VALDARÁNIÐ Í BÓLIVÍU: OAS – EKKI GÓÐ HEIMILD
Þann 10. október var forseti Bólivíu, Evo Morales, neyddur til að segja af sér, að kröfu yfirmanna hers og lögreglu, tveimur vikum eftir að hann var lýstur sigurvegari kosninga. Það voru tvær vikur upphlaupa og ofbeldis. Íslenska ríkisútvarpið lýsti þessu sem sigri lýðræðisins: „Mikil fagnaðarlæti urðu á götum höfuðborgarinnar La Paz eftir að Morales tilkynnti um afsögnina.“ Sterkasti vitnisburður RÚV um þennan „sigur lýðræðisins“ var yfirlýsing ákveðinna samtaka: „Samtök Ameríkuríkja gerðu úttekt á kosningunum og birtu niðurstöður hennar í dag. Þar kom fram að óregla var í nánast öllum þáttum í framkvæmd kosninganna.“ https://www.ruv.is/frett/forseti-boliviu-segir-af-ser Fréttablaðið lætur sér nægja að vitna til sömu Samtaka Ameríkuríkja um kosningarnar að „framkvæmdin hafi ekki verið í lagi“ (mánud. 11. nóv). Í íslensku fjölmiðlunum er fall Moralesstjórnarinnar þó bara smáfrétt.
Því fer þó fjarri að Ameríkuríki séu einhuga til valdaskipta í Bólivíu: Kúba, Úruguay, Argentína, Venezúela, Níkaragua og Mexíkó hafa tekið skýra afstöðu gegn hinni þvinguðu afsögn. Mörg þeirra kalla hana „valdaraán“. Stjórnvöld í Moskvu kalla þetta „undirbúið valdarán“. Ýmsir mikilvægir stjórnmálamenn segja svipað. Jeremy Corbin skrifar: „Ég fordæmi þetta valdarán gegn Bólivíönsku þjóðinni“ og Bernie Sanders mótmælir því sem „virðist vera valdarán“.
Samtök Ameríkuríkja (Organization of American States, OAS) eru oft notuð sem frumheimild um atburði í rómönsku Ameríku. OAS eru fjársterk og hávær samtök sem eiga fasta vildarmenn á Vesturlöndum. Íslenskir fjölmiðlar fylgja oftast þeim fjölmiðlum sem útbásúna yfirlýsingar samtakanna hvað hæst, svo sú mynd sem við fáum af atburðum í þessum heimshluta er mikið mótaður af OAS. En yfirlýsingar þeirra ætti að taka með miklum fyrirvara og leita annarra heimilda ef hægt er, því OAS eru alls ekki hlutlæg samtök og hafa markmið sem hafa sterk áhrif á það sem þeir láta frá sér.
OAS varð til upp úr eldri samtökum Ameríkuríkja sem höfðu það hlutverk að greiða úr ágreiningsmálefnum í viðskiptum milli Bandaríkjanna og annarra ríkja í heimshlutanum. Ákveðið var að stofna OAS á ráðstefnu sem haldin var í Bogotá, höfuðborg Kólumbíu, árið 1948. Bandaríkjastjórn áleit að OAS væri gott vopn til að berjast gegn mögulegum uppgangi kommúnisma í álfunni og tók strax mikinn þátt í gerð og fjármögnun samtakanna. Úr varð stofnun sem hafði einmitt það meginhlutverk að berjast gegn „kommúnisma“, hugtak sem átti eftir að reynast afar teygjanlegt. Tafir urðu á stofnun samtakanna vegna þess að í aðdraganda ráðstefnunnar var Jorge Eliecer Gaitan, þáverandi borgarstjóri Bogotá og maður sem Bandaríkjastjórn hafði stimplað sem „mögulega hættulegan“ stjórnmálamann fyrir Bandaríkin, myrtur með skotum í bakið. Gaitan var álitinn líklegasti sigurvegari næstu forsetakosninga í landinu og morð hans olli uppþotum í landinu (Encyclopedia Britannica, 2019).
Stofnunin var ætíð mjög hlutdræg. Þannig var kúbverskum erindrekum meinaður aðgangur að félagsskapnum eftir byltinguna á Kúbu, stofnunin hefur að markmiði að innleiða fríverslunarsamninga frá Alaska til Argentínu auk þess sem langstærstur hluti fjármögnunar OAS kemur frá Bandaríkjunum (60% árið 2018) og má með réttu kalla þau leppsamtök Bandaríkjastjórnar.
