þúsund flóttamenn höfðu komið til lands, en á eyjunni bjuggu einungis 6000 manns. Átök voru farin að kræla á sér milli lögreglu og flóttamanna[viii].

 Hryllingur í Sirte

Þann 24. september gerðu uppreisnarmenn stórt áhlaup inn í Sirte. Hvað fram fór næstu viku er erfitt að segja til um, því engir fréttamenn virðast hafa verið á staðnum. Það var ekki fyrr en 2. október að fréttir fóru að berast aftur úr borginni. Uppreisnarmenn höfðu ekki enn sigrað borgarbúa, en höfðu gert lífsskilyrði borgarbúa nærri óþolandi. Breska dagblaðið the Guardian náði viðtali við lækni í borginni, Dr. Siraj Assouri, sem tjáði blaðinu að ástandið færi versnandi dag frá degi. Öll lyf og hjúkrunargögn væru uppurin. Gríðarlegur vöruskortur væri í borginni. Engin þurrmjólk eða bleyjur væru til, engin lyf við hjartasjúkdómum og skyldum kvillum og drykkjarvatn væri orðið af mjög skornum skammti. Rafmagnsleysi væri farið að segja til sín. Hann hafði til dæmis um nóttina misst ungan dreng á skurðarborðinu vegna þess að rafmagnið fór af. Þúsundir almennra borgara biðu eftir því að komast úr borginni[ix].

Nokkrum dögum síðar var gerð bein sprengiárás á sjúkrahúsið, Ibn Sina. Starfsmenn sjúkrahússins þurftu að flýja og reyndu að bjarga þeim sem hægt var. Starfsfólkið gat nú ekkert gert til að bjarga þeim sjúklingum sem voru í húsinu[x].

Fyrir utan borgina voru starfsmenn alþjóðlegra hjálparstofnana. Þeir lýstu ástandinu í borginni sem helvíti á jörðu. Yfirmaður hjá hjúkrunarteymi Rauða hálfmánans, Hishem Khadrawy, lýsti því að alger skortur væri á mat og drykkjarvörum. Hann vissi að fólk þyrfti að drekka skítugt vatn í hinum brennandi hita sem ríkti í borginni. Robert Lankenau, stjórnandi hjá alþjóðlegu hjálparsamtökunum International Medical Corps, sagði í viðtali við AP að hann tæki daglega á móti hundruðum særðra borgarbúa. Honum þótti alvarlegastur andlegur skaði sem hann væri var við. Sennilega myndi fólkið aldrei ná sér[xi].

Hetjumyndir af uppreisnarmönnum

Fjölmiðlar stóðu sig að venju skelfilega við að greina frá ástandinu. Á meðan öllu þessu stóð birtust hetjumyndir af vígamönnum við leik fyrir utan borgina. Um heimsbyggðina dreifðist mynd af uppreisnarmanni sem spilaði á gítar og brosti á meðan bardagar geisuðu. Ekkert var minnst á hvað átti sér stað í borginni sem verið var að sprengja sundur og saman. Vígamenn uppreisnarmanna voru kallaðar flokkar bráðabirgðastjórnarinnar, en allir sem börðust gegn þeim voru kallaðir Gaddafi-hermenn, eða jafnvel „hundar Gaddafis“[xii].

Uppreisnarmenn handsama andspyrnumenn í borginni Sirte í október 2011. Margir þeirra enduðu í pyntingarklefum í Misrata.

Líbia3.png

Aðstæður Vígamanna og borgarbúa voru sannarlega ólíkar. Á svæðum vígamanna var fjöldi sjúkratjalda og nóg af vistum og hreinu vatni. Þeir gátu tekið sér frídaga og hvílt sig á milli þess sem þeir þjörmuðu að borgarbúum.

Þann áttunda október birtu fjölmiðlar fréttatilkynningu um að uppreisnarmenn hefðu náð á sitt vald vegi sem gegndi lykilhlutverki í baráttunni, þ.e. umsátrinu. Nú réðu þeir yfir öllum leiðum í og úr borginni. Um 100 brynvarðir bílar í viðbót streymdu nú að borginni. Vígamenn náðu á vald sitt ýmsum lykilbyggingum, m.a. háskóla borgarinna, háskólasjúkrahúsið og ráðstefnubyggingu. Fréttamaður Reuters varð vitni af aðförunum þegar vígamenn lömdu alla þá sem höfðu mynd af Gaddafi í fórum sínum og rifu niður græna fána[xiii]

 líbía4.png (1)

Leiðtogar vígamanna uppreisnarhersins tóku á móti óvæntri heimsókn frá Hillary Clinton 18. október 2011.

En enn héldu borgarbúar út og umsátrið hélt áfram. Þann 18. október kom sjálf Hillary Clinton í óvænta heimsókn til Líbíu, m.a. til að funda með uppreisnarmönnum. Daginn eftir birtist fréttatilkynning frá uppreisnarmönnum þess efnis að nú væri leynivopnið komið sem myndi kremja andspyrnuna endanlega. Um var að ræða risastóra jarðýtu sem nota ætti til að ryðja öllum hindrunum úr vegi. Einhverjir fréttamenn lýstu yfir áhyggjum yfir því að þessar vítisvélar myndu um leið kremja allt og alla sem á vegi þeirra yrðu og einnig að þeir sem stýrðu þessum vélum virtust vera úr hópum á borð við Libian Islamic Fighting Group, eins forvera Daesh[xiv]. Mikið af öfgafullum Íslamistum voru í liði uppreisnarmanna og virtust verða þeir sem tækju svo völdin í borginni, en sú varð einmitt raunin.

Fréttaskotinu náð

Það var fyrst nú að Gaddafi reyndi að flýja borgina ásamt fylgdarliði. Síðar kom í ljós að hersveitir NATO, undir handleiðslu Frakka, höfðu fylgst nákvæmlega með öllum ferðum Gaddafis í að minnsta kosti viku[xv]. Meðal „uppreisnarmanna“ voru sérfræðingar frá MI6 í Bretlandi og CIA í Bandaríkjunum sem beittu háþróaðri tækni til að fylgjast með öllu sem hann gerði. Þeir vissu nákvæmlega hvar hann var og heyrðu öll símtöl hans. Það hefði verið auðvelt að sprengja húsið sem hann var í og ljúka umsátrinu löngu fyrr, en svo virðist sem að það hafi verið markmið í sjálfu sér að ná rétta fréttaskotinu. Þessu fréttaskoti var náð 20. október 2011. Hersveitir NATO biðu þar til bílalest Gaddafis var komin úr borginni og létu svo til skarar skríða. Fyrstu skotin komu úr orrustudróna sem stýrt var úr stjórnklefa í Las Vegas. Eftir það tóku franskar herflugvélar við og skutu með mikilli nákvæmni á bílalestina. Um 20 bílar voru laskaðir, en ekki sprengdir. Heimildir frá breska hernum herma að það hafi verið erlendir sérsveitarmenn sem fyrstir komu höndum á Gaddafi og færðu hann uppreisnarmönnunum[xvi].

Fréttaveitur voru duglegar að lýsa því að Gaddafi hefði reynt að fela sig í ræsi, en fundist þar. Í ótal fréttum var sú myndlíking notuð að hann hefði verið sem rotta sem fæli sig í ræsi. Uppreisnarmenn drógu hann nú inn í borgarhluta sem þeir höfðu náð á sitt vald. Á þeirri leið var hann laminn sundur og saman. Honum var nauðgað með rýtingi í endaþarminn og svo dreginn áfram að brynvörðum bíl þar sem barsmíðarnar héldu áfram. Loks hefur einhver úr liði uppreisnarmanna séð aumur á honum og lauk lífi hans með skoti í höfuðið. Um alla heimsbyggðina birtust fréttir um að almenningur hefði loks náð harðstjóranum og sýndu miskunnarlaust myndir af honum í þessu ástandi. Það að borgarbúar höfðu reynt að verja hann og sig sjálf vikum saman við hryllilegar aðstæður var nærri aldrei tekið fram. Lík hans var svo flutt í frystigeymslu í Misrata, höfuðvígi íslamskra uppreisnarmanna, svo þeir sem vildu gætu séð hann og jafnvel vanvirt líkið. Hillary Clinton barst fregn um þennan atburð er hún var í sjónvarpsviðtali. Hún hló við tækifærið og lét frá sér hin fleygu orð „við komum, við sáum, hann dó“.