Um leið hefur OAS kerfisbundið stutt hægrisinnaðar herstjórnir en gegn þeim sem stimplaðir eru „kommúnistar“. Meðal dæma um þetta eru eftirfarandi:
Árið 1954 auðveldaði OAS valdaráni að fara fram í Gvatemala og samþykktu ályktun sem leyfði íhlutun í innanríkismálum landsins. Í kjölfarið réðust Bandaríkin inn í landið, steyptu af stóli lýðræðislega kjörnum forseta og ríkisstjórn og komu á fót herstjórn undir forsæti Carlos Castillo Armas. Gögn úr geymslu CIA sem hafa verið opinberuð sanna að valdaránið var skipulagt af Leyniþjónustu Bandaríkjanna. Meðal þess sem kemur fram í skjölum CIA er að Lyndon Johnson, þá þingmaður, hafi samið ályktunartillögu sem svo var samþykkt um að veita Eisenhower forseta skilyrðislausan stuðning til að „halda kommúnismanum úr Vesturheimi“. Af þeim sökum áttu Bandaríkin að styðja OAS sem í skjalinu var lýst á eftirfarandi hátt: „OAS er undir sterkum áhrifum frá Bandaríkjunum“, til að berjast gegn „því uppnámi sem orðið hefur í sjálfstæðum ríkisstjórnum vegna alþjóðahreyfingar kommúnisma eða samsæri“ (Barrett, 1954).
Árið 1965 tók OAS beinan þátt í innrás Bandaríkjamanna í Dóminíska Lýðveldið. Bandaríkin réðust inn í landið í kjölfar þess að framsækin og sósíalísk samtök umbótasinna í stjórnarskrármálum sigruðu þingkosningar í landinu og til að koma frá völdum hinum vinsæla Juan Bosch. Þúsundir manna voru myrtir í innrásinni. Árið 2016 krafði ríkisstjórn Dóminíska Lýðveldisins OAS um formlega afsökunarbeiðni fyrir að hafa hjálpað til við og hvítþvegið þessa innrás (Dominican Today, 2016).
OAS hreyfði engum mótbárum þegar Augusto Pinochet tók völdin með aðstoð leyniþjónustu Bandaríkjanna í Chile árið 1973 og ráðstefna ríkjanna var haldin þarlendis árið 1976. Herstjórn Pinochets stóð að baki hundruðum mannshvarfa, þúsundir tilfella pyntinga og ólögmætra handtaka og studdu hryðjuverkahópa víða um heim. Er Bandaríkin réðust inn í Panama árið 1989 stóð OAS algerlega aðgerðarlaus og komu engum eftirmálum á, þrátt fyrir að sú innrás hefði verið fullkomlega ólögleg. Hún gerði heldur ekkert í því að þáverandi forseti Panama hafi verið rænt úr landinu og sóttur til saka í Bandaríkjunum (sjá nánar á COHA, 2014).
Venezúela hætti þátttöku í OAS 2017, en í valdaránstilrauninni í febrúar 2019 viðurkenndu samtökin fulltrúa frá Juan Guaidó og valdaránsöflunum sem lögmætan fulltrúa Venesúela hjá OAS.
Bólivía er nýjasta dæmið. Evo Morales sigraði í kosningum í Bólivíu þann 20. október. Samtökin Center for Economic and Policy Research (CEPR) rannsakaði kosningarnar og gerðu á þeim tölfræðilegar rannsóknir. Niðurstaðan var skýlaust sú að engin ummerki um svindl eða óeðlilega framkvæmd væru finnanleg (Beeton, 2019). Þrátt fyrir það gaf OAS út tilkynningu þess efnis að það hefðu átt sér stað „skýr merki um svindl“ í kosningaferlinu, yfirlýsingu sem Pompeo var fljótur að dreifa (sjá Bartlett, 2019). Yfirlýsing OAS er ekki byggð á neinum gögnum og ætti því að túlkast sem marklaus pappír, en íslenskir fjölmiðlar virðast ekki láta það hindra sig.
OAS eru í raun samtök hægrisinnaðra ríkisstjórna, fyrirtækja og einstaklinga í Ameríkuálfunum. Þau styðja t.a.m. tilraunir til valdaráns í Venesúela og spila nú stóran þátt í valdaráninu í Bólivíu. OAS ætti alls ekki að líta á sem góða heimild fyrir fréttum frá þessum heimshluta.
Heimildir
Barrett, D. M. 1954. Congress, the CIA, and Guatemala, 1954. US Central Intelligence Agency. Sótt af https://www.cia.gov/library/center-for-the-study-of-intelligence/kent-csi/vol44no5/html/v44i5a03p.htm
Bartlett, E. 2019 (11. nóvember). Resignation of Bolivia´s Evo Morales was no victory for democracy, but a US-sponsored coup. RT. Sótt af https://www.rt.com/op-ed/473181-morales-bolivia-american-coup/
Beeton, D. 2019 (8. nóvember). No evidence that Bolivian election results were affected by irregularities or fraud, statistical analysis shows. Center for economic and policy research (CEPR). Sótt af http://cepr.net/press-center/press-releases/no-evidence-that-bolivian-election-results-were-affected-by-irregularities-or-fraud-statistical-analysis-shows
Doleac, C. 2014. Are the organization of American States imperialist roots too deep to extirpate today? Council on Hemispheric Affairs. Sótt af http://www.coha.org/are-the-organization-of-american-states-imperialist-roots-too-deep-to-extirpate-with-today/
Dominican Today. 2015 (18. ágúst). OAS head issues historic apology for 1965 invasion. Sótt af https://dominicantoday.com/dr/local/2015/08/18/oas-head-issues-historic-apology-for-1965-invasion/
Encyclopedia Britannica. 2019 (13.11). Organization of American States. Sótt af https://www.britannica.com/topic/Organization-of-American-States