Þrátt fyrir þetta héldu borgarbúar enn uppi andspyrnu. Þann 23. október birtist frétt þess efnis að lík þöktu götur borgarinnar. Fréttamenn sáu fjölda líka sem höfðu verið bundin með hendur fyrir aftan bak. Borgin var kölluð draugaborg þar sem fnykur af dauðanum fyllti öll vit. Sigri hafði verið náð og uppreisnarmenn héldu nú til borganna Bani Walid og Sabha þar sem enn ríkti hörð andspyrna. Bani Walid hélt velli til 21. janúar 2012. Lítið var fjallað um þá staðreynd að borgarbúar þar voru augljóslega ekki að vinna fyrir hinn látna Gaddafis.

Ekki lengur skylda að bjarga

Líbía5.png

Sirte í Október 2011.

Raunir borgarbúa í Sirte voru bara rétt að byrja. Borgin var algerlega í rúst. Lík lágu á víð og dreif um borgina, vatns- og skólpkerfi borgarinnar voru ónýt og mengað vatn á um alla borgina. Vistir voru nánast engar. Það versta var að nú höfðu uppreisnarmenn náð valdi yfir borginni. Eins og menn höfðu óttast voru það íslamskir öfgamenn sem tóku stjórnina og hófu algjöra morðöldu. Þessi morð voru kallaðar „hefndaraðgerðir“ í vestrænum fjölmiðlum, sem er athyglisvert orðalag miðað við það að um var að ræða almenna borgara sem voru að verjast innrás og umsátri utanaðkomandi aðila. Það var Sirte sem varð síðar kölluð fyrsta borgin sem ISIS/Daesh náði fullum völdum yfir. En fréttamenn höfðu fengið sitt skot og næstu árin heyrðist lítið frá Sirte, borg sem áður var ein auðugasta borg álfunnar en var nú orðin helvíti á jörðu.

Gaddafi var ekki drepinn af heimamönnum

Gefið hefur verið í skyn að borgarbúar í Sirte hafi náð Gaddafi, en það er rangt. Síðustu vikurnar sem hann var á lífi flakkaði Gaddafi milli ólíkra íbúða í Sirte og hefðu borgarbúar viljað, hefði verið mjög auðvelt að plaffa hann niður. En það gerðu þeir ekki. Þess í stað héldu þeir uppi eins mikilli andspyrnu og mögulegt var, ekki endilega fyrir Gaddafi, heldur til þess að verja græna fánann, merki Jamahiriyakerfisins og til að koma í veg fyrir að uppreisnarmenn næðu völdum. Þessar árásir voru því í óþökk borgarbúa. Þegar komið var að umsátrinu um Sirte voru aðfarir NATO og uppreisnahersveitanna í Líbíu komnar svo langt frá ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1973 að það er hjákátlegt að nota hana sem afsökun fyrir því sem fram fór.

Hvíta byrðin og lýðræðið

Ef einhver heldur því fram að stríðið gegn Líbíu hafi verið háð í nafni lýðræðis og réttlætis kemur raunveruleikinn ekki heim og saman við það. Engin tilraun var gerð til að ná diplómatískri lausn á deilunni um Sirte. Þess í stað var hafið hið ógeðslegasta af öllum tegundum stríðsátaka; umsátur um borg þar sem 120 þúsund almennir borgarar bjuggu. Natóflugvélar og sérsveitarhermenn voru virkustu þátttakendurnir í þessum glæpi gegn mannkyninu. Engar mótbárur komur frá þingum Natoríkjanna um þessar árásir.

Ég leyfi mér að efast um að margir af þeim sem hæst hrópuðu um að eitthvað þyrfti að gera í Líbíu og studdu ofbeldisaðgerðirnar gegn landinu hafi í raun og veru kynnt sér Jamahiriya, eða hið flókna stjórnkerfi sem í raun og veru ríkti í landinu. Þeir sem hrópa svo hátt án þess að hafa þekkingu á bak við hljóta að vera þjakaðir af byrði hvíta manns Kiplings, nú undir nafninu „responsibiliy to protect“, hinni nýju afsökun fyrir að ráðskast með stjórnarfar annarra landa.

Almennir borgarar í Sirte og öðrum borgum og bæjum í Líbíu voru aldrei spurðir að því hvort þeir styddu árásarheri uppreisnarmanna eða aðfarir NATO, Katars og Sádi Arabíu í landinu. Þáverandi ríkisstjórn Líbíu lagði í þrígang til þess að komið yrði á vopnahléi í landinu svo halda mætti frjálsar kosningar undir handleiðslu alþjóðlegra eftirlitsstofnana. Þeim tillögum var öllum hafnað af bæði NATO og uppreisnarmönnum á þeim forsendum að ógnarstjórn Gaddafis væri slíka að ekki væri hægt að taka mark á slíkum kosningum. En kosningarnar sem haldnar voru eftir að uppreisnarherirnir höfðu kramið síðustu andspyrnuhópa borganna voru sannarlega haldnar undir ógnarstjórn og í miklum ótta. Meðal reglna voru þær að ekki mætti kjósa um hina svokölluðu grænu byltingu, Jamahiryia, stjórnarkerfið sem hafði ríkt. Það var því í raun einungis hægt að kjósa á milli ólíkra uppreisnarhópa. Forsjónin hjálpi þeim sem kjósa vitlaust undir þeim kringumstæðum sem nú ríktu; þar sem vígahópar léku lausum hala og jafnvel þrælasala var hafin á ný í torgum Trípólí, Misrata og Benghazi. Þetta er ekki sigur, heldur meiriháttar tap fyrir hið meinta lýðræði sem við þóttumst vera að standa fyrir.

Og hvað nú?

Líbýa er ekki horfin af yfirborði jarðar. Landið glímir nú við ákveðna vargöld þar sem ótal vígahópar ógna og kúga almenning. Fangelsi þessara hópa eru hryllingshús þar sem misnotkun og ofurofbeldi fer fram daglega. Almennir borgarar þurfa einmitt núna nauðsynlega hjálp við að stöðva þá. Þetta þarf alls ekki að vera stór aðgerð frá hinu góðhjartaða „alþjóðasamfélagi“. Enn situr andvirði milljarða Bandaríkjadala á reikningum erlendis sem voru frystir á þeim tíma sem flugferðabannið var sett á. Þessum peningum má ráðstafa til einu pólitísku innviðanna sem eru í raun starfhæfir, sveitastjórnanna. Hægt er að aðstoða sveitastjórnirnar í að afvopna öfgahópa. Öfgarasistana frá Misrata má stöðva svo að íbúar bæja á borð við Tawergha og Sirte geti snúið aftur til síns heima án þess að eiga í hættu á að verða fyrir ofbeldi þeirra. Þeir sömu og sögðu að eitthvað þyrfti að gera árið 2011 hljóta að gera það sama nú. Það er ekki hægt að taka til baka stuðninginn við morðhópa árið 2011, en það er hægt að gera hið rétta nú. Í það minnsta ætti að segja rétt frá því sem gerðist í Líbíu árið 2011.

 

Heimildir

[i] NRK, 26.08.2011. N.N. „Beskylder opprørerne om overgrep“.

[ii] NRK, 15.09.2011. „Harde kamper um Sirte“

[iii] Allen, V. 16.09.2011. Cameron flies in for Libya tour of victory. Daily Mail Online.

[iv] Zondag, NRK, 16.09.2011

[v] Wergeland, Paal. „NTC-styrkene inn i Sirte i natt“. NRK

[vi] Amund Aune Nilsen. 21.09.2011. Irak: Europeiske spesialstyrker slåss i Libya. NRK

[vii] Gunn Evy Auestad, 21.09.2011. Utvidar Libya-operasjonen med 90 dagar

[viii] Bent Tandestad, 21.09.2011. „Raseriet regjerer på Lampedusa“. NRK

[ix] Amund Aune Nilsen, 02.10.2011, Innbyggerne i kø for å forlate Sirte. NRK

[x] Kathrine Hamerstad, 05.10.2011. Barn dør på operasjonsbordet. NRK

[xi] Kathrine Hamerstad, 05.10.2011. Barn dør på operasjonsbordet. NRK

[xii] Paal Wergeland, 11.10.2011. Utrolig bilde: Soldat tok med seg gitar i kampen om Sirte. NRK

[xiii] NRK, 11.10.2011. Overgangsstyrkene hevder Sirte vil snart falle

[xiv] Anders Brekke, 19.10.2011. Denne skal knuse Sirtes forsvar

[xv] Harding, T. 20.10.2011. „Col. Gaddafi killed: Convoy bombed by drone flown by pilot in Las Vegas. The Telegraph“.

[xvi] EUKF. 25.10.2011. „Did SAS help catch Gaddafi?“ Elite UK Forces